FYLKIR Sævarsson og Kristinn Magnússon, sundkappar, eru nú að undirbúa sig fyrir Viðeyjarsund um helgina. Þeir félagar ætla að stinga sér til sunds rétt fyrir neðan Viðeyjarstofu, annað hvort á laugardag eða sunnudag, og synda sem leið liggur til gömlu hafnarinnar í Reykjavík. Þessi leið er um það bil 2,7 kílómetra löng og er líklegt að hrollur færi um marga við tilhugsunina um að dýfa sér í ískaldan sjóinn. Fylkir og Kristinn verða í sundskýlunum einum fata á sundinu. "Aðalhættan er sú að við fáum kuldakrampa og það er nú ástæðan fyrir því að við æfum okkur vel fyrir sundið. En það er líka kuldinn sem við erum að sækja í," segir Fylkir.
Að öllum líkindum mun bátur frá björgunarsveitunum fylgja þeim félögum en að sögn Fylkis mun það þýða uppgjöf ef þeir fara um borð í bátinn. "Við munum hugsanlega stoppa til þess að drekka orkudrykk en við förum ekki um borð í bátinn," segir Fylkir. Þeir verða að innbyrða kolvetnisríka fæðu fyrir sundið og líka er mikilvægt að neyta fitu og drekka mikinn vökva að sögn Fylkis en vökvatapið verður mikið hjá þeim. "Það verður enginn sprettur á okkur, þetta er bara spurning um að þolið haldi," segir Fylkir.