SÉRSTÖK verðlaun féllu í skaut Baldvini Björgvinssyni og áhöfn hans á seglskútunni Bestu þegar verðlaunaafhending fyrir siglingakeppnina Skippers d'Islande fór fram í Paimpol í Frakklandi á sunnudag.

SÉRSTÖK verðlaun féllu í skaut Baldvini Björgvinssyni og áhöfn hans á seglskútunni Bestu þegar verðlaunaafhending fyrir siglingakeppnina Skippers d'Islande fór fram í Paimpol í Frakklandi á sunnudag. Var áhöfnin verðlaunuð fyrir að hafa verið fyrst í mark, bæði í Reykjavík og í Paimpol, fyrir besta samanlagðan árangur í keppninni og fyrir að hafa sett hraðamet á leiðinni Reykjavík - Paimpol. Eins og fram hefur komið varð íslenska áhöfnin í 7. - 9. sæti keppninnar, eftir að reiknað hafði verið með forgjöf sem er mismunandi eftir skútutegundum. Engu að síður er árangur Íslendinganna glæsilegur og hefur vakið mikla athygli.

Minnir á tengsl Íslendinga og Frakka

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, borgarstjóri Reykjavíkur, var viðstödd athöfnina ásamt bæjarstjórum bæjanna Paimpol og Grav'linga. Var fjöldi manns viðstaddur, en verðlaunaafhendingin fór fram í klaustri frá 13. öld. Flutti Ingibjörg Sólrún ræðu á frönsku, þar sem hún lýsti meðal annars tengslum þjóðanna og minntist á örnefni hér á landi sem bæru merki um veru Frakka hér; Frakkastíg, franska spítalann o.fl. Einnig flutti Jón Skaptason, formaður Brokeyjar, siglingafélags Reykjavíkur, ávarp. Afhenti hann formanni siglingafélagsins í Paimpol fána Brokeyjar og þakkaði jafnframt íslensku áhöfninni sem hann sagði vera fyrstu áhöfnina til að koma Íslendingum á kortið í alþjóðlegri siglingakeppni yfir haf.

Keppnin hefur vakið mikla athygli ytra og áhugi er á að hún verði reglulegur viðburður, byggður á sögulegum tengslum Íslendinga og Frakka. Mörg viðtöl og myndir hafa birst af íslensku áhöfninni í frönskum fjölmiðlum, m.a. í franska sjónvarpinu, Ouest, Le Telegram og í siglingatímaritinu Volle.

Verðlaunagripur þeirra Bestumanna, listaverk af skútu, merkt keppnisleiðinni, verður til sýnis í félagsheimili Siglingafélags Reykjavíkur og hjá Besta í Kópavogi.