Guðni Þórðarson fæddist á Ölfusvatni í Grafningi 5. október 1914. Hann lést á Landspítalanum Fossvogi 16. júlí síðastliðinn. Foreldrar hans voru Þórður Gíslason bóndi og kona hans Guðbjörg Þorgeirsdóttir. Guðni var yngstur sex systkina, en þau voru Ólafur símfræðingur; Þorgeir múrari; Gísli trésmiður; Þórður Björgvin afgreiðslumaður og Þóra húsmóðir. Systkini Guðna eru látin, nema Björgvin sem enn er á lífi. Guðni missti föður sinn þegar hann var einungis fjögurra ára og fluttist móðir hans þá til Hafnarfjarðar, en börnin dreifðust. Guðni fór fljótlega í fóstur hjá móðursystur sinni, Kristínu, og manni hennar, Guðna Jónssyni, en þau bjuggu á Landakoti á Álftanesi. Fósturforeldrar hans brugðu búi og fluttu til Hafnarfjarðar þegar Guðni var níu ára og við fermingu réðst Guðni með fóstra sínum til Vífilsstaða, en þar var fóstri hans áður orðinn ráðsmaður. Eftir fimm ára dvöl á Vífilsstöðum hóf Guðni nám í járnsmíði í Vélsmiðju Hafnarfjarðar og að loknu járnsmíðanámi fór hann í Vélskólann og lauk þaðan fullu námi á þremur vetrum.

Guðni kvæntist hinn 15. mars 1941 Jónínu Jónsdóttur frá Reykjavík, f. 8. febrúar 1918. Foreldrar Jónínu voru Jón Sigmundsson sjómaður, sem fórst með togaranum Leifi heppna í Halaveðrinu, og Kristín R. Jónasdóttir. Seinni maður Kristínar og fósturfaðir Jónínu var Guðmundur Andrésson gullsmiður. Guðni og Jónína eignuðust eina dóttur, Kristínu, f. 21. desember 1941. Kristín er gift Einari Hermannssyni skipaverkfræðingi og eru börn þeirra Guðni, f. 24. júlí 1974, viðskiptafræðingur í sambúð með Sigríði Ólafsdóttur, og Árni, f. 7 september 1977, vélaverkfræðingur.

Guðni stofnaði við annan mann Vélsmiðjuna Klett í Hafnarfirði 1940 og rak hana ásamt öðrum fram til 1953. M.a. vegna heyrnarskemmda af smiðjuvinnunni söðlaði Guðni um 1953 og hóf nám í gullsmíði hjá tengdaföður sínum og starfaði við það þar til Guðmundur Andrésson féll frá 1968. Guðni og Jónína keyptu þá fyrirtækið og hafa rekið það ásamt Kristínu dóttur sinni til dagsins í dag.

Útför Guðna fer fram frá Fossvogskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.30.

Far þú í friði friður Guðs þig blessi hafðu þökk fyrir allt og allt. (V. Briem.)

Nú hafa orðið stór þáttaskil í lífi mínu. Faðir minn og einn af mínum bestu vinum er látinn. Andlát hans bar að með nokkuð skyndilegum hætti, enda þótt hann hefði þegar náð háum aldri. Hann hafði verið góður til heilsunnar miðað við aðstæður og haldið vel sinni fastmótuðu stefnu í starfi og leik.

Skyndilega gerði ótuktarveður sem breytti allri stefnu til verri vegar og við ekkert var ráðið.

Hugur minn hefur undanfarna daga leitað oft í sjóð minninganna.

Allar eru þessar minningar fallegar og góðar, mótaðar af þeirri vináttu og ljúfmennsku sem voru svo sterkir þættir í lundarfari föður míns. Faðir minn var mjög skyldurækinn og fylginn sér og geymdi helst ekki til morguns þá hluti sem hann gat lokið af í dag. Samt gætti einskis offars í framkomu hans, allt gert yfirvegað. Margur yngri maður gæti ýmislegt af föður mínum lært, því fáa menn þekki ég á hans aldri sem voru jafnliðtækir heima fyrir og hann, galt þar einu hvort um matseld eða innkaup var að ræða. Hann vissi hvað vantaði.

Foreldar mínir lifðu farsælu lífi og tóku alla tíð mikið tillit hvort til annars. Móðir mín hefur misst mikið og saknar vinar í stað. Föður mínum var alla tíð ákaflega annt um velferð sona okkar Einars og fylgdist vel með námi þeirra og starfi. Gaf hann þeim gott veganesti út í lífið.

Ég vil að lokum þakka föður mínum fyrir alla ástúð og elsku í okkar garð.

Far þú í friði

friður Guðs þig blessi

hafðu þökk fyrir allt og allt.

(V. Briem.)

Hvíl þú í friði,

Kristín (Stína).

Það er með sárum trega að ég kveð Guðna tengdaföður minn í dag. Guðni var á margan hátt einstakur maður, en þó held ég að ljúfmennska hans standi þeim sem honum kynntust efst í huga, enda er hans sárt saknað.

Á langri og gæfusamri ævi upplifði Guðni hið mesta breytingaskeið sem orðið hefur í íslensku samfélagi. Hann fæddist og ólst upp í sveit og sundraðist systkinahópurinn þegar hann var barn að aldri við fráfall föður hans, en systkinin héldu engu minna sambandi sín á milli og við móður sína, en þótt þau hefðu alist upp saman. Guðni fór í fóstur hjá frændfólki sínu sem reyndist honum afskaplega vel og var mjög kært með honum og fóstra hans, enda starfaði Guðni með honum á Vífilstöðum öll unglingsárin, jafnhliða því að hann sótti skóla.

Guðni lærði sína iðn í Hafnarfirði og þar og síðar í Vélskólanum bast hann tryggðarböndum við æskufélagana Kristin, Bjart og Gústa sem héldust til æviloka.

Guðni stofnaði Vélsmiðjuna Klett við upphaf styrjaldarinnar og hersetunnar og var Guðni hafsjór af fróðleik um þær miklu breytingar og breytt viðhorf sem fylgdu nýrri og framandi tækni og tækjum sem flæddu inn í landið með herliðinu og voru upphafið að síðbúinni iðnbyltingu á Íslandi. Guðni var ágætlega lesinn og hafði næmt auga fyrir því hvernig samfélagið breyttist með síauknum tengslum við umheiminn.

Þótt Guðna hafi vegnað vel í rekstri Kletts, þá ákvað hann 39 ára gamall að söðla um og nema gullsmíði. Helsta ástæða fyrir þessari ákvörðun voru langtíma heyrnarskemmdir sem hann, eins og margir aðrir sem störfuðu í smiðjum, varð fyrir vegna hávaða, en ekki var fullur skilningur á á þeim tímum. Skert heyrn ógnaði helsta tómstundaáhugamáli Guðna sem var söngurinn, en Guðni var virkur félagi í karlakórnum Þöstum í Hafnarfirði og síðar í tugi ára í Fóstrbræðrum í Reykjavík og síðast í félagi gamalla Fóstbræðra.

Guðni starfaði sem gullsmiður í nær 50 ár, fyrst með tengdaföður sínum Guðmundi Andréssyni, en síðar rak hann gullsmíðaverslunina með Jónínu konu sinni og Kristínu dóttur sinni og konu minni allt fram undir síðasta dag.

Guðna auðnaðist sú gæfa að halda fullu þreki og starfsgetu fram til hins síðasta og sótti hann vinnu, 85 ára gamall, allt þar til 3 dögum áður en hann lést. Guðni hafði afskaplega einfalda en árangursríka lífssýn sem hann sagði að hefði veitt honum þetta einstaka starfsþrek og langlífi. Það sem skipti öllu máli að hans mati, var að hugsunin hefði alltaf verðug viðfangsefni. Þetta endurspeglaðist í lífi Guðna, því hann hafði geysilega víðfemt áhugasvið sem spannaði alla flóruna frá því að njóta klassískrar tónlistar og lesturs góðra bóka yfir í dægurmál, þjóðmálin og jafnvel allskonar íþróttir og svo mætti lengi telja.

Guðni og Jónína höfðu gaman af ferðalögum og útivist. Þau heimsóttu okkur Kristínu þegar við vorum búsett á fjarlægum stöðum, bæði til Asíu og í Evrópu. Einnig naut Guðni þess sérstaklega að vera með okkur og sonum okkar í sumarbústað okkar á Þingvöllum við veiðar og útiveru og ekki skemmdi fyrir að fæðingarstaður hans blasti við hinum megin við vatnið.

Við fráfall Guðna er mér efst í huga þakklæti fyrir að hafa fengið að kynnast slíkum ljúflingi sem hann var og eiga með honum margar ánægjustundir. Ekki síður stöndum við í þakkarskuld við hann fyrir alla þá alúð og umhyggjusemi sem hann sýndi sonum okkar og þeirra uppvexti. Það er nokkur huggun í sorginni, að vita að Guðna auðnaðist að eiga langa og gæfuríka ævi og njóta lífsins til síðasta dags.

Einar Hermannsson.

Elsku afi, nú hef ég kvatt þig í síðasta sinn en ég get ekki trúað því að þú sért horfinn á braut.

Minningar mínar um þig eru margar og góðar því þú hafðir í fari þínu svo marga góða kosti sem eru mér mikilvægir, eins og góðmennsku, sanngirni og umburðarlyndi. Ég gat ávallt leitað til þín því þú varst viskubrunnur um ótal hluti og kenndir mér svo margt.

Ég man hversu gaman mér þótti að gista hjá þér og ömmu. Við þrjú gerðum svo margt skemmtilegt saman þessar helgar og þú varst alltaf að kenna mér eitthvað nýtt og spennandi. Eins mun ég aldrei gleyma því sem við brölluðum saman uppi í sumarbústað á Þingvöllum ásamt Árna bróður. Hvort sem það var þegar þú, ásamt pabba, kenndir okkur að veiða eða hjálpaðir til við kofasmíðar.

Þó svo Guð hafi tekið þig í faðm sinn, elsku afi, mun ég varðveita í hjarta mínu ótal góðar minningar um þig þar til við hittumst á nýjan leik.

Ég vil þakka þér fyrir allar góðu samverustundirnar sem áttum.

Guð varðveiti þig.

Þinn,

Guðni.

Í dag er til moldar borinn kær föðurbróðir Guðni Þórðarson. Guðni var yngsta barn Guðbjargar Þorgeirsdóttur frá Núpum í Ölfusi og Þórðar Gíslasonar, frá Ölversvatni, Grafningi. Systkini Guðna voru Ólafur, Gísli, Þorgeir, Þórður Björgvin og Þóra, þau hafa nú öll kvatt þennan heim nema Þórður Björgvin, hann lifir systkini sín.

Guðni var síðasta barn sem fæddist á Ölversvatni í Grafningi, en fjölskyldan hafði búið þar og á bæjunum í kring frá 1580. Guðni fór að Landakoti á Álftanesi ungur að árum og ólst þar upp ásamt Gísla bróður sínum og frændsystkinum hjá Kristínu móðursystur sinni og sambýlismanni hennar Guðna Jónssyni. Guðni lærði vélsmíði og síðan gullsmíði, sem hann síðan starfaði við. Guðni var gæfumaður, hann og eftirlifandi kona hans Jónína Jónsdóttir voru glæsileg hjón. Þau hjónin hafa rekið saman gullsmíðaverslunina Guðmundur Andrésson við Laugaveg. Þau eignuðust eina dóttur Kristínu.

Tónlistin skipaði ávallt háan sess hjá Guðna. Hann var góður söngmaður og söng með karlakórnum Fóstbræður til fjölda ára. Guðni var glæsilegur maður, hann hafði hlýtt og glaðlegt viðmót en umfram allt var hann grandvar. Hann var víðsýnn og það gladdi hann þegar unga fólkið í ættinni fór að sækja til náms. Guðni var heilsuhraustur og honum öðlaðist sú gæfa að vera starfandi fram á síðasta dag. Hann smíðaði mikið af fallegum gripum og gaman var að koma í verslun þeirra hjóna og ávallt hægt að reiða sig á gæði hlutanna ef eitthvað þurfti að kaupa. En eins og segir í Orðskviðunum 20.15. "Til er gull og gnægð af perlum, en hið dýrmætasta þing eru vitrar varir", svo að alltaf fórum við ríkari af hans fundi. Við munum sakna föðurbróður og minnast hans með þakklæti í huga. Við sendum samúðarkveðjur til eftirlifandi eiginkonu, dóttur, tengdasonar og barnabarna. Drottinn blessi þau og styrki í söknuði og sorg.

Jónína Björg, Bryndís og Kristín Gísladætur.

Mig langar að minnast Guðna Þórðarsonar í nokkrum orðum. Þegar ég var að kynnast fjölskyldu sambýlismanns míns, Guðna, sem skírður er í höfuðið á afa sínum, var mér boðið í matarboð sem haldið var í tilefni afmælis Guðna eldri. Það var í fyrsta skipti sem ég hitti Guðna og ég man að þá strax var mér augljóst hversu góðan mann hann hafði að geyma.

Hann var góðmennskan uppmáluð, mildur maður sem fylgdist vel með því sem var að gerast í kringum hann, bæði í þjóðmálum og öðru. Hann lagði sig fram við að fylgjast með barnabörnum sínum, þeim Guðna og Árna, og var þeim ávallt góður félagi og ráðgjafi. Hann kenndi þeim og sýndi svo margt í gegnum tíðina og ég veit að þeir eiga margar góðar minningar um afa sinn.

Til dæmis þegar þeir, með afa sinn sem ráðunaut og hjálparhellu, smíðuðu kofa eða veiddu fiska í Þingvallavatni, eða þegar afi kenndi þeim skák eða nýjar reikningsaðferðir sem þeir kunnu ekki áður. Hann var afar þolinmóður maður, lét ekki margt raska ró sinni og var ástvinum sínum ávallt stoð og stytta í lífsins ólgusjó.

Mér er það heiður að hafa kynnst þessum kostamanni og ég kveð hann með söknuði. Eiginkonu hans og fjölskyldu sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Sigríður Ólafsdóttir.

Nú hefur Guðni vinur minn fengið hvíldina. Hann var kominn á 86. aldursár en bar aldurinn einstaklega vel. Guðna hef ég þekkt alla tíð og mig langar nú að minnast hans með nokkrum orðum.

Guðni og kona hans Jónína fluttu á Leifsgötu 32 árið 1941, þar sem ég bjó ásamt foreldrum mínum og systkinum. Þar bjuggu þau í 15 ár, eða þar til þau fluttu í næsta nágrenni, að Egilsgötu 22, þar sem þau bjuggu æ síðan. Á Leifsgötunni var sambýlið ætíð gott, og þar fæddist mín elskulega vinkona Kristín, einkabarn þeirra hjóna. Margs er að minnast frá þessum bernsku- og æskudögum. Þar eiga þau Guðni og Jóna ásamt Stínu stóran hlut að máli.

Á þessum árum vann Guðni í vélsmiðjunni Kletti í Hafnarfirði. Um 39 ára aldur lærði hann gullsmíði og vann hjá Guðmundi Andréssyni gullsmiði, tengdaföður sínum, á Laugavegi 50. Eftir fráfall Guðmundar keypti Guðni verslunina og stjórnaði henni til hinstu stundar. Honum var mikilvægt að hafa alltaf nóg að starfa.

Guðni var mikið fyrir tónlist og söng með karlakórnum Þröstum í Hafnarfirði og seinna með Fóstbræðrum. Oft heyrði ég hann æfa sig á kvöldin og hafði gaman af.

Með Guðna og fjölskyldu fór ég í mína fyrstu tjaldútilegu, og það var til Þingvalla. Þvílík upplifun! Eða allir bíltúrarnir í Ford-bílnum sem okkur Stínu fannst svo fínn! Það sem er þó hvað minnistæðast, þegar litið er til baka, er mánaðarferð, sem við fórum saman um Evrópu. Var þetta í fyrsta skipti sem við Stína fórum til útlanda, þá unglingar. Þetta var frábær ferð sem aldrei gleymist og kannski einmitt fyrir það hversu vel Guðni fræddi okkur og kenndi um hin ýmsu lönd og borgir sem við fórum um. Hann var búinn að lesa sér til og virtist jafnvel þekkja og vera búinn að sjá margt það sem við skoðuðum, þó að hann hefði ekki komið þangað fyrr. Hann var stálminnugur, var það reyndar alla tíð, og hann naut sín svo einstaklega vel við að miðla okkur stelpunum af þekkingu sinni.

Oft höfum við rifjað upp þessa ferð og alltaf hlegið jafn mikið og haft gaman af. Meðal annars þegar Jóna hafði áhyggjur af því að við værum að villast og fara einhverjar ,,útúrgötur". Eftir á undraðist ég hversu vel Guðni mundi eftir öllu, stóru sem smáu, betur en við yngra fólkið.

Mér fannst Guðni vera myndarlegur maður. Já, hreint og beint fallegur! Hann var mikið ljúfmenni, kurteis og hafði sérlega fágaða framkomu. Nú er þessi góði vinur horfinn á braut og ég veit að söknuðurinn er mikill í fjölskyldunni. Ég er þakklát fyrir að hafa þekkt Guðna.

Elsku Jóna mín og Stína, Einar, Guðni og Árni. Ég votta ykkur innilega samúð mína og fjölskyldu minnar.

Guðrún.

Kveðja frá Félagi íslenskra gullsmiða

Í dag kveðjum við félaga okkar, Guðna Þórðarson. Hann var í starfi fram á síðasta dag, ötull og duglegur gullsmiður. Guðni fæddist á Ölfusvatni í Grafningi 5. október 1914, ólst upp í Hafnarfirði og í ársbyrjun 1932 hóf hann nám í járnsmíði. Guðni stofnaði ásamt öðrum Vélsmiðjuna Klett, en er Guðni var 39 ára hóf hann nám í gullsmíði. Tengdafaðir hans, Guðmundur Andrésson gullsmíðameistari, kenndi honum iðnina, hjá honum vann hann og síðar tók Guðni við rekstrinum ásamt svo Kristínu dóttur sinni.

Fyrst þegar Guðni byrjaði í iðninni var aðallega unnið víravirki. Á sjötta áratugnum fór að draga úr vinsældum víravirkisins og aðrir skartgripir að seljast. Smíði úr gulli varð sífellt stærri þáttur í starfsemi verkstæðisins við Laugaveginn, sem er mjög lítið en alltaf var hægt að taka á móti gestum og oft glatt á hjalla.

Guðni hafði yndi af söng og var virkur meðlimur í Fóstbræðrum, oft heyrði maður Guðna söngla við vinnuna, sem gaf til kynna að hann unni faginu. Að leiðarlokum viljum við kveðja þennan hugljúfa mannvin um leið og við flytjum eiginkonu hans, Jónínu, Kristínu dóttur hans og öðrum ástvinum okkar dýpstu samúðarkveðjur.

Blessuð sé minning Guðna Þórðarsonar.

Halla Bogadóttir,

formaður FÍG.

Kristín (Stína).