JÓN Arnar Magnússon náði sannkölluðu risastökki er hann flaug 8,01 metra í langstökki á Meistaramóti Íslands í frjálsum íþróttum um helgina. Stökkið hefði undir venjulegum kringumstæðum verið nýtt Íslandsmet en sökum þess að meðvindur var of mikill var metið ekki skráð gilt. Þeir 150 keppendur sem þátt tóku í meistaramótinu börðust við veðurhaminn sem hamlaði því að nokkur ný met yrðu sett þessa helgina þrátt fyrir ágæta tilburði.

Segja má að Jón Arnar og Guðrún hafi verið keppendur mótsins, en þau sýndu það að þau eru bæði í mikilli framför og loks laus við meiðsli. Jón Arnar er í feiknaformi þessa dagana og sigraði í öllum fimm greinunum sem hann tók þátt í. Guðrún Arnardóttir er einnig í stuði en hún sigraði líka í öllum sínum greinum utan boðhlaupsins.

Beðið var í ofvæni eftir keppni í stangarstökki kvenna þar sem bæði Þórey Edda Elísdóttir og Vala Flosadóttir voru meðal keppenda. Hvorugar náðu þó að sýna sitt rétta andlit enda mikill vindur og erfitt að stökkva. Vala vann með því að stökkva yfir 4 metra slétta. Í karlaflokki sigraði gamla brýnið Kristján Gissurarson með stökki upp á 4,20 metra.

Hörkukeppni í kringlukasti

Magnús Aron Hallgrímsson fékk hörkukeppni í kringlukasti og var það félagi hans Einar Kristian Tveitså frá Noregi sem hafði betur með því að kasta einum sentímetra lengra en hann. Vindurinn setti nokkurt strik í reikninginn þar sem hann stóð beint í fang keppenda.

Vigdís langt frá ÓL-lágmarki

Vigdís Guðjónsdóttir spjótkastari reyndi við lágmark fyrir Ólympíuleika en tókst ekki að ná því að þessu sinni. Besta kast hennar var 50,63 metrar en lágmarkið er 57 metrar.

Í liðakeppninni sigraði FH með miklum yfirburðum og hlaut 223 stig, HSK varð í öðru sæti með 140 stig og ÍR hafnaði í þriðja sæti með 137,5 stig.

Úrslit/B14

Íris Björk Eysteinsdóttir skrifar