Guðrún Kristín Skúladóttir White fæddist 14. september 1951 í Keflavík. Hún lést 1. júlí síðastliðinn á heimili sínu í Bandaríkjunum. Foreldrar, Skúli Vigfússon, f. 9 des. 1909, dáinn 1. júlí 1982 og Inga Ingólfsdóttir f. 27. nóv. 1925, d. 17. ágúst 1983. Systkini Guðrúnar Kristínar eru; Anna Skúladóttir, f. 18. okt. 1943, d. 1. feb. 1990, á þrjú börn og þrjú barnabörn, bjó í Keflavík. Sigurjón Skúlason, f. 12. sept. 1945, kvæntur Elínborgu Þorsteinsdóttur, á fimm börn og átta barnabörn og býr í Keflavík. Ingólfur Skúlason, f. 9. júní 1949, á tvö börn, býr í Bandaríkjunum. Ólafur Th. Skúlason, f. 14. júní 1953, kvæntur Charitu Earinguez og eiga einn son, býr í Reykjavík. Valdís Skúladóttir, f. 28. okt. 1954, gift Pétri A. Péturssyni og eiga einn son og tvö barnabörn, býr í Njarðvík. Rúnar Skúlason, f. 7. feb. 1959, ókvæntur og barnlaus, lést 7. febrúar 1993, bjó í Bandaríkjunum. Eiríkur Skúlason, f. 7. feb. 1959, kvæntur Lynn og á tvö börn, býr í Bandaríkjunum. Kolbrún Skúladóttir, f. 21. sept. 1960, í sambúð með Steinþóri Aðalsteinssyni og á þrjú börn og eitt barnabarn, býr í Keflavík.

Eftir skólagöngu vann Guðrún Kristín ýmis störf og 1970 fluttist hún til Bandaríkjanna og giftist Tom M. White, f. 14. ágúst 1948, þann 12. júní 1970 og eiga þau fjögur börn og fimm barnabörn. Þau buggu hér á Íslandi árin 1988 til 1990, hin öll í Bandaríkjunum. Thomas Georg, f. 16. mars 1971, á tvö börn, Christoher M., f. 14.jan. 1974, á eitt barn. Andrew, f. 4. sept. 1976 og á eitt barn, Angelu Rose, f. 27. sept. 1979 og á eitt barn. Þau búa öll í Bandaríkjunum.

Minningarathöfn um Guðrúnu Kristínu fer fram frá Keflavíkurkirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 14.

Stend ég útvið gluggann Og stari út á haf Bárur sem mér rugga Færðu þig í kaf. Stend ég hér og vona Að ég fái þig að sjá. Því hugsa ég svona Þú horfin ert mér frá. Ég er á förum Og kem ei aftur hér. Með tár á hvörmum Því ég sé svo eftir þér ástin mín. Við áttum góðar stundir Meðan lífið lék oss við Ljúfir ástarfundir undir öldnum eikarvið. Ég er á förum og kem ei aftur hér. Með tár á hvörmum Því ég sé svo eftir þér ástin mín. (Pétur Andrés Pétursson.)

Mig langar að skrifa nokkur orð um systur mína, hana Stínu. Ég trúi þessu ekki ennþá, 48 ár eru ekki hár aldur. Hví í ósköpunum er kona í blóma lífsins tekin frá þeim sem elska hana, hví er henni ekki ætlað lengra líf hér á jörðu? Þessari spurningu fáum við aldrei svar við, hversu oft sem við leitum þess. Hún var svo hamingjusöm með Tom og börnunum og barnabörnunum sínum. Hann Colling litli var svo mikill ömmustrákur, þegar hann fæddist varstu svo veik og lást mikið fyrir og þú passaðir hann á meðan Angela var í skólanum. Þú sagðir að hann hefði sofið hjá þér í rúminu þrjá fyrstu mánuðina eftir að hann fæddist enda var hann mikill ömmuprins. Þegar hann og mamma hans fluttu til Hollands vantaði hann ömmu sína. Hann spurði þig alltaf hvenær þú kæmir, þú ætlaðir að klára læknameðferðina í Ameríku og flytja svo til Toms til Hollands. Þú náðir að fara í stutta heimsókn en varðst svo að fara aftur til Ameríku. Það er svo skrýtið að þú fórst sama dag og pabbi okkar, en það eru 18 ár síðan pabbi dó. Þú sagðir mér frá draumi sem þig dreymdi um pabba í vetur, og ég skil drauminn núna.

Við töluðum síðast saman aðfaranótt 28. júní og þá sagðir þú mér hvað framundan væri. Ég bauðst til að koma, en þú sagðir "nei, farðu til Mallorca og svo skulum við sjá til hvort ég bið þig þá að koma til mín." Ég ætlaði að hringja aftur í þig á laugardagskvöldið en þá hafðirðu misst meðvitund. Þetta gerðist allt svo fljótt með þig, þú varst búin að vera svo dugleg í þessum veikindum. Við töluðum alltaf saman í síma og stundum ef þér leið illa hringdi ég þrisvar til fjórum sinnum í viku í þig, því mér leið betur að heyra í þér. Það var svo gaman þegar þú komst heim í maí í fyrra og varst hjá mér í viku. Þú varst alltaf þreytt en við gátum samt talað og talað langt fram á nótt og þig langaði að koma aftur heim í haust ef heilsan leyfði.

Þú varst svo dugleg að sauma og ég man að eitt sinn þegar við fórum í bíó sástu svo flotta blússu í myndinni og þú saumaðir eins blússu. Það var alveg sama hvað þér datt í hug að sauma, það var alltaf svo vel gert og flott hjá þér enda varstu svo þrjósk að þú fórst á þrjóskunni í gegnum veikindin síðastliðin fimm ár. Við vorum stór fjölskylda en mamma og pabbi, Anna, Rúnar og Billý eru látin, og nú þú, Stína. Við vorum níu systkinin en erum nú sex eftir af þessum stóra hóp; Ingólfur og Eiríkur í Ameríku og svo Deddi og ég og Kolla í Keflavík og Óli í Reykjavík.

Stend ég útvið gluggann

Og stari út á haf

Bárur sem mér rugga

Færðu þig í kaf.

Stend ég hér og vona

Að ég fái þig að sjá.

Því hugsa ég svona

Þú horfin ert mér frá.

Ég er á förum

Og kem ei aftur hér.

Með tár á hvörmum

Því ég sé svo eftir þér ástin mín.

Við áttum góðar stundir

Meðan lífið lék oss við

Ljúfir ástarfundir undir öldnum eikarvið.

Ég er á förum og kem ei aftur hér.

Með tár á hvörmum

Því ég sé svo eftir þér ástin mín.

(Pétur Andrés Pétursson.)

Þér fannst þessi texti sem mágur þinn orti fyrir mörgum árum svo fallegur. Ég þakka ástkærri systur minni fyrir allar dýrmætu stundirnar sem við áttum saman og bið Guð að gefa henni góða heimkomu. Dýrmætar minningar munu lifa um góða systur sem ég elska. Guð geymi þig, elsku Stína mín. Þín,

Valdís.

Valdís.