SPJÓTKASTARINN Jón Ásgrímsson kastaði 64 metra slétta á meistaramóti Íslands um helgina þrátt fyrir að vera með slitin krossbönd í vinstra hné. Besti árangur Jóns er 72,78 metrar og er hann eitt mesta efni í greininni síðan Einar Vilhjálmsson keppti.

SPJÓTKASTARINN Jón Ásgrímsson kastaði 64 metra slétta á meistaramóti Íslands um helgina þrátt fyrir að vera með slitin krossbönd í vinstra hné. Besti árangur Jóns er 72,78 metrar og er hann eitt mesta efni í greininni síðan Einar Vilhjálmsson keppti. Jón hefur lengi átt við meiðsli að stríða en vonast til að komast í gegnum þau og hefja keppni af fullum krafti að nýju.

"Ég tók bara eitt kast og það var nóg. Ég var ekki að taka neina áhættu, það er ekki þess virði. Ég er að fara í aðgerð núna í haust. Þetta er í þriðja skiptið sem ég slít krossband. Þetta tekur á andlega, en ég ætla að reyna aftur, það þýðir ekkert annað. Maður nær alveg að halda sér í formi en það er ekki hægt að gera allt. Ef ég næ mér góðum þá er aldrei að vita hvað gerist. Stefnan er að ná langt í þessu," sagði Jón bjartsýnn.