Starfsmenn fasteignasölunnar Fasteign.is: Halldóra Ólafsdóttir, skjalavörður og ritari, Jason Guðmundsson, löggiltur fasteignasali, Kristján Björnsson, löggiltur fasteignasali og Ólafur B. Blöndal, löggiltur fasteignasali og eigandi Fasteign.is. Ætlunin er
Starfsmenn fasteignasölunnar Fasteign.is: Halldóra Ólafsdóttir, skjalavörður og ritari, Jason Guðmundsson, löggiltur fasteignasali, Kristján Björnsson, löggiltur fasteignasali og Ólafur B. Blöndal, löggiltur fasteignasali og eigandi Fasteign.is. Ætlunin er
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það hefur dregið úr verðhækkunum og spennan á markaðnum hefur aðeins rénað, segir Ólafur B. Blöndal, eigandi nýstofnaðrar fasteignasölu, Fasteign.is. Magnús Sigurðsson ræddi við Ólaf, sem þegar er kominn með fjölda eigna á söluskrá.

NETIÐ er stöðugt að verða mikilvægari þáttur í sölu fasteigna, enda fer þeim jafnt og þétt fjölgandi, sem eiga aðgang að Netinu og kunna að hagnýta sér það. Þetta kom fram í viðtali við Ólaf B. Blöndal, löggiltan fasteignasala og eiganda nýstofnaðrar fasteignasölu, Fasteign.is, sem hefur aðsetur í Borgartúni 22 í Reykjavík.

"Það er því ekki að ástæðulausu sem nafnið er látið skírskota til Netsins, en þetta verður nútímaleg fasteignasala," segir Ólafur. "Við munum hagnýta okkur Netið í ríkum mæli og vera með daglega uppfærða heimasíðu um þær eignir, sem við höfum til sölu. Auk þess verðum við með ýmsar nýjungar á markaðnum, sem munu sjá dagsins ljós á næstu mánuðum."

Ólafur B. Blöndal er enginn nýgræðingur í fasteignasölu, því hann hefur starfað við hana frá árinu 1990, fyrstu tvö árin á fasteignasölunni Huginn en síðan á fasteignasölunni Gimli og síðustu árin sem sölustjóri þar.

"Starfsmenn hjá Fasteign.is verða fjórir til að byrja með en þeir verða orðnir sex eða sjö innan nokkurra mánaða," segir hann. "Allir sölumennirnir verða löggiltir fasteignasalar og auk þeirra munu starfa hér lögfræðingur og ritari.

Við munum leggja áherzlu á sölu íbúðarhúsnæðis, en ráða til okkar mann, sem hefur eingöngu á sinni könnu sölu atvinnuhúsnæðis. Það verður þá sérdeild innan fyrirtækisins. Ég geri hins vegar ekki ráð fyrir að við munum fara út í sölu á fyrirtækjum."

Spennan hefur aðeins rénað

"Mér finnst bjartsýni einkenna markaðinn nú," heldur Ólafur áfram. "Sú spenna sem ríkt hefur undanfarið ár hefur samt aðeins rénað og það hefur dregið úr verðhækkunum. Það hafði vissulega neikvæð áhrif á markaðinn í síðasta mánuði, þegar Búnaðarbankinn og Landsbankinn hættu um sinn viðskiptavakt sinni með húsbréfin.

Það varð til þess að ávöxtunarkrafa húsbréfa fór upp fyrir nafnvexti húsbréfanna, sem leiddi til affalla af þeim. Þetta setti markaðinn í ákveðna biðstöðu og fólk hélt að sér höndunum, sem er í sjálfu sér eðlilegt, þegar afföll fara upp í 15-20% á mjög skömmum tíma.

Bankarnir hafa nú aftur tekið að sér að vera viðskiptavakar og afföllin af húsbréfunum hafa minnkað á ný. Markaðurinn hefur því aftur tekið hressilega við sér.

Í fyrra kom Landsbankinn fram með svokölluð heimilislán með vexti niður í 5,5% miðað við fyrsta veðrétt og þessi lán voru allt upp í 70% lán og til 30 ára. Mjög margir tóku þennan kost fram yfir húsbréfin, þar sem ekki munaði nema 0,4% á vöxtum og þá jafnvel með söfnunarlíftryggingu og möguleika á að flytja lánið með sér á milli fasteigna.

Ástæðan var sú, að Íbúðalánasjóður hefur ekki lengi hækkað útlánaþak sitt, sem er orðið allt of lágt miðað við verðþróun á markaðnum eða um 6,4 millj. kr. fyrir notað húsnæði og 7,6 millj. kr. fyrir nýbyggingar.

Þetta skipti máli við kaup á dýrari eignum, á bilinu 20-30 millj. kr., því þá var hægt að fá lán hjá Landsbanka og fleiri bönkum með vöxtum, sem voru það lágir, að þeir nálguðust vexti á húsbréfum. Nú hafa vextir hækkað það mikið hjá bönkunum aftur, að þeir eru komnir upp í 7-7,5%, sem þýðir að það hefur hægt mjög á útlánum frá bönkunum til íbúðarkaupa.

Að sögn Ólafs er aðeins meira framboð á fasteignum nú en var fyrir eins og hálfu ári, en eftirspurnin er áfram afar mikil. "Í heild hefur því verið mikill kraftur í fagsteignamarkaðnum í sumar og mikið að gerast," segir hann. "Á árum áður róaðist markaðurinn mjög mikið yfir sumarfrísmánuðina og einnig í jólamánuðinum, desember.

Þetta er liðin tíð. Það er mjög tímafrekt að finna heppilega fasteign og fólk er farið að nota fríin sín í það. Það er því orðið miklu jafnara að gera yfir árið."

"En það er nauðsynlegt að peningamálum í landinu sé stjórnað með gát," heldur Ólafur áfram. "Það eru komin fram ákveðin þenslumerki í efnahagslífinu og aðeins farin að blikka hættuljós. Seðlabankinn og Þjóðhagsstofnun hafa verið að senda út viðvaranir. Neyzlulán eru orðin óeðlilega há hjá fólki og mikið um fjárfestingar.

Nú hefur aðeins dregið úr verðhækkununum á fasteignum, en framhaldið fer mikið eftir því hvernig vaxtaþróunin verður. Ég tel að það þurfi að koma til vaxtalækkun til þess að fasteignamarkaðurinn haldi velli og eins að það takizt að halda niðri verðbólgunni.

Ef jafnvægi helzt í fjármálum, eru allar líkur á að hin mikla eftirspurn eftir íbúðarhúsnæði haldi áfram. Aðflutningar af landsbyggðinni á höfuðborgarsvæðið eru enn afar miklir. Það eitt og sér veldur því að eftirspurnin helzt mikil.

Þar að auki er mikið af fólki að flytjast heim erlendis frá. Þetta er fólk sem gjarnan er búið að vera i langskólanámi og er komið heim til að setjast að en vantar húsnæði. Til viðbótar er lóðaskortur og ekki eins mikið byggt af nýju íbúðarhúsnæði og þyrfti. Allt veldur þetta mikilli eftirspurn og háu verði."

Fasteign.is hefur aðsetur í 250 ferm. húsnæði á jarðhæð í Borgartúni 22. "Að auki erum við með 100 ferm. kjallara til viðbótar fyrir skjalageymslur o.fl.," segir Ólafur. "Allt þetta húsnæði er nýinnréttað en við tókum við því nánast fokheldu. Hér er því allt nýtt, lagnir, gólfefni, innréttingar og annað.

Skrifstofuherbergin eru sex og mjög rúm og björt með góðum gluggum. Auk þess er hér góð móttaka.

Ég tel þetta húsnæði því henta mjög vel. Staðsetningin er frábær, en hinum megin við götuna eru Íbúðalánasjóður og Fasteignamat ríkisins. Byggingarfulltrúinn í Reykjavík er líka í sömu götu. Þetta eru þeir opinberu aðilar sem við erum hvað mest í daglegum samskiptum við. Einnig er banki hér við hliðina. Það á sér stað mikil uppbygging og endurnýjun í Borgartúni og það er mjög skemmtilegt að vera nánast þátttakandi í henni."

Fjöldi eigna á skrá

Fasteign.is hefur þegar hafið starfsemi af krafti og er strax komin með tugi eigna á söluskrá. Fasteign.is er m.a. með til sölu 2.080 ferm. atvinnuhúsnæði á tveimur hæðum við Bíldshöfða 10. "Þetta er vel við haldið húsnæði í toppstandi, sem hentar undir margs konar starfsemi," segir Ólafur. "Það er með góðum skrifstofum, aðkoma er góð og gríðarlega stórt malbikað bílstæði fyrir framan, en það fylgir byggingaréttur á lóðinni fyrir framan á 1.950 ferm. húsi."

Við Sólbraut 7 á Seltjarnarnesi er Fasteign.is með til sölu einbýlishús á einni hæð. Húsið er um 150 ferm. og því fylgir tvöfaldur 53 ferm. bílskúr, sem er frístandandi. "Þetta er óvenju glæsilegt einbýlishús," segir Ólafur. "Það hefur allt verið endurnýjað frá grunni á undanförnum árum. Allt inni er nýtt, öll gólfefni, allar innréttingar og allar lagnir. Lóðin ein og sér er mjög falleg og með góðum sólpöllum. Þetta hús er til afhendingar strax, en ásett verð er 31,5 millj. kr.

Við Beykihlíð 6 er Fasteign.is með til sölu gott parhús. Húsið er á tveimur hæðum, um 200 ferm. alls og með vönduðum innréttingum, parketi á gólfum, innbyggðum bílskúr með gryfju og síðan er óinnréttað rými undir öllu húsinu, sem gengið er niður í úr bílskúrnum. Gengið er út í bakgarð bæði úr bílskúr og úr stofu.

"Það sem er sérstakt við þetta hús er að því fylgir 60 ferm. aukahús, sem er steinsteypt, hæð og ris. Þetta hús hentar mjög vel til útleigu. Auk þess fylgja fjögur bílastæði þessu húsi," segir Ólafur. Ásett verð á þessa eign er 30,5 millj. kr."