[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Enn gengur vart né rekur í flestum ám norðan heiða og má heita að í sumum þeirra vanti nokkur hundruð laxa upp á aflann til að hann gæti talist "eðlilegur" eins og einn viðmælandi Morgunblaðsins komst að orði.

Enn gengur vart né rekur í flestum ám norðan heiða og má heita að í sumum þeirra vanti nokkur hundruð laxa upp á aflann til að hann gæti talist "eðlilegur" eins og einn viðmælandi Morgunblaðsins komst að orði. Einna verst er ástandið í Miðfjarðará, en allar eru árnar á þessum slóðum langt frá sínu besta.

"Þetta er hrikalega erfitt, í dag er 24 stiga hiti og logn. Við mældum ána í morgun og hún er tuttugu gráður. Það fengust tveir í morgun og það bólar ekkert á smálaxagöngum. Það er ekkert. Sést ekki. Þó var vikuhollið sem hætti á sunnudag að gera það nokkuð gott. Það kom nokkur rigning og fiskur fór að taka betur um tíma. Hollið náði 70 löxum og mest af því var stór fiskur, allt að tæp 20 pund, eða 9,8 kg sá stærsti," sagði Theodór Már Sigurðsson leiðsögumaður við Víðidalsá í gærdag. Þá voru komnir 250 laxar á land.

Rofar bara til í háloftunum

"Það er ekkert að rofa til í veiðiskapnum. Það rofar bara til í háloftunum, hér er 25 stiga hiti og logn og er Miðfjörðurinn þó ekki beint annálaður fyrir veðursæld. Það eru að veiðast einhverjir 4-6 laxar á vakt, það eru engar göngur sem við getum kallað því nafni, bara smáreytingur af laxi sem er að koma inn. Menn gerðu sér einhverjar vonir með síðasta stórstreymi, en það gekk ekki eftir og það er ekkert sem segir okkur að smálaxinn komi í torfum seinna. Þó er svo sem ekkert útilokað, seiðin fóru seint úr ánni í fyrra vegna vorkulda og því gæti eitthvað af fiski komið seint til baka," sagði Guðmundur Þór Ásmundsson leiðsögumaður við Miðfjarðará í gærdag. Hann sagði milli 170 og 180 laxa komna á land og taldi að 4-500 laxa vantaði í aflann til að hann gæti talist eðlilegur miðað við tíma. "Svo er annað, þegar menn vita af maðkaholli sem bíður eftir að flugutímanum ljúki sjá menn ekki tilganginn í að sleppa flugulaxi þegar yfirgnæfandi líkur eru á því að sá lax verði drepinn af maðkakörlum seinna í sumar. Menn lúra því á þessum fáu löxum sem þeir veiða. Það ætti að uppræta þessi maðkaholl, þau eru tímaskekkja," sagði Guðmundur.

Enginn lax hefur veiðst í Núpsá enn sem komið er, hún rennur vart milli hylja eftir þurrkatíðina og þó rignt hafi nokkuð um daginn dugði það ánni lítt.

Laxá full af slýi

"Það eru að koma 5 til 6 laxar á vakt, en það eru ekki góð skilyrði, ekki mikill lax í ánni og hitinn í dag 28 stig. Auk þess er komið mikið slý í ána. Við værum kannski að fá 10 til 15 á vakt ef skilyrði væru betri, en svona er þetta nú. Það eru komnir um 370 laxar úr ánni allri, þar af um 300 á svæðum Laxárfélagsins," sagði Orri Vigfússon sem spókaði sig á bökkum Laxár í Aðaldal.

Norðurá ber af

Í gærdag voru komnir 1.074 laxar á land úr Norðurá í Borgarfirði og er hún langhæst. Þar hafa verið prýðisgöngur og enn er veiði góð, að sögn Bergs Steingrímssonar framkvæmdastjóra SVFR sem bætti því við að hann væri svolítið undrandi á því að á sama tíma og áin skilaði bestu veiðinni væri hún hugsanlega sú eina af toppánum í landinu sem ekki væri að fullu uppseld á besta tíma.

Ýmsar fréttir

Þrátt fyrir einmuna veðurblíðu hafa menn verið að kroppa nokkuð upp úr Breiðdalsá síðustu daga, aðallega stóra bolta úr Tinnudalsá. Þrír laxar sem veiddust þar einn daginn voru t.d. tveir 10 punda og einn 17 punda. Menn telja að á hverri stundu fari að kíkja inn smálax sem á rætur að rekja til gönguseiðasleppinga síðasta árs.

Aðeins um 40 laxar höfðu veiðst í Gljúfurá á sunnudaginn sem er fremur slakt þar á bæ. Þó hafa menn séð nokkuð af laxi.

Þá hafði Hítará gefið 151 lax í gærdag sem er ágæt útkoma. Þá var hópur að hverfa frá ánni með 7 laxa.