Fulltrúar kristnu trúfélaganna á málþinginu í Skálholti ætla að hittast þar aftur í október og reifa mál sín.
Fulltrúar kristnu trúfélaganna á málþinginu í Skálholti ætla að hittast þar aftur í október og reifa mál sín.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kristin trúfélög í heiminum skipta hundruðum og eiga sum hver í innbyrðis deilum þótt ótrúlegt kunni að virðast, samanber átök kaþólikka og mótmælenda á Norður-Írlandi. Hér á landi eru kristin trúfélög átján að tölu. Sigurður Ægisson sat um helgina samkirkjulegt málþing í Skálholti.

KRISTIN trúfélög á Íslandi héldu samkirkjulegt málþing í Skálholti helgina sem leið, 22.-23. júlí, að frumkvæði Sigurðar Sigurðarsonar vígslubiskups. Þingið markaði jafnframt upphaf Skálholtshátíðar árið 2000. Tilgangur þessara aðila var sá einn að koma saman og ræða málin af gagnkvæmri virðingu og kærleika, enda kom í ljós að það er fleira sem sameinar kristin trúfélög á Íslandi en það sem sundrar. Og þessir aðilar ætla að hittast aftur í október á sama stað. En hver skyldi hafa verið aðdragandi þess að þetta fólk ákvað að hittast?

Hátíð allra kristinna Íslendinga

"Þetta byrjaði þannig," sagði vígslubiskup, "að þegar ég fór að hugsa til þess fyrir fimm árum að framundan væri kristnitökuhátíð, þá greip það mig mjög sterkt að við yrðum að hafa í huga að þetta væri auðvitað hátíð allra kristinna manna á Íslandi. Og ég lét mig dreyma um að við gætum haldið hátíð um það hér í Skálholti og fór að halda fundi með fulltrúum trúfélaganna. Þeir fundir urðu að vísu strjálir í upphafi, en þéttari eftir því sem á leið. Upp úr þessum viðræðum kom sú hugmynd, að við myndum stefna að því að halda fjölskylduhátíð í Skálholti, en það voru ýmsir örðugleikar á því þegar til kom, bæði mikið framboð af slíku í sumar og allt það. En hugmyndin á bak við það að halda slíka hátíð átti að vera sú, að það sæist að við hittumst og gerðum eitthvað saman; að þar væru engar einingarviðræður eða slíkt á dagskrá, heldur það að við gætum talað saman. Í gegnum þetta hef ég kynnst forystufólki þessara trúfélaga, sem ég vissi afar lítið um áður, og ég tel mig hafa haft mikið gagn af þeim kynnum, og fólkið hefur tekið hvert öðru vel. Og þetta hefur sem sagt þróast út í þessa ráðstefnu eða málþing hér, með þremur fyrirlesurum."

Fyrirlesararnir sem um ræðir voru Tord Ström frá Svíþjóð, en hann flutti erindi um samkirkjulegt starf í heimalandi sínu; Pétur Pétursson, rektor Skálholtsskóla, sem flutti erindi um kirkjuna í nútímanum, en hann hefur mjög kynnt sér þau mál; og Horace Allen frá Bandaríkjunum, sem flutti erindi um kirkjuna í Asíu og aðstöðu kristinna manna þar.

"Þessari hugmynd um ráðstefnu með þessu sniði var vel tekið af öllum," bætir Sigurður við. "Það vantaði að vísu fulltrúa nokkurra trúfélaganna, sem af ýmsum ástæðum forfölluðust. En ég vona að svona fundi munum við áfram halda, ekki til þess að búa til einhverjar yfirlýsingar á þessu stigi, heldur til þess einfaldlega að kynnast og finna að við erum í raun og veru að fást við sama hlutverkið, sem er að boða kristna trú og iðka hana."

Ákveðin tímamót hjá kirkjunni

Gunnar Þorsteinsson, forstöðumaður í Krossinum og fulltrúi þess trúfélags á málþinginu, tók undir þessi orð Sigurðar Sigurðarsonar.

"Mér leist mjög vel á það að efna til hátíðar og ræða málin á gagnkvæman hátt, þar sem allir gátu setið við sama borð og skoðað hver í sínum ranni hvað þar var að finna; gátu horft til fortíðar, vegið og metið það sem hefur gerst og horft svo til framtíðar. Það er alveg ljóst að það eru tímamót hjá kirkjunni í þessu landi, þ.e.a.s. öllu kristnu fólki, vegna þess að þær starfsaðferðir sem hafa verið notaðar fram til þessa eru ekki nægilega beittar og áhrifaríkar til þess að skila því verki sem okkur er ætlað að vinna. Við þurfum að bíta í skjaldarrendur, leggjast undir feld og finna þau vopn sem duga í þeirri baráttu sem við stöndum í. Samkeppnin um sálirnar hefur aldrei verið meiri og tilboðin á markaðstorgi guðanna hafa aldrei verið fleiri. Kynslóðin sem er að vaxa úr grasi hefur gengið í gegnum þessa byltingu hugarfarsins, þessari fjölmiðlabyltingu sem hefur valdið því að rótleysi og gildisleysi eru einkennandi fyrir heila kynslóð. Ef við grípum ekki í taumana, þá skilum við ekki kyndlinum til næstu kynslóðar með þeim loga sem hann á að hafa."

Hvað er þá til ráða?

"Vandi okkar er sá, að við náum ekki til þessara rótlausu sálna. Við þurfum að þróa með okkur aðferðir, finna þá æð sem blæðir til unga fólksins; það er ekkert öðruvísi. Trúin sem slík og áhrifamáttur heilags anda hafa sín ríku áhrif til þeirra sem leita. En það eru ekki nógu margir sem leita; menn eru of passívir í leitinni að sannleikanum, menn fara ekki eins mikið á stúfana og áður var. Og það er bein afleiðing fjölmiðlabyltingarinnar og upplýsingatækninnar. Við þurfum einhvern veginn að koma fólki á hreyfingu og í átt til okkar, til að leita að grundvallandi sannleika fyrir stefnumörkun í lífi sínu."

Þurfum að snúa bökum saman

Nú eru kristin trúfélög á Íslandi rétt um 20 talsins, að þjóðkirkjunni meðtalinni. Munu þessir aðilar geta unnið saman í framtíðinni að þessu verkefni og öðrum, eða koma þeir til með að verða hver í sínu horni eins og hingað til?

"Snertifletir kristnu trúfélaganna hafa fram að þessu verið afskaplega takmarkaðir, en ég held að þessi helgi í Skálholti hafi brotið blað í þeirri sögu. Við höfum aldrei gert þetta áður, að setjast niður úr hinum ýmsu kirkjudeildum til að ræða mál okkar á opinskáan hátt, í kærleika. En það gerðum við núna, ræddum hlutina með gagnkvæmum skilningi og virðingu. Ég held reyndar að margir þeir múrar sem kristnir menn hafa reist sín í millum orsakist af mismunandi skilningi á hugtökum. Með því að setjast yfir þá hluti er hægt að ryðja mjög mörgu af þeim toga úr vegi. Það er fátt sem stendur eftir sem múr, þegar búið er að fara yfir málin. Við erum öll í kirkju Krists á Íslandi að berjast sömu góðu baráttu trúarinnar, hvert á sínum vígvelli. Við erum að horfast í augu við sama veruleikann, og það eru sömu sorgir og vonbrigði sem hrjá okkur og sömu væntingar og vonir sem við höfum. Þannig að við eigum samleið í ákveðnum skilningi, og þó hefur hver og einn rétt til að vera til á sínum eigin forsendum. Jesús bað okkur um að vera eitt, hann sagði okkur aldrei að vera eins. Það er grundvallaratriði. Og ég veit að sá skilningur er kominn. Ég finn að kristið fólk, hvar í flokki sem það stendur, er reiðubúið að snertast, og þessi ótti við hið óþekkta hjá náunganum er að hverfa. Menn sjá að við erum öll af holdi og blóði og stefna okkar og markmið er mjög keimlíkt. Það er sami Guð sem við trúum á, það er sama arfleifð sem við byggjum á, og þessu verðum við að skila til næstu kynslóðar. Það sem öllu máli skiptir núna er að taka á þessari upplausn sem er í þjóðfélaginu. Kirkjunnar er þörf. Við þurfum að snúa bökum saman ef ekki á að fara illa fyrir kristninni í þessu landi, eins og við höfum dæmi um úr nágrannalöndunum á síðustu árum og áratugum. Þar bendi ég t.d. á Danmörku, þar sem kristin trú á undir högg að sækja. Þar eru grundvallaratriði kristinnar trúar að hverfa út úr þjóðlífinu. Verði ekki gripið í taumana þar, sýnist mér að frændur okkar neyðist fyrr en seinna til að taka krossinn úr fánanum," sagði Gunnar að lokum.