Silja Úlfarsdóttir, hin efnilega hlaupakona úr FH,  á ferðinni á Laugardalsvellinum.
Silja Úlfarsdóttir, hin efnilega hlaupakona úr FH, á ferðinni á Laugardalsvellinum.
SILJA Úlfarsdóttir er 19 ára og stórefnilegur hlaupari. Hún sigraði í 400 m hlaupi á meistaramótinu ásamt því að hafna í öðru sæti í bæði 100 og 200 m hlaupi. Að auki leiddi hún sveit sína, FH, til sigurs í bæði 4x100 og 4x400 m boðhlaupi.

SILJA Úlfarsdóttir er 19 ára og stórefnilegur hlaupari. Hún sigraði í 400 m hlaupi á meistaramótinu ásamt því að hafna í öðru sæti í bæði 100 og 200 m hlaupi. Að auki leiddi hún sveit sína, FH, til sigurs í bæði 4x100 og 4x400 m boðhlaupi. Hún keppir um mánaðamótin fyrir hönd Íslands á Norðurlandamóti 22 ára og yngri í Gautaborg auk þess sem hún hefur náð lágmörkum fyrir heimsmeistaramót unglinga, sem haldið er í Chile í október.

"Ég var í Slóvakíu fyrir tveimur vikum og bætti mig í öllu þar. Ég er mjög ung þarna í Gautaborg miðað við hina og vona bara að ég nái að bæta mig. Hraðinn er að koma hjá mér og störtin," sagði Silja, sem keppir aðallega í 200 eða 400 m hlaupi. "Maður pínir sig allan veturinn bara til að keppa í þrjá mánuði og geta bætt sig á sumrin og það er gaman að fá að uppskera," sagði þessi hógværa hlaupakona.