Um 700 einstaklingar búa nú á Stúdentagörðunum.
Um 700 einstaklingar búa nú á Stúdentagörðunum.
TIL stendur að hefjast handa við að reisa byggingu undir námsmannaíbúðir, Stúdentagarða, á síðustu lóðinni sem Félagsstofnun stúdenta hefur til umráða.

TIL stendur að hefjast handa við að reisa byggingu undir námsmannaíbúðir, Stúdentagarða, á síðustu lóðinni sem Félagsstofnun stúdenta hefur til umráða. Eiríkur Jónsson, formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands, býst við að hægt verði að taka fyrstu skóflustunguna að húsnæðinu í upphafi næsta árs.

Stofnstyrkir nauðsynlegir

Eiríkur telur erfitt að segja nákvæmlega til um hvenær framkvæmdum muni ljúka. Stefnt sé þó að því að hluti byggingarinnar verði tekinn í notkun árið 2002 en húsið verði allt komið í gagnið árið 2003.

Hraða byggingaframkvæmdanna segir Eiríkur þó ráðast af þeim aðstæðum sem ríki og sveitarfélög skapi Félagsstofnun stúdenta. Vextir af breytilegum lánum hafi hækkað töluvert, eru nú 3,9%, og fyrirséð sé að þeir muni hækka enn frekar. Þetta gerir framkvæmdir erfiðari, segir Eiríkur.

Eiríkur segir nauðsynlegt að ríkið taki upp svonefnda stofnstyrki til félagslegra byggingaraðila sem vægju að einhverju leyti upp á móti þeim vaxtahækkunum sem riðið hafa yfir. Einnig sé æskilegt að sveitarfélög hjálpi til. Að öðrum kosti muni hægja verulega á uppbyggingu Félagsstofnunar stúdenta.

Á stúdentaráðsfundi hinn 19. júlí síðastliðinn var samþykkt ályktun þar sem skorað var á félagsmálaráðherra og Alþingi að taka upp stofnstyrki til félagslegra byggingaraðila eins og Félagsstofnunar stúdenta. Jafnframt er skorað á Reykjavíkurborg að veita byggingarstyrki til áframhaldandi uppbyggingar Stúdentagarða.

Eins og fram hefur komið verður byggingin reist á einu ónýttu lóð Félagsstofnunar stúdenta. Eiríkur segir að fulltrúar Stúdentaráðs muni því taka upp viðræður við Háskóla Íslands um að Félagsstofnunin fái fleiri lóðum úthlutað til að uppbygging geti haldið áfram.

130 nýjar íbúðir

Áætlað er að nýja byggingin rúmi 130 einstaklingsíbúðir og verði þar með sú stærsta sem hingað til hefur verið reist af Félagsstofnun stúdenta. Aðeins var hægt að úthluta 60% þeirra sem sóttu um vist á Stúdentagörðunum plássi í ár. Engir nýnemar komust að. Eiríkur segir þetta til marks um þörfina á Stúdentagörðum, enda sé ástandið á almennum leigumarkaði afar slæmt.

Í ár verða gerðir 511 leigusamningar við stúdenta sem þýðir að u.þ.b. 700 manns búa á Stúdentagörðunum.