Leikstjórn og handrit: Phil Thomas Anderson. Aðalhlutverk: Tom Cruise, Julianne Moore, William H. Macy. (188 mín.) Bandaríkin 1999. Myndform. Bönnuð innan 12 ára.

ÞAÐ ER of langt mál að lýsa hér efni þessarar miklu kvikmyndar sem í einu og öllu er hugarfóstur eins athyglisverðasta bandaríska leikstjóra sem komið hefur fram á sjónarsviðið í háa herrans tíð. Hann gefur þó sterkt til kynna að rauði þráðurinn sé sá að í lífinu sé ekkert rúm fyrir nokkuð sem kalla má tilviljanir. Allt, nákvæmlega allt sem hendi okkur, sama hversu fáránlegt það kunni að vera eigi sér skýringu og tilgang. Þessa metnaðarfullu kenningu reynir hann að sanna með því að gefa innsýn í líf nokkurra einstaklinga sem í fyrstu virðast fátt eiga sameiginlegt, annað en óhamingju, eftirsjá og þrána um betra líf. Við nánari kynni ruglast reitir þeirra æ frekar uns hið óumflýjanlega uppgjör rignir yfir.

Anderson er frumlegur og ferskur kvikmyndagerðarmaður en í senn sér meðvitandi um snilli leikstjóra áttunda áratugarins, Altmans, Allens, Scorsese og jafnvel Bergmans. Og hann kann að velja leikarana, sem allir með tölu virðast njóta þess að vinna með Anderson, fáir þó frekar en senuþjófurinn Cruise. Hér fer snilldarverk sem sýnir og sannar að gæði Boogie Nights voru engin byrjendaheppni eftir allt saman!

Skarphéðinn Guðmundsson