ÍSLENSK kvennalið voru í sviðsljósinu á hinu geysifjölmenna knattspyrnumóti barna og unglinga í Gautaborg, Gothia Cup, sem lauk þar um helgina. Valsstúlkur í 2.

ÍSLENSK kvennalið voru í sviðsljósinu á hinu geysifjölmenna knattspyrnumóti barna og unglinga í Gautaborg, Gothia Cup, sem lauk þar um helgina. Valsstúlkur í 2. flokki náðu lengst því þær léku sjálfan úrslitaleikinn þar sem þær biðu lægri hlut fyrir rússnesku úrvalsliði, FC Diana, 3:0, en þær rússnesku unnu mótið einnig í fyrra. KR komst líka í undanúrslit og tapaði þar 2:0 fyrir FC Diana. Íslensk lið voru því í tveimur af fjórum efstu sætunum í flokki 19 ára og yngri en þátttökulið þar voru 46. Þetta er ekki síst athyglisvert vegna þess að íslensku liðin eru skipuð 16 og 17 ára leikmönnum.

Valur komst líka langt í 3. flokki kvenna, alla leið í undanúrslit, en tapaði þar fyrir sænsku liði. Tvö íslensk lið, Þróttur úr Reykjavík og Haukar, sendu 4. flokk karla á mótið. Haukar unnu sinn riðil og Þróttur varð í öðru sæti í sínum en bæði féllu síðan snemma út í útsláttarkeppni.

"Íslensk lið hafa hingað til týnst í umfjöllun um þetta mót í Svíþjóð, enda eru þátttökuliðin 1.300 og keppendur um 30 þúsund. En núna var mikið fjallað um okkur, við fengum meðal annars heilsíðu í mótsblaðinu á öðrum degi og Gautaborgarpósturinn fjallaði fyrst og fremst um okkur í grein um 2. flokkinn," sagði Ásgeir H. Pálsson, þjálfari 2. flokks Vals, við Morgunblaðið.

Ásgeir sagði að útsendarar bandarískra háskólaliða og frá atvinnudeildinni sem er í undirbúningi í Bandaríkjunum hefðu verið mjög aðgangsharðir á mótinu. "Þeir voru stöðugt utan í okkar stúlkum og þetta gekk svo langt að ég varð að láta reka þá frá hliðarlínunni þegar við vorum að spila. Málfríður Sigurðardóttir, sem er aðeins 15 ára, fékk t.d. óformlegt tilboð frá háskólanum í Tulsa og þeir bandarísku höfðu greinilega áhuga á mörgum fleirum úr okkar röðum," sagði Ásgeir.