EIMSKIPAFÉLAG Íslands hefur ákveðið að hækka innflutningsgjöld um 4,9%, að sögn Þórðar Sverrissonar, framkvæmdastjóra flutningasviðs félagsins. Hann segir ástæðuna vera hækkanir á olíuverði og ýmsum erlendum kostnaði, eins og skipa- og gámakostnaði.

EIMSKIPAFÉLAG Íslands hefur ákveðið að hækka innflutningsgjöld um 4,9%, að sögn Þórðar Sverrissonar, framkvæmdastjóra flutningasviðs félagsins. Hann segir ástæðuna vera hækkanir á olíuverði og ýmsum erlendum kostnaði, eins og skipa- og gámakostnaði.

"Þetta er einnig í samræmi við verðlagsþróunina frá því í fyrra. Við greindum frá því fyrir nokkrum vikum að afkoma félagsins yrði ekki í samræmi við áætlanir. Því er verið að grípa nú til aðgerða til að bregðast við þeirri stöðu með því að hækka flutningsgjöld í takt við verðlagsþróun. Einnig er nú unnið að kostnaðarlækkun hjá félaginu," segir Þórður.

Samskip útiloka ekki hækkanir í haust

Ólafur Ólafsson, forstjóri Samskipa, segist ekki útiloka hækkanir á flutningsgjöldum hjá félaginu. "Þau hafa hins vegar verið að lækka samfellt í allt að eitt ár."

Kostnaðarhækkanir hafa verið umtalsverðar, að sögn Ólafs. Sér í lagi miklar olíuverðshækkanir á þessu ári og því síðasta, auk þess sem launakostnaður hefur vaxið í kjölfar nýrra kjarasamninga. "Gengisþróun hefur verið félaginu óhagstæð. Tekjurnar hafa lækkað, en stór hluti þeirra er bundinn í erlendum myntum."

Ólafur segir að farið verði yfir málin á haustmánuðum og væntanlega komi í ljós þá hvort gripið verði til hækkana á flutningsgjöldunum.