Tölvuteikning af húsinu á´ Laugavegi 53b. Sú hlið sem snýr að Laugavegi er til hægri. Húsið skiptist í kjallara, sem er um 608 ferm., en þar verða bílageymslur o.fl. 1. hæð er 530 ferm. og er ætluð fyrir verzlun, 2. hæð verður um 486 ferm. og er ætluð fyri
Tölvuteikning af húsinu á´ Laugavegi 53b. Sú hlið sem snýr að Laugavegi er til hægri. Húsið skiptist í kjallara, sem er um 608 ferm., en þar verða bílageymslur o.fl. 1. hæð er 530 ferm. og er ætluð fyrir verzlun, 2. hæð verður um 486 ferm. og er ætluð fyri
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Mikill styrr hefur staðið um fyrirhugaða nýbyggingu á Laugavegi 53b. Nú er öllum deilum lokið. Magnús Sigurðsson kynnti sér bygginguna, sem mun setja mikinn svip á umhverfi sitt.

FRAMKVÆMDIR eru nú í fullum gangi við húsbygginguna á Laugavegi 53b. Í dag stendur verkið þannig, að búið er að steypa plötu fyrir verzlunarhæð hússins, en það verður á fjórum hæðum og með risi, alls 1.641 fm.

Húsið skiptist í kjallara, sem er um 608 fm, en þar verða bílageymslur o.fl. 1. hæð er 530 fm og er ætluð fyrir verzlun, 2. hæð verður um 486 fm og er ætluð fyrir verzlun og skrifstofur, 3. hæð er 215 fm en þar verða skrifstofur og á 4. og 5. hæð verða þrjár þakíbúðir (penthouse), en sú hæð verður 196 ferm.

Að sögn Sverris Kristjánssonar fasteignasala, sem er með húsið í sölu, er ætlunin að selja húsið á núverandi byggingarstigi og er ásett verð á húsið þannig 95 millj. kr. Afhending gæti farið fram mjög fljótlega.

"Þetta hús mun hafa mjög fjölþætta nýtingarmöguleika," segir Sverrir "Húsið er mjög skemmtilega útfært eins og sagt er á fagmáli og það verður með mjög góðu útsýni.

Það verður ekki bara með aðgengi frá Laugavegi heldur einnig með mjög góðu aðgengi frá Hverfisgötu og í kjallara verður góð bílageymsla með 18 stæðum."

"Þetta verður glæsilegt verzlunarhús á einstökum stað og á því leikur enginn vafi, að það verður mikil ásókn í það, þegar það er komið upp. Húsið felur því í sér mikið tækifæri fyrir þann, sem kaupir það í byggingu," sagði Sverrir Kristjánsson að lokum.

Gler áberandi

Húsið er byggt á lóð, sem er 660 fm og fyllir húsið alveg út í lóðina. Það verður einangrað og klætt að utan. Efri hæðirnar verða klæddar með keramikflísum á þeirri hlið, sem snýr að Laugavegi, en norðurhliðin klædd með áleiningum.

Gert er ráð fyrir verzlunum á tveimur fyrstu hæðunum og því verður framhlið þeirra að Laugavegi úr gleri og einnig hluti af vesturhliðinni, sem snýr að göngustíg, er liggur frá Laugavegi niður á Hverfisgötu. "Götuhæðin verður fremur há eða 3,5 metrar, en næsta hæð 3,15 metrar og síðan 2,80 metrar," segir hönnuður hússins, Örn Sigurðsson arkitekt.

"Gluggarnir á jarðhæð verða úr áli en úti á götunni verða fjórar stálsúlur, sem ná yfir tvær hæðir. Ásamt steinteypunni bera þær húsið uppi. Stálbogarnir eiga að vera í fjörlegum, háglansandi litum."

"Þetta hús er líka sérstætt að því leyti, að stiga- og lyftuhúsið er frístandandi og eiginlega aðskilið frá meginhúsinu á 1. og 2. hæð af stórum útitröppum og opinni göngugötu, sem liggur bak við húsið," heldur Örn áfram.

"Í stigahúsinu verður að sjálfsögðu lyfta, en hún er þannig útbúin, að einungis er hægt að nota hana til þess að komast úr bílageymslunni upp á jarðhæð og aðra hæð og svo bara með lykli af jarðhæð fyrir eigendur á báðar efri hæðirnar."

Að sögn Arnar voru upphaflega áformaðar 11 íbúðir í húsinu, en þeim hefur verið fækkað mikið. "Eins og er þá er gert ráð fyrir atvinnustarfsemi á 3. hæð, en það er til útfærsla, sem gerir ráð fyrir þremur íbúðum þar, þannig að íbúðirnar gætu verið sex. Útsýni er annars vegar til suðurs beint út á Laugaveginn, en frá norðurhliðinni er útsýni út á ytri höfnina og út á sundin og til fjalla.

"Þetta er nýtt hús og það á að vera barn síns tíma," segir Örn Sigurðsson arkitekt að lokum. "En það verður að sjálfsögðu að taka tillit til síns umhverfis."

Laugavegurinn heldur velli

Jón Sigurjónssson kaupmaður í verzluninni Jón & Óskar á Laugavegi 61 er eigandi hússins. Hann hyggst ekki ljúka byggingu þess, heldur selja það á því stigi, sem það er nú.

"Það hefur staðið mikill styrr um þetta hús, en nú er öllum deilum lokið," segir Jón Sigurjónsson. "Ég tel, að það bjóði upp á mikla möguleika. Í fyrsta lagi verður afar lítið um, að byggð verði myndarleg verzlunarhús við Laugaveg á næstunni. Það verður því ekki mikið um nýja verzlunaraðstöðu þar.

Í öðru lagi býður þetta hús upp á þann möguleika, að þar verði rekin stór verzlun, en flestar verzlanir við Laugaveg eru í frekar litlum plássum."

"Ég hef mikla trú á Laugavegi sem aðalverzlunargötu Reykjavíkur," sagði Jón ennfremur. "Sjálfur rek ég mína verzlun áfram á Laugavegi 61, enda hefur sá rekstur gengið vel.

Fyrirhuguð verzlunarmiðstöð í Smáralind hefur ekki farið framhjá neinum. En við megum ekki missa aðalverzlunargötu Reykvíkur til Kópavogs. Reykvíkingar og raunar landsmenn allir verða að standa vörð um Laugaveg í framtíðinni.

Ég er því sannfærður um, að allt verði gert af hálfu borgaryfirvalda og annarra til þess að Laugavegur verði áfram aðalverzlunargata Reykjavíkur."