Lögreglan hefur lokað Laugaveginum um helgar í sumar.
Lögreglan hefur lokað Laugaveginum um helgar í sumar.
LAUGAVEGSSAMTÖKIN, samtök kaupmanna og rekstraraðila við Laugaveg, hafa sent borgarstjóra og miðborgarstjórn harðorð mótmæli vegna vinnubragða Kristínar Einarsdóttur, framkvæmdastjóra miðborgarinnar, við framkvæmd lokana fyrir bílaumferð um miðborgina á...

LAUGAVEGSSAMTÖKIN, samtök kaupmanna og rekstraraðila við Laugaveg, hafa sent borgarstjóra og miðborgarstjórn harðorð mótmæli vegna vinnubragða Kristínar Einarsdóttur, framkvæmdastjóra miðborgarinnar, við framkvæmd lokana fyrir bílaumferð um miðborgina á laugardögum í sumar. Í mótmælaplaggi kaupmannanna er Kristín sökuð um gerræðisleg vinnubrögð.

Í mótmælabréfi samtakanna kemur fram að þegar Kristín hafi kynnt málið á stjórnarfundi Þróunarfélags miðborgarinnar, sem eru hagsmunasamtök allra í miðborginni, hafi það verið komið af hugmyndastigi og á framkvæmdastig. Það er, að hún hafi verið búin að sækja um heimild til borgarráðs og hafið tæknilegan undirbúning áður en að málið hafi verið kynnt Þróunarfélaginu.

Lokanir verða að taka mið af hagsmunum kaupmanna

Í bréfinu segir að stjórn Þróunarfélagsins hefði átt að fá tíma til að kynna málið fyrir kaupmönnum.

"Þrátt fyrir að stjórnarmönnum Þróunarfélags miðborgarinnar fyndust hugmyndirnar að mörgu leyti góðar var tekið fram við Kristínu að kaupmenn á Laugavegi væru ekki einhuga og það þyrfti að kynna málið, sem var og gert nokkrum dögum síðar," segir í bréfinu. "Þrátt fyrir þessa andstöðu heldur Kristín áfram í framkvæmdavinnu og frétta Laugavegssamtökin helst af þeim í gegnum fjölmiðla.

Það er loks á fundi vegna óska Laugavegssamtakanna sem haldinn var 11. júlí sl. að Kristín kynnir þessa lokuðu laugardaga fyrir kaupmönnum. Á þeim fundi beitti Kristín þeim rökum að Þróunarfélag miðborgarinnar væri regnhlífarsamtök, sem hún hefði ráðfært sig við og er það rétt en "regnhlífarsamtök" hljóta að vera það skjól sem hagsmunasamtök eins og Laugavegssamtökin geta leitað í og komið með athugasemdir og hugmyndir vegna framkvæmda og ákvarðana borgarinnar. Í svona stóru og mikilvægu máli er ekki óeðlilegt að leita álits stærstu hagsmunaaðila á svæðinu sem eru kaupmenn á Laugavegi og kalla sig Laugavegssamtök.

Vilja geta lokað með stuttum fyrirvara

Það sorglega við þennan farsa allan er að margir kaupmenn eru hlynntir tímabundinni takmörkun á bílaumferð en hún hlýtur og verður að taka mið af hagsmunum þeirra kaupmanna sem enn starfa í miðbænum."

Í mótmælabréfinu kemur einnig fram að undanfarin ár hafi kaupmenn stöku sinnum, á góðviðrisdögum, staðið fyrir laugardagslokunum. Í bréfinu segir að þeir hafi ítrekað farið fram á það við borgaryfirvöld að settar yrðu slár við gatnamót á nokkrum stöðum á Laugaveginum, þannig að hægt væri að loka þeim með stuttum fyrirvara í samráði við lögregluna, en að borgaryfirvöld hafi ekki orðið við þeim óskum.

Var að framfylgja samþykktum borgarráðs

Kristín sagði í samtali við Morgunblaðið, að hún hefði í raun ekki verið að gera annað en að framfylgja samþykktum borgarráðs og miðborgarstjórnar.

Hún sagði að auðvitað ætti að ræða svona mál við sem flesta og að hún hefði talið sig vera að gera það með samvinnu sinni og fundum með Þróunarfélagi miðborgarinnar. Hún benti á að tveir úr stjórn Laugavegssamtakanna ættu einnig sæti í stjórn Þróunarfélagsins.

"Það er auðvitað ekki auðvelt að sitja undir ásökunum um það að ég hafi beitt gerræðislegum vinnubrögðum og ég get ekki fallist á það," sagði Kristín. "Ég vona bara að þetta þurfi ekki að koma í veg fyrir gott samstarf allra í miðborginni en það er meginmarkmið miðborgarstjórnar að efla miðborgina fyrir alla og við vorum að vona að þetta væri einn liðurinn í því."