Birgir Leifur Hafþórsson úr Leyni sigraði í karlaflokki á stigamótinu um helgina.
Birgir Leifur Hafþórsson úr Leyni sigraði í karlaflokki á stigamótinu um helgina.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
FJÓRÐA stigamót GSÍ í Toyota mótaröðinni var haldið um helgina á Grafarholtsvelli Golfklúbbs Reykjavíkur. Birgir Leifur Hafþórsson úr Leyni sigraði í karlaflokki og í kvennaflokki lék Herborg Arnarsdóttir úr GR best allra og sigraði. Örn Ævar Hjartarson úr GS fær þó öll stigin í karlaflokki því atvinnumenn telja ekki í þeirri keppni.

Það viðraði ekki vel á keppendur í Grafarholtinu um helgina, rok og rigning á laugardaginn og enn hvassara á sunnudaginn, en þurrt. Tryggvi Pétursson úr GR virtist þó kunna vel við sig á heimavelli framan af degi á laugardaginn því hann lék fyrri hringinn þann daginn á 68 höggum, eða á þremur höggum undir pari vallarins sem er jafnt vallarmeti Úlfars Jónssonar síðan 1992.

Höggum Tryggva fjölgaði um átta í síðari hringnum á laugardaginn og eftir fyrri dag á meðan Birgir Leifur vann eitt högg á hann og Kristinn Árnason úr GR lék á 71 höggi. Tryggvi hafði samt forystuna eftir fyrri dag, lék á 144 höggum en Birgir Leifur og Kristinn voru á 148 höggum og þeir Örn Ævar og Ólafur Már Sigurðsson úr Keili voru á 150 höggum.

Örn Ævar lék fyrri níu holurnar mjög vel á sunnudaginn, notaði aðeins 34 högg, en honum brást bogalistin á síðari níu holunum og lauk leik á 224 höggum, sem var besta skor dagsins. Hann var höggi á eftir Birgi Leifi og höggi á undan Tryggva sem lék síðasta hringinn á 81 höggi.

Herborg í miklu stuði

Herborg Arnarsdóttir er í miklu stuði þessa dagana enda nýkomin úr gipsi á hægra fæti. Hún notaðist þó við golfbíl um helgina en telur næstum öruggt að hún leiki á Norðurlandamótinu í Eyjum um næstu helgi á tveimur jafnfljótum.

"Það var gríðarlega erfitt að leika í rokinu á sunnudaginn, ég man varla eftir eins miklu roki í Grafarholtinu. Ég var þó að leika vel í mótinu, sló mjög vel og púttaði líka vel. Ég hef líka hrikalega gaman af golfinu og það hefur mikið að segja," sagði Herborg.

Þess má geta að líklega er þetta í fyrsta sinn í sumar sem einhverjum tekst að sigra Ragnhildi Sigurðardóttur úr GR, en hún hefur verið óstöðvandi í sumar. Ragnhildur varð þó að sætta sig við annað sætið að þessu sinni.

Ólöf María Jónsdóttir, Íslandsmeistari frá því í fyrra, var ekki með. "Það eru mörg stórverkefni fram undan hjá mér og eftir að hafa ráðfært mig við landsliðsþjálfarana ákvað ég að taka mér hvíld um helgina," sagði Ólöf María en hún verður í eldlínunni í Eyjum um næstu helgi, fer síðan daginn eftir það mót til Póllands á Evrópukeppni kvenna, þaðan til Akureyrar á Landsmótið, sveitakeppnin tekur síðan við og fljótlega eftir það fer hún til Bandaríkjanna þar sem skólinn og golfvertíðin eru að hefjast.