Þórshöfn í Færeyjum.
Þórshöfn í Færeyjum.
Ég hef komið til Íslands hér um bil árlega síðustu 30 árin. Alltaf er mér mjög vel tekið, og munurinn á því að vera staddur hér og í Færeyjum minnkar ár frá ári. Ég veit, að þessi þróun kemur ekki af sjálfu sér, og e.t.v. lýkur henni aldrei.

Ég hef komið til Íslands hér um bil árlega síðustu 30 árin. Alltaf er mér mjög vel tekið, og munurinn á því að vera staddur hér og í Færeyjum minnkar ár frá ári. Ég veit, að þessi þróun kemur ekki af sjálfu sér, og e.t.v. lýkur henni aldrei. Hins vegar eru þessi málefni mikilvæg, ekki síst núna, þegar sjálfstæðisbarátta Færeyinga er í svipuðum sporum og hér á landi í kringum 1918. Þegar þú ert heima hjá þér í Þórshöfn eru augu og eyru galopin gagnvart öllu íslensku fréttaefni, og eins eru Færeyjar forvitnilegt fréttaefni, þegar hlustað er á útvarp eða blöðin lesin hér á Íslandi.

Í dag, þegar ég hlustaði á hádegisfréttirnar í íslenska ríkisútvarpinu, heyrði ég fréttapistil um heimsókn Pauls Watson í Færeyjum þessa dagana. Tvennt kom mér á óvart. Í fyrsta lagi flutti íslenskur fréttamaður ríkisútvarpsins í Kaupmannahöfn fréttina. Enn verra var þó, að hann talaði ekki frá eigin brjósti, heldur vitnaði í danska dagblaðið Berlingske Tidende viðvíkjandi Watson og félögum.

Hvers vegna getum við ekki heyrt fréttirnar beint frá Færeyjum? Ég bara spyr! Þar er bæði útvarp og sjónvarp með fjölda blaðamanna í fullu starfi, og þar eru dagblöð og blaðamenn, sem gera ekki annað allan daginn allan ársins hring en að skrifa fréttir. Þar að auki hef ég einmitt þessa dagana lesið í íslenskri bók, að í Færeyjum búi 658 Íslendingar (hvernig sem sú tala hefur komist á yfirborð teningsins). Kannski gæti einhver þeirra tjáð sig um málið. Til er færeysk símaskrá anno 2000, þar sem hægt er að finna símanúmer, hringja og spyrja frétta.

Í dag - á tímum fjarskipta og tækni - skil ég alls ekki svona vinnubrögð. Ef peningalítil einkaútvarpsstöð ætti hér hlut að máli hefði ég kannski skilið þetta betur!

Ég hef oft heyrt eða lesið í fréttum í Þórshöfn eða í Kaupmannahöfn um t.d. jarðskjálfta eða eldgos á Íslandi. Þvílíkar fréttir stinga þar upp kollinum eins og skrattinn úr sauðarleggnum - æsifréttir - aldeilis upp úr þurru - og síðan heyrum við ekkert meira um gang mála eða hvernig fólki og fé reiðir af. Það er alls ekki hugsað út í, að kannski eru áheyrendur í landinu, sem eiga einhvern að og hlusta, horfa á eða lesa fréttirnar með tilfinningu og af djúpum áhuga. Ég hef hingað til talið þess konar vinnubrögð til blaðamanna úti í hinum stóra heimi. En sennilega verð ég að endurskoða hug minn.

Frétt dagsins í ríkisútvarpinu um Watson telst því miður til hvimleiðra vinnubragða af þessu tagi. Lítið er farið ofan í saumana, og einungis sögð æsifrétt - í þessu tilfelli úr stóru dönsku dagblaði, eins og það sé nú opinberun sannleikans!

Ég segi bara eins og hinn þjóðkunni Ragnar Reykás: "Þetta er náttúrulega alveg út í hött!"

Eigum við ekki að vinna áfram að því að minnka muninn á milli landanna okkar tveggja, eða hvað?

MARTIN NÆS,

staddur á Akureyri,

Einilundi 4.s

Frá Martin Næs: