AÐFARANÓTT laugardags var fátt á ferli í miðborginni og tiltölulega rólegt. Afskipti voru höfð af manni sem braut rúðu á veitingahúsi eftir að honum hafði verið vísað þar út. Ölvun var lítil og ástandið gott og unglingar undir 16 ára aldri ekki áberandi.

AÐFARANÓTT laugardags var fátt á ferli í miðborginni og tiltölulega rólegt. Afskipti voru höfð af manni sem braut rúðu á veitingahúsi eftir að honum hafði verið vísað þar út. Ölvun var lítil og ástandið gott og unglingar undir 16 ára aldri ekki áberandi. Mikið var kvartað yfir hávaða frá heimasamkvæmum þessa nótt. Aðfaranótt sunnudags var nokkuð af fólki í miðbænum á milli kl. 03 og 05 eða um 500 manns á aldrinum 18-30. Ölvun var miðlungs og ástand þokkalegt. Ekki voru unglingar áberandi. Allmikið var um ryskingar og slagsmál víða um bæinn og voru nokkrir fluttir á slysadeild með smááverka. Þá var oft kvartað yfir hávaða og ónæði en slíkar tilkynningar voru 35 um helgina.

Valt vegna hraðaksturs

Átján ökumenn voru grunaðir um ölvun við akstur um helgina og 42 voru stöðvaðir fyrir of hraðan akstur. Mikil og þung umferð var norður Vesturlandsveg síðdegis á föstudag en umferðin til baka seinni hluta helgarinnar virðist hafa dreifst meira.

Jeppabifreið valt á Þingási á laugardag en engin slys urðu. Ástæðan fyrir veltunni var of hraður akstur. Um kl. 04 aðfaranótt sunnudags var tilkynnt um bílveltu á Hafravatnsvegi. Ökumaður var fluttur á slysadeild til skoðunar en hann var ungur og hafði ekki ökuréttindi.

Aðfaranótt mánudags var tilkynnt um umferðaróhapp við Völvufell. Þarna hafði bifreið verið ekið yfir gróður, snert aðra bifreið og endað síðan á húsvegg. Ökumaður var fluttur á lögreglustöð grunaður um ölvun við akstur.

Talsvert um innbrot

Síðdegis á föstudag var tilkynnt um þjófnað á blómaskreytingum utan af einbýlishúsi í Vogahverfi en slíkt er óvanalegt. Á föstudagskvöld var tilkynnt um innbrot í íbúð í Austurbænum en þar var stolið skartgripum, peningum og fleiru. Það innbrot var upplýst um helgina.

Á laugardag var tilkynnt um innbrot í gróðrastöð í Mosfellsbæ. Þar var stolið loftpressu og ýmsum verkfærum. Á laugardag var einnig tilkynnt um innbrot í sumarhús austan við borgina. Þar hafði verið spenntur upp gluggi og stolið ýmsum verðmætum tækjum. Kona kom á lögreglustöð síðdegis á sunnudag til að kæra þjófnað á veski. Sagði hún að veski sem í voru peningar og skilríki hafi verið stolið úr innkaupavagni sem hún var með í verslun. Það er ástæða til að minna fólk á að láta ekki veski eða töskur liggja í innkaupakörfum, þjófar nota oft tækifærið til að stela þessum hlutum.

Aðfaranótt laugardags var tilkynnt um eld í kjallara í Mávahlíð. Þar hafði kviknað í út frá símahleðslutæki sem lá í fatahrúgu. Eldur komst í húsgögn og innréttingu og einhverjar reykskemmdir urðu. Á laugardagskvöld var tilkynnt um mikinn eld ofan og austan við bæinn Háls í Kjós. Við athugun kom í ljós að þarna hafði fólk kveikt í brennu sem gleymst hafði að fá leyfi fyrir.

Á sunnudagsmorgun kom upp eldur í bifreið bak við Skautahöllina. Slökkviliðsmenn slökktu eldinn fljótt.

Féll af hjóli og fótbrotnaði

Síðdegis á föstudag var tilkynnt um að drengur hafi fótbrotnað fyrir ofan ökla er hann hjólaði niður fjórar tröppur og datt í nánd við Hlemmtorg. Hann var fluttur með sjúkrabíl á slysadeild.

Leikmaður slasaðist í leik Víkings og Vals á Víkingsvelli á laugardag. Hann var fluttur á slysadeild með sjúkrabifreið, líklega fótbrotinn.