Guðbjörg Gunnarsdóttir, markvörður FH í 3. flokki, vakti mikla athygli áhorfenda á mótinu, sérstaklega í leik FH og Breiðabliks um efsta sætið í riðlinum.

Guðbjörg Gunnarsdóttir, markvörður FH í 3. flokki, vakti mikla athygli áhorfenda á mótinu, sérstaklega í leik FH og Breiðabliks um efsta sætið í riðlinum. Guðbjörg er enda enginn nýgræðingur, hún hefur varið mark FH í meistaraflokki í sumar og var í landsliðshópi U-17 sem tók þátt í Norðurlandamóti í Finnlandi fyrr í mánuðinum.

"Það er alltaf gaman að vinna svo þetta er búið að vera frábært," sagði Guðbjörg og brosti sínu blíðasta. Þrátt fyrir að Guðbjörg sé á eldra ári í 3. flokki þá hefur hún aldrei komið áður á Gull og silfurmót. Reynslan af mótinu var því varla slæm, því auk þess að sigra í sínum aldursflokki þá var hún valin í landslið 3. flokks "Ég hef aldrei komið áður á Gull og silfurmótið og kemst því ekki aftur nema það verði keppt í 2. flokki. Þetta er búið að vera mjög gaman og er mjög jákvætt fyrir okkur og sjálfsagt á það við um alla keppendur. Við höfum verið saman hér um helgina, svona að mestu leyti, og andinn í hópnum hefur batnað mikið og allir hafa skemmt sér mjög vel. Ég er ekki frá því að við séum orðnar betri eftir þetta mót heldur en við vorum áður," sagði Guðbjörg Gunnarsdóttir, markvörður og fyrirliði 3. flokks FH.