Samgönguráðherra, forseti Alþingis, oddviti Skútustaðahrepps og formaður Ferðafélags Akureyrar ásamt nokkrum öðrum gestum fóru að þessu tilefni í Lindar þar sem athöfn fór fram á varnargarðinum nýja.
Ingvar Teitsson, formaður Ferðafélags Akureyrar, flutti ræðu og rakti sögu varnargarða á þessum stað, en fyrst var hamlað gegn jökulfljótinu 1945 og var þar á ferðinni Páll Arason frá Þúfnavöllum ásamt fleiri Eyfirðingum. Þessi hópur vann "meirihlutann af degi" með handverkfærum við að byggja varnargarð. Í hópnum var meðal annarra Davíð skáld frá Fagraskógi. Hann orti þessa vísu um framkvæmdina:
Enginn vættur við þeim sá,
veg þeir ruddu um hraun og gjá.
Hentu grjóti í hyldjúp lág,
hlóðu stíflu í Jökulsá.
Mikið vatn í ánni
Annar garður var byggður 1957 og sópaði áin honum burt í flóði um 1975. Eftir það var byggður nýr og hærri garður. Undanfarin 20 ár hafa sífellt verið að koma hlaup, ekki síst í Kreppu, sem hafa valdið verulegum skemmdum á gróðri og mannvirkjum í Lindunum. Loks kom stóra hlaupið í Kreppu 1. ágúst 1999 og flæddi þá mjög mikið vatn út yfir Herðubreiðarlindir og spillti þar gróðri.Í nóvember síðastliðinn fór Dyngjujökull að skríða fram. Þar með var ljóst að mun meira vatn en ella yrði í Jökulsá í sumar. Því var mjög brýnt að stórefla varnargarðinn til að vernda Herðubreiðarlindir. Ferðafélag Akureyrar beitti sér fyrir því að farið yrði í styrkingu varnargarðsins og naut þar til stuðnings margra aðila. Þar réð úrslitum stuðningur forseta Alþingis, Halldórs Blöndal, og þakkaði Ingvar Halldóri sérstaklega hans mikilvæga framlag í þessu máli. Einnig þakkaði hann samgönguráðherra fyrir stuðning hans, en ráðuneyti hans mun greiða kostnaðinn við gerð þessa varnargarðs.
Sturla Böðvarsson ávarpaði viðstadda og lét í ljós þá ósk að varnargarðurinn mætti duga vel um ókomin ár. Því næst lagði Sturla hornstein í garðinn með aðstoð Ingvars Teitssonar.
Að þessu loknu hélt hópurinn inn að Drekagili og þaðan í Öskju þar sem gengið var að Víti og Knebelsvörðu. Samgönguráðherra hafði ekki fyrr komið á þessar slóðir.