Stjórnvöld hafa því miður verið tvístígandi í stefnu sinni um framtíð ríkisbankanna. Þetta segir í DV.

Útrás

Leiðari DV sl. föstudag fjallaði um fjárfestingar í fjármálafyrirtækjum erlendis og kaup amerísks banka í Landsbankanum. Þar sagði m.a.:

"Það hefur verið gleðilegt að fylgjast með þróun íslenska fjármálamarkaðarins undanfarin ár - það hafa verið stigin stór skref til framfara eftir að frjálsræðið var aukið. Sérstaklega er ánægjulegt að sjá hve sjálfstraust þeirra sem vinna á markaði fjármála hefur aukist smátt og smátt en ekki eru mörg ár síðan heimóttarbragurinn var þar ráðandi.

Kaup Landsbankans á breska fjárfestingarbankanum kunna að skipta bankann töluverðu á komandi árum. Hlutabréfamarkaðurinn virðist að minnsta kosti hafa tröllatrú á fjárfestingunni en sama dag og tilkynnt var um kaupin hækkaði gengi hlutabréfa Landsbankans um 5,9%. Að hluta kann skýringin að vera sú að möguleg arðsemi bankans eykst með yfirtöku á hinum breska banka og að hluta til vegna þess að samkeppnishæfni Landsbankans verður meiri eftir því sem eignarhlutur ríkisins minnkar.

Mestu skiptir hins vegar fyrir Landsbankann og íslenskt fjármálalíf að í fyrsta skipti hefur stór erlendur banki ákveðið að festa fjármuni í hlutabréfum íslensks banka. Kaup First Union National Bank, sem er meðal stærstu banka í Bandaríkjunum, á nú 4% hlut í Landsbankanum sýnir að tiltrú og athygli erlendra fjárfesta á Íslandi er að aukast. Vonandi eru þessi kaup aðeins upphafið að skipulegri innrás erlendra aðila inn á flest svið íslensks atvinnulífs. Mikilvægt er að stjórnvöld standi ekki í veginum og reisi virki til að verjast innrásinni eins og gert hefur verið.

Fjárfesting erlendra aðila í íslensku fjármálalífi opnar nýjar leiðir og gerir aðrar greiðfærari í sókn Íslendinga á erlenda markaði. Auk þess ættu að skapast forsendur fyrir því að flæði upplýsinga og þekkingar um starfsemi fjármálamarkaða verði meira og betra en áður. En þótt Íslendingar þurfi að sækja margt til erlendra aðila þegar kemur að þekkingu og reynslu hafa þeir einnig margt fram að færa. Þannig geta íslenskir bankar til dæmis kennt bandarískum bönkum ýmislegt á sviði greiðslumiðlunar en greiðslumiðlun í Bandaríkjunum er langt frá því að vera eins þróuð og hér á landi.

Tækifæri

Stjórnvöld hafa því miður verið tvístígandi í stefnu sinni um framtíð ríkisbankanna, Búnaðarbankans og Landsbankans. Mikilvægt er að tekið sé af skarið og einkavæðingu bankanna sé haldið áfram. Fjárfesting erlendra aðila skapar ný tækifæri í þeim efnum auk þess sem öll skynsamleg rök benda til þess að nauðsynlegt sé að hraða einkavæðingunni."