EYJASTÚLKUR tóku á móti Breiðablik í undanúrslitum bikarkeppninnar á sunnudaginn var. Veður hafði töluverð áhrif á leikinn og áttu leikmenn beggja liða í vandræðum að hemja boltann á köflum. En þrátt fyrir válynd veður í Eyjum þá var leikið til þrautar og uppskáru Blikastúlkur sigur á annars sprækum Eyjastúlkum - lokatölur leiksins, 1:0.

Eyjastúlkur sóttu undan vindi í fyrri hálfleik og áttu nokkur ágæt skot á mark Blikastúlkna þar sem annaðhvort Þóra B. Helgadóttir markvörður varði eða Kári í jötunmóð hjálpaði boltanum að fljúga yfir markið, svo mikill var vindurinn í Eyjum.

Fyrsta mark leiksins og jafnframt það eina kom á 39. mínútu er Rakel Ögmundsdóttir fylgdi vel eftir skoti Hrefnu Jóhannesdóttur sem hafnaði í þverslá. Markið kom eiginlega upp úr engu því Eyjastúlkur höfðu fram að þessu sótt stíft en ekki haft erindi sem erfiði. En engu að síður virkilega vel að verki staðið hjá Blikastúlkum.

Umdeilt atvik átti sér stað á 9. mínútu leiksins er fyrirliði Eyjastúlkna, Elena Einisdóttir, var felld inni í vítateig en slakur dómari leiksins, Eyjólfur Magnús Kristinsson, sá ekki ástæðu til þess að flauta og dæma víti.

Þrumuskot í stöng

Í síðari hálfleik voru Blikastúlkur má segja með undirtökin framan af og áttu nokkur ágætisfæri en inn vildi boltinn ekki. Á 53. mínútu átti til að mynda Margrét Ólafsdóttir þrumuskot beint úr aukaspyrnu af 25 metra færi en boltinn hafnaði í stöng Eyjastúlkna. Það var síðan undir lok leiksins að Eyjastúlkur áttu dauðafæri þegar Kelly Shimmin skaut að marki en góður markvörður Blika varði vel.

Óhætt er að segja að leikurinn hafi einkennst af mikilli baráttu frá upphafi til enda og leikmenn beggja liða hafa greinilega komið vel stemmdir til leiks, bikarúrslitaleikur var jú í boði. En þó svo að Eyjastúlkur hafi tapað þá áttu þær í fullu tré við stjörnum prýtt lið Breiðabliks og þurfa engu að kvíða í framtíðinni.

Lokatölur leiksins 0:1 og það verða því Blikastúlkur sem etja kappi við KR á Laugardalsvellinum 7. september nk.

Skapti Örn Ólafsson skrifar