Jóhann Stefán Guðmundsson fæddist að Hrólfsskála á Seltjarnarnesi 26. janúar 1921. Hann andaðist að heimili sínu hinn 10. júlí síðastliðinn. Foreldrar hans voru Þorgerður S. Einarsdóttir og Guðmundur J. Jónsson. Bræður hans voru Sigurjón Karel, látinn, Einar Marinó, látinn, og Svavar.

Eftirlifandi eiginkona Jóhanns er Ingigerður I. Helgadóttir, f. 27. maí 1919, þau giftust hinn 17. júlí 1945. Börn þeirra eru Vilborg, f. 14. oktober 1945, Þorgerður, f. 20. ágúst 1948, Herdís, f. 31. janúar 1955 og Gunnar Már, f. 5. oktober 1958.

Jóhann var einn af stofnendum Hreyfils og keyrði hann þar í mörg ár, eftir það hóf hann störf hjá Íslenskum aðalverktökum á Keflavíkurflugvelli og var þar í nokkur ár, síðan hóf hann störf hjá SVR árið 1955 og vann þar til starfsloka 1992.

Útför Jóhanns Stefáns fór fram í kyrrþey 18. júlí að ósk hins látna.

Segðu hvern morgun svo við mig, sæti Jesús, þess beiði ég þig: Í dag þitt hold í heimi er, hjartað skal vera þó hjá mér. Í dag, hvern morgun ég svo bið, aldrei lát mig þig skiljast við, sálin, hugur og hjartað mitt hugsi og stundi á ríkið þitt. Eins þá kemur mín andlátstíð, orðin lát mig þau heyra blíð: Í dag, seg þú, skal sálin þín Sannlega koma í dýrð til mín. (Hallgr. Pét.)

Elsku afi, nú ertu búinn að fá hvíldina eftir erfiða daga og þó ég sé þakklát fyrir það er söknuðurinn mikill.

Minningin um þig er um manninn sem alltaf var til staðar fyrir okkur fjölskylduna ef eitthvað bjátaði á.

Alltaf lagaði afi allt sem hægt var. Alltaf tókst þú þátt í öllu gríni og glensi og gerðir óspart grín að mér til að létta lundina.

Ég mun sakna allra fjölskylduboðanna þar sem við sátum oft tvö og töluðum um allt milli himins og jarðar og þess á milli færðum við hvort öðru eitthvað að borða eða drekka. Ég minnist þess líka alltaf hvað var gott að koma til afa og ömmu í spjall og spil.

Elsku afi, þrátt fyrir veikindi þín glataðir þú aldrei húmornum. Ég minnist þess að koma til þín og við lágum uppi í rúmi og gerðum grín að hvort öðru og skemmtum okkur konunglega.

Ég vil þakka þér elsku afi fyrir allar góðu stundirnar sem við áttum saman, stuðning þinn allan og trúna á mér.

Megi drottinn vernda þig og varðveita og veita elsku ömmu Ingu styrk í sorginni, hún sem var þín stoð og stytta alla tíð.

Segðu hvern morgun svo við mig,

sæti Jesús, þess beiði ég þig:

Í dag þitt hold í heimi er,

hjartað skal vera þó hjá mér.

Í dag, hvern morgun ég svo bið,

aldrei lát mig þig skiljast við,

sálin, hugur og hjartað mitt

hugsi og stundi á ríkið þitt.

Eins þá kemur mín andlátstíð,

orðin lát mig þau heyra blíð:

Í dag, seg þú, skal sálin þín

Sannlega koma í dýrð til mín.

(Hallgr. Pét.)

Bless í bili, elsku afi.

Þín,

Sigríður.

Sigríður.