Jónas Egilsson
Jónas Egilsson
Þetta mót verður fyrsta alþjóðlega frjálsíþróttamótið, segir Jónas Egilsson, sem haldið er utan höfuðborgarsvæðisins.

RÚMLEGA 280 keppendur frá öllum Norðurlöndunum mæta til leiks á meistaramóti unglinga 20 ára og yngri í frjálsíþróttum, sem haldið verður á Skallagrímsvelli í Borgarnesi dagana 26. og 27. ágúst næstkomandi. Þetta er í fyrsta sinn sem þessi keppni er haldin hérlendis. Keppnin er liðakeppni þannig að tveir keppendur verða í hverri grein í hverju liði, en liðin eru frá Finnlandi, Noregi og Svíþjóð auk þess sem fjórða liðið er sameiginlegt lið Dana og Íslendinga. Það verða því átta keppendur í hverri einstaklingsgrein en fjögur lið í boðhlaupum. Það sem telja má til nymælis, a.m.k. hefur það ekki sést á Íslandi í marga áratugi, er kappganga. Keppt verður í 10.000 metra göngu karla og 5.000 metra göngu kvenna.

Alls munu 20-25 íslenskir frjálsíþróttamenn, 20 ára og yngri, etja kappi við bestu norrænu jafnaldra sína í frjálsíþróttum. Íslensku sveitina leiða efnilegustu frjálsíþróttamenn landsins, sem skipa svonefndan Aþenuhóp FRÍ. Þar má nefna Silju Úlfarsdóttur, besta spretthlaupara okkar í kvennaflokki og Einar Karl Hjartarson Ólympíukandidat, en þau munu einnig taka þátt í heimsmeistaramóti unglinga, sem fram fer í Chile í október á þessu ári. Meðal keppenda verður að öllum líkindum Ingi Sturla Þórisson, sem hefur tekið stórstígum framförum í grindahlaupi í sumar, auk annarra efnilegra íþróttamanna. Á síðasta ári var keppni þessi haldin í Finnlandi og komust fjórir Íslendingar á verðlaunapall. Stefnt er að því að íslenskir keppendur hreppi fleiri verðlaunnú. Endanlegt val íslensku keppendanna fer fram að aflokinni Bikarkeppni FRÍ, sem haldin verður í Hafnarfirði og Kópavogi 12. og 13. ágúst nk.

Þetta mót verður fyrsta alþjóðlega frjálsíþróttamótið sem haldið er utan höfuðborgarsvæðisins, en hingað til hafa þessi mót farið fram í Reykjavík, Mosfellsbæ eða Hafnarfirði. Ákvörðun stjórnar FRÍ að halda mótið í Borgarbyggð er í samræmi við stefnu sambandsins að dreifa verkefnum sem víðast og efla um leið starfið í héraði.

Frjálsíþróttaaðstaða hér á landi hefur verið að batna að undanförnum árum og nú er svo komið að alls eru sex frjálsíþróttavellir lagðir gerviefni á landinu og nýr völlur verður vígður á Egilsstöðum í Austur-Héraði á næsta ári í tilefni Landsmóts UMFÍ. Hins vegar er ljóst að velli skortir á Norðurlandi og á Suðurnesjum til að utanhússaðstaða geti talist viðunandi fyrir frjálsíþróttir í landinu. En slíkt stendur vonandi til bóta.

Undirbúningur mótahaldsins í Borgarnesi er í höndum heimamanna og hefur hann gengið einstaklega vel.

Höfundur er formaður Frjálsíþróttasambands Íslands.