Horft inn í stofuna í húsi Hjartar Eiríkssonar.
Horft inn í stofuna í húsi Hjartar Eiríkssonar.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Innflutt hús sem koma tilbúin í "einum pakka" njóta sífellt meiri vinsælda hér á landi. Í Reykjanesbæ hafa félagarnir Hjörtur Eiríksson og Ólafur Eyjólfsson reist sér gríðarmikil hús frá Kanada og segja Súsönnu Svavarsdóttur frá helstu kostunum - ekki síst þeim fjárhagslegu.

Ég ætla aldrei að byggja," er setning sem við höfum flest heyrt, eða jafnvel sagt. Við höfum séð ættingja og vini puða í nýbyggingum, eltast við iðnaðarmenn og snúast um allar trissur til að redda og kaupa allt sem með á að éta. Í Keflavík eru tveir ungir menn sem einmitt sögðust aldrei ætla að byggja.

Þetta eru þeir Ólafur Eyjólfsson og Hjörtur Eiríksson sem hafa nú komið sér fyrir í tæplega 300 fm. húsum hlið við hlið við Bakkaveginn á Berginu með útsýni yfir smábátahöfnina. Húsin "byggðu" þeir sjálfir en eyddu ekki mánuðum og árum í það, heldur keyptu pakkann tilbúinn frá Kanada og fluttu inn í húsin tilbúin tveimur og hálfum mánuði eftir að þau komu til landsins.

Þegar þeir Ólafur og Hjörtur eru spurðir hvers vegna þeir hafi valið hús frá Kanada segja þeir margar ástæður fyrir því - og kannski ekki síst veðurfarslegar. "Það var svo fyndið að við höfðum báðir verið að skoða þennan möguleika mjög lengi - en í sitt hvoru lagi og höfðum ekkert rætt hann okkar á milli," segir Ólafur og Hjörtur bætir við:

"Þegar við fórum svo loksins að ræða málin snerum við okkur að Netinu til þess að leita að fyrirtæki sem næst austurströnd Kanada til þess að draga úr flutningskostnaði. Þar fundum við þetta fyrirtæki sem heitir Jenish og hefur slóðina jenish.com. Þeir virtust mjög traustir og okkur leist vel á húsin þeirra og fengum senda bæklinga frá þeim. Og þá var bara að velja hús."

Öðruvísi festingar og frágangur á þökum

Komu þau tilbúin, með öllu? "Já, öllu nema auðvitað gólfefnum, pípulögnum, raflögnum, málningu og rafmagnstækjum," segir Hjörtur sem þó pantaði ísskápinn með húsinu. En var ekkert vandamál að fá leyfi fyrir innflutningi á húsunum?

"Nei, nema síður sé. Það hefði mátt halda að byggingarfulltrúinn hér væri að flytja húsin inn með okkur. Hann hjálpaði okkur mjög mikið og var duglegur við að benda okkur á hvað við þyrftum að varast. Hann fylgdi okkur skref fyrir skref í gegnum þetta."

Hvað þurfti að varast? "Það var nú eitt og annað. Til dæmis eru festingar öðruvísi hér heima en í Kanada út af vindálagi. Við festum húsin okkar mun meira hér en gert er í Kanada og göngum öðruvísi frá þökum. Þetta vissum við auðvitað ekki þar sem við erum ekki iðnaðarmenn. Þegar svo farið var að reisa húsin fengum við byggingarfulltrúann til þess að koma til að fylgjast með því hvað væri krítískt en þá kom í ljós að þessi hús eru miklu sterkari en við eigum að venjast hér á landi.

Kanadamenn búa við svipað veðurfar og við. Að vísu ekki eins mikinn vind, en gríðarlega mikil snjóþyngsli, segir Hjörtur.

"Það er mjög fyndið að fólk hefur miklar skoðanir á "amerískum" húsum. Það sér fyrir sér húsin á Flórída sem fjúka í hvirfilbyljum og álítur öll hús í Bandaríkjunum pappahús. En það eru ótal fyrirtæki að selja tilbúin hús í Bandaríkjunum og Kanada og það er um að gera að leita vel að fyrirtæki sem sérhæfir sig í húsum fyrir þær aðstæður sem við búum við," segir Ólafur.

Húsin tvö við Bakkaveginn eru timburhús og segja þeir Ólafur og Hjörtur að í þeim sé miklu meira timbur en við eigum að venjast. "Hver spýta er merkt og búin að fara í gegnum gæðakerfi," segja þeir, "og síðan fylgja þeim teikningar sem sýna hvar hver spýta á að vera. Leiðbeiningarnar eru mjög nákvæmar og við gerðum oft grín að því að þetta væri eins og Ikeapakki. En vegna þess hversu nákvæmar leiðbeiningarnar eru, þá tók mjög stuttan tíma að reisa húsin. Við opnuðum gáminn 17. september 1999. Þau voru fokheld 27. september og við fluttum inn 1. desember."

Hverjir eru helstu kostirnir við að flytja svona hús inn í heilu lagi? "Í fyrsta lagi þeir að maður fær allt í einu. Það er allt á staðnum og maður þarf ekki að vera í eilífum snúningum við að sækja hitt og þetta. Síðan er byggingartíminn svo stuttur að fjármagnskostnaður verður sáralítill."

Þrjátíu prósent ódýrara

En er þetta ódýrara en að byggja eftir gömlu góðu aðferðinni, þegar upp er staðið? "Já, það er auðvitað mjög hagstætt hvað byggingartíminn er stuttur. Þegar búið er að tína allt til er um 30% ódýrara að reisa þessi hús," segir Ólafur. "Ég held að venjulega sé kostnaður við nýbyggingu reiknaður á 104-106 þúsund á fermetra en þessi hús hafa líklega kostað um 67 þúsund krónur á fermetra." "Og það er þrátt fyrir það að þessi hús hafa meiri "fídusa" en gengur og gerist, til dæmis útskot, sem alltaf eru aukakostnaður, og valmaþök en það eru þessi amerísku þök sem eru mjög hallandi en hafa ekki neina gafla.

Almennt er miklu dýrara að byggja þannig hús. Síðan eru allir gluggar úr plasti og glerið er gasfyllt, sem þýðir meiri einangrun. Þakefnið sem við völdum er asfaltskífur en það er hægt að fá ýmis efni. Þegar búið er að leggja þakið er það viðhaldsfrítt í þrjátíu ár."

Eftir að þeir Ólafur og Hjörtur höfðu setið við tölvuna í heila viku, án þess að sofa, eins og þeir segja, pöntuðu þeir sér hús. "Við skrifuðum undir samning 24. júní. Þá gerðum við plötuna og lögðum hitalagnir," segja þeir. "Einn af stóru kostunum er svo auðvitað sá að þegar þú hefur valið þér hús geturðu breytt skipulaginu á því - svo lengi sem það gengur upp verkfræðilega. Það er ekkert heilagt við þessar teikningar. Það er enginn arkitektahroki í pakkanum.

Nú þegar hafa tólf hús til viðbótar verið pöntuð til Íslands frá þessu fyrirtæki og það er ljóst að það er að koma ný vídd í húsbyggingar hér. En það er ekki bara pantað frá Jenish, því margir hafa pantað frá öðrum fyrirtækjum, svo það má segja að mikið sé í gangi í þessum bransa."

Betur hljóðeinangruð

"Enn einn kosturinn er sá að þessi hús eru betur hljóðeinangruð en íslensku húsin. Þegar til dæmis fulltrúi frá fyrirtækinu kom hingað til lands til að fylgjast með uppsetningu húsanna dvaldi hann á hóteli og gat lítið sofið fyrir gnauði í gluggum og umferðarhávaða. Við höfum nú búið í þessum húsum í heilan vetur - sem var mjög svo harður - og heyrðum ekkert í veðrinu, ekki einu sinni þegar það var kolvitlaust," segir Ólafur og Hjörtur bætir við:

"Þegar við fórum að leita að húsum var markmið okkar að reyna að byggja hús sem yrðu nánast viðhaldslaus. Við gátum ekki hugsað okkur að vera hálft sumarið að mála og græja allt og mér fannst mikill kostur að fá klæðningu með 25 ára litaábyrgð."