Erna Ómarsdóttir í verkinu Krossgötu eftir Sveinbjörgu Þórhallsdóttur.
Erna Ómarsdóttir í verkinu Krossgötu eftir Sveinbjörgu Þórhallsdóttur.
Gagnrýnandi franska dagblaðsins Le Monde segir sólósýningu Ernu Ómarsdóttur á menningarhátíð í Avignon einn athyglisverðasta listviðburð menningarársins 2000 þar í borg. Eyrún Baldursdóttir sló á þráðinn til Ernu og fræddist um dansverkið sem er eftir belgíska listamanninn Jan Fabre.

Hreyfingar mínar eru einar eins og götuhundar (My Movements are alone like Streetdogs) heitir sólódansverkið sem Erna Ómarsdóttir flutti í Avignon í Frakklandi nú um miðjan júlí. Franskir gagnrýnendur lofuðu sýninguna til dæmis í dagblöðuðunum Le Monde, Le Figaro, Liberation og Provence og töluðu um sprengikraft hins unga dansara frá Íslandi. "Við fengum afskaplega góðar viðtökur sem kom mjög á óvart. Ég er varla komin niður á jörðina ennþá," segir Erna en þetta var í fyrsta skipti sem hún flutti sólóverk eftir höfundinn Jan Fabre. Sýningin var á dagskrá leiklistarhátíðarinnar une manifestation SACD/Festival d´Avignon (le Vif du sujet) sem haldin er árlega í Frakklandi og var nú í ár hluti af dagskrá Avignon menningarborg Evrópu árið 2000.

Í Le Monde sem er eitt stærsta dagblað í Frakklandi kemur eftirfarandi fram í umsöng Dominique Frétard um verkið. "Ekki aðeins hneykslandi og ögrandi heldur einnig mjög fallegt og áhrifaríkt. Einn af athyglisverðustu viðburðum leiklistahátíðarinnar í Avignon menningarborgar 2000."

Einn hundur lifandi og þrír uppstoppaðir

Það var með mjög stuttum fyrirvara sem þau Jan Fabre ákváðu að sýna verkið. "Við vorum ákaflega tvístígandi með þetta. Undirbúningur var lítill en við vildum samt taka áhættuna. Maður er svo vanur að hafa lengri tíma fyrir undirbúning en að þessu sinni var gaman að prófa andstæðuna." Erna segir að nokkrir klukkutímar hafi gefist til að æfa á sviðinu en að öðru leyti fóru æfingar fram á eldhúsgólfinu í íbúðinni sem þau héldu til í meðan hátíðin stóð yfir.

Sýningar á verkinu voru sex talsins og fóru fram í gamalli kapellu í Avignon. Það er upprunnið úr einum hluta dansverksins, As long as the World needs a Warrior Soul, eftir Jan Fabre, en hugmyndina að sólóinu fékk hann úr ljóðinu Hundinum eftir Leó Ferré. "Það fjallar um einmana manneskju sem mótmælir öllu eins og geltandi hundur sem enginn er að hlusta á í öllu mannhafinu," útskýrir Erna. "Manneskjan berst ein oft án árangurs eins og geltandi hundur sem skilinn er eftir á þjóðveginum til að deyja og er ekki lengur skraut og skemmtun fjölskyldunnar. Hann er eins og listamaðurinn sem þarf að berjast við að ná athygli og svo berjast við gagnrýnin augu áhorfandans. Þegar enginn hlustar byrjar manneskjan að ögra og villdýrið í henni kemur fram." Danssólóið er skrifað sérstaklega fyrir Ernu og hún úskýrir að það gefi einnig mikið svigrúm fyrir spuna af hennar hálfu. "Sem sólódansari er maður líka svo einn á sviðinu, nakinn og berskjaldaður. Því fellur efniviðurinn vel að listforminu." Sýningin flokkast undir dansleikhús sem er ekki hefðbundin danssýning. Erna dansar og flytur auk þess texta eftir Georges Brassens, ýmist á frönsku eða íslensku. Með henni á sviðinu er einn lifandi hundur og þrír uppstoppaðir. "Það má segja að við myndum dúett, ég og hundurinn," segir Erna. "Þetta er mjög krefjandi verk og erfitt bæði andlega og líkamlega. Það felst mikil ögrun í því að takast á við sólóverk af þessu tagi en er samt vel þess virði."

Síðastliðin tvö ár hefur Erna unnið að ýmsum verkefnum með Jan Fabre sem er einn þekktasti leikhúsmaður í Belgíu. Jan þykir ögrandi listamaður og vekur gjarnan sterk viðbrögð áhorfenda. Hann hefur komið víða við og getið sér orð sem leikstjóri, danshöfundur, rithöfundur og myndlistarmaður. Erna segir að víðtæk reynsla hans opni fyrir möguleika í danslistinni og því sé samstarf við hann mjög lærdómsríkt.

Áframhaldandi samvinna þeirra Jan Fabre og Ernu

Erna kveður ekki loku fyrir það skotið að verkið sem sýnt var í Avignon verði einhvern tímann sýnt hér heima, en ekkert hefur samt verið afráðið í þeim efnum. Erna mun koma hinga til lands í ágúst og taka þátt í sýningu Ekka danshópsins. Hún tekur einnig þátt í dansverki sem er fjöllistaverkefni listamanna frá þremur menningarborgum Evrópu árið 2000. Það verk var sýnt fyrir skömmu í Helsinki og hér á landi verður það sýnt á Vindhátíðinni sem hefst 3. september.

Samstarfi þeirra Ernu og Jan er langt í frá lokið og mun hún á næstunni taka þátt í uppsetningu á verkum hans.