Japanskt par virðir fyrir sér nákvæma eftirlíkingu af æskuheimili Bills Clintons Bandaríkjaforseta sem reist var á eyjunni Okinawa vegna G-8 fundarins um helgina.
Japanskt par virðir fyrir sér nákvæma eftirlíkingu af æskuheimili Bills Clintons Bandaríkjaforseta sem reist var á eyjunni Okinawa vegna G-8 fundarins um helgina.
JAPÖNSK stjórnvöld hafa sætt gagnrýni fyrir þann gífurlega kostnað sem fylgdi fundi G-8 hópsins sem átti að ræða um það hvernig draga megi úr fátækt í heiminum.

JAPÖNSK stjórnvöld hafa sætt gagnrýni fyrir þann gífurlega kostnað sem fylgdi fundi G-8 hópsins sem átti að ræða um það hvernig draga megi úr fátækt í heiminum. Japanskir fjölmiðlar lýstu því einróma yfir að ekki hefði orðið áþreifanlegur árangur sem myndi beinlínis bæta lífsskilyrði jarðarbúa.

Japönsk stjórnvöld eyddu alls sem svarar um 58 milljörðum króna til fundahaldanna á Okinawa, sem er meira en nokkurt annað ríki hefur varið til að halda G-8 fund. Þegar Þjóðverjar héldu fundinn í Köln í fyrra nam kostnaður um 464 milljónum og var svipaður þegar Bretar héldu fundinn árið áður.

Meðal þess sem Japanir kostuðu til voru nýbyggingar og gífurleg öryggisgæsla. Til dæmis reistu þeir nákvæma eftirmynd æskuheimilis Bills Clintons þar sem hann gæti gist á meðan fundir stæðu. Kostnaður nam um 58,5 milljónum króna. Um 20 þúsund öryggisverðir, átta herskip, 140 varðskip og 20 flugvélar voru notaðar við gæslustörf.

Komið var með marga flugvélafarma af góðum mat til Okinawa til þess að gera vel við þá fimm þúsund fjölmiðlamenn sem sóttu fundinn og 125 kokkar áttu að sjá um að elda um 40 þúsund málsverði. Í Nago-borg var byggð ný ráðstefnumiðstöð með tvö þúsund fermetra samkomusal og nokkrum móttökusölum.

Hidenao Nakagawa, ráðherra í japönsku ríkisstjórninni, brást við gagnrýni þess efnis að fjármunirnir sem fóru í að halda fundinn hefðu dugað til að aflétta öllum skuldum Gambíu og sagði: "Við höfum unnið brautryðjendastarf og lagt allt í sölurnar í samstarfi við þjóðir og stofnanir sem málið varðar."

Tókýó. AFP.