Þegar kaupa skal íbúð fyrir fjölskylduna má ekki láta ytra útlit villa sér sýn. Það verður að huga að því, sem ekki er sýnilegt.
Þegar kaupa skal íbúð fyrir fjölskylduna má ekki láta ytra útlit villa sér sýn. Það verður að huga að því, sem ekki er sýnilegt.
Það eru til ýmsar leiðir til til að leysa ágreining út af lögnum við húsakaup, segir Sigurður Grétar Guðmundsson. Dómstólaleiðin hefur í för með sér mikinn kostnað.

VIÐ KAUP á eldra húsnæði er margt að athuga, ekki síst í sambandi við lagnir. Nú erum við Íslendingar að sigla hraðbyri inn á það tímaskeið að stór hluti eldri íbúða, sem eru á markaði, eru orðnar hálfrar aldar gamlar og sumar vel það.

Það var ekki fyrr en komið var fram yfir miðja öld sem verulegur skriður komst á íbúðarbyggingar í þéttbýli hérlendis, það var ekki fyrr en gullið frá "blessuðu" stríðinu fór að flæða um þjóðarlíkamann.

Þess vegna verða íbúðarkaupendur að vera betur á verði en áður, það þurfa raunar allir sem koma að sölu og kaupum á húsnæði að vera, þar með taldir fasteignasalar, það þurfa allir að tileinka sér nýjan hugsunarhátt, sérstaklega hvað lagnirnar varðar.

Fram að þessu hafa menn yfirleitt dæmt eftir því sem sýnilegt er, en það gengur ekki með hálfrar aldar gamalt húsnæði, þar skiptir ekki minna máli hvað er undir gólfi eða inni í veggjum.

Fram að þessu hafa húskaupendur æði oft viljað telja það dulda galla ef lagnir bila í húsnæði sem þeir eru nýbúnir að kaupa og vissulega er hægt að heimfæra galla á lögnum undir það hugtak.

En ef í ljós kemur að skólplögn í grunni fimmtíu ára gamals húss, lögð úr steinrörum, reynist gölluð er tæplega hægt að tala um leyndan galla, það er eðlileg hrörnun.

Ef húsið væri tuttugu til þrjátíu árum yngra horfði málið öðruvísi við.

Þetta sýnir okkur að það verður að meta lagnir í húsum eftir nokkrum bláköldum staðreyndum og helstar eru þessar þrjár; aldur hússins, efnið í lögnunum, hvar lagnirnar eru og að lokum hvaða vatn er og var í lögnunum.

Þetta sýnir okkur einnig að það er hægt að búa til líkan og meta í hvaða ástandi lagnir hússins eru, þótt þær sjáist ekki og það verður mikilvægara með hverju árinu sem líður að þannig sé að verki staðið.

Leysið ágreining

Það eru til ýmsar leiðir til að leysa ágreining út af lögnum við húsakaup.

Ef slíkur ágreiningur fer fyrir dómstóla hefur það í för með sér mikinn kostnað og þann kostnað verður einhver að bera. Því miður leggja margir út á þá braut í trausti þess að málið vinnist en þar er ekkert víst, ef svo væri þyrfti tæplega dómstóla. Ef mál fara dómstólaleiðina endar alltaf með því að einhver tapar og verður fyrir miklum skaða.

Auk þess eru dómstólar landsins yfirhlaðnir af mörgum mikilvægum málum, verum ekki að íþyngja þeim með málum sem hægt er að leysa á einfaldari, skilvirkari og ódýrari hátt.

Gæðamatsráð Lagnafélagsins

Ein af þeim leiðum sem hægt er að fara er að vísa ágreiningsmálum til gæðamatsráðs Lagnafélags Íslands sem vinnur að því að leita lausna í samvinnu við Húseigendafélagið og Neytendasamtökin. Þessi leið sem er fljótvirk, getur sparað mikinn herkostnað.

Hér er alls ekki um dómstól að ræða, heldur það að fengið er tæknilegt álit um tiltekna galla, af hverju þeir stafi og hvernig sé hægt að ráða bót á þeim, hvort um eðlilega hrörnun lagna sé að ræða eða handvömm verktaka ef um nýrri byggingar er að ræða.

Það hefur þegar sýnt sig að þetta hefur leyst mörg ágreiningsmál á frumstigi, það er ekki lítils virði.

Eins og fram hefur komið á þetta ekki aðeins við um eldri lagnir; ef ágreiningur er um frágang og efnisval í nýlögnum er einnig hægt að vísa því til gæðamatsráðsins.

Félag pípulagningameistara hefur einnig starfandi gæðamatsnefnd, sem hægt er að vísa málum til ef ágreiningur verður varðandi nýlagnir þar sem félagsmenn þess eiga í hlut.