Dick Cheney, hugsanlegt varaforsetaefni forsetaframbjóðandans Georges W. Bush, fyrir utan heimili sitt í Virginíu.
Dick Cheney, hugsanlegt varaforsetaefni forsetaframbjóðandans Georges W. Bush, fyrir utan heimili sitt í Virginíu.
TALIÐ var líklegt í gær að skammt væri þar til George W. Bush, forsetaframbjóðandi repúblíkanaflokksins í Bandaríkjunum, myndi tilkynna hver yrði varaforsetaefni hans.

TALIÐ var líklegt í gær að skammt væri þar til George W. Bush, forsetaframbjóðandi repúblíkanaflokksins í Bandaríkjunum, myndi tilkynna hver yrði varaforsetaefni hans. Nokkrir hafa verið nefndir til sögunnar en almennt er talið að Dick Cheney, fyrrverandi varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, muni hreppa hnossið. Cheney, sem nú gegnir stöðu framkvæmdastjóra orku- og verktakafyrirtækis, er sagður hafa tjáð starfsbræðrum sínum að góðar líkur væru á að hann yrði gerður að varaforsetaefni en aðstoðarmenn Bush hafa þó á sama tíma lagt áherslu á að forsetaframbjóðandinn kunni að koma fólki á óvart með varaforsetaefni sínu.

Bush hefur að undanförnu metið nokkra líklega meðframbjóðendur sem aðstoðarmenn hans hafa valið úr stórum hópi manna. Mikil leynd hefur hvílt yfir valinu og hefur Bush og kosningateymi hans dvalið á búgarði hans í Texas undanfarið í þeim tilgangi að þrengja valið. Talið er að Cheney sé þar efstur á lista ásamt öldungadeildarþingmanninum John Danforth frá Missouri. Aðstoðarmenn Bush sögðu í gær að mönnum bæri að varast að nefna aðeins einn hugsanlegan meðframbjóðanda og að útkoman gæti orðið óvænt. "Enginn gengur að þessu vísu," sagði aðstoðarmaður Bush.

Háttsettir menn innan bandaríska demókrataflokksins sögðust á sunnudag mundu verða fegnir ef svo færi sem horfði, að Bush mundi ekki velja John McCain, fyrrverandi keppinaut sinn, eða Tom Ridge, ríkisstjóra í Pennsylvaníu, sem meðframbjóðanda. Sögðust þeir telja að þótt þessir tveir menn væru fráhrindandi í augum margra íhaldssamra kjósenda þá gætu þeir aflað Bush fylgis meðal kjósenda sem líklegir væru til að kjósa óháðan frambjóðanda. "Bush myndi sýna mikið áræði og leiðtogahæfileika með því að tilnefna annan hvorn þessara," sagði einn leiðtoga demókrata í gær. "En þess í stað lítur allt út fyrir að hann muni fara auðveldustu leiðina með því að velja vandræðalausan og óumdeildan frambjóðanda."

New York, Washington. Reuters, AP.