Yngvi Kjartansson fæddist á Akureyri 7. apríl 1962. Hann lést á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri 6. júlí síðastliðinn og fór útför hans fram frá Akureyrarkirkju 14. júlí.

Ég var erlendis þegar útför Yngva Kjartanssonar blaðamanns, góðkunningja míns, fór fram. Ég sé eftir heimkomu að hans hefur verið maklega getið í minningargreinum, og því bættur skaðinn þó að kveðja mín sé síðbúin og stutt.

Ég kynntist Yngva fyrst þegar ég hóf kennslu við Menntaskólann á Akureyri 1983 en hann var þá á lokaári þar. Yngva þótti, ef ég man rétt, lítið til koma þeirra fræða sem nýi kennarinn reiddi fram enda ekki nema þremur árum eldri en hann og Yngvi þá þegar, að eigin dómi, nokkuð lífsreyndur. Seinna áttum við hins vegar eftir að verða allvel sáttir.

Næst kynntist ég Yngva sem deildarfulltrúa heilbrigðisdeildar Háskólans á Akureyri en því starfi gegndi hann um skeið þegar hann var milli vita í blaðamennskunni. Tókst þá með okkur góður kunningsskapur sem aldrei slitnaði. Yngvi var afskaplega vel liðinn sem deildarfulltrúi. Starfinu sjálfu gegndi hann af inngróinni trúmennsku og ljúfleik, en undir lok þess grunar mig að mestur tími Yngva hafi farið í að vera allsherjar hjálparhella kennara í Þingvallastrætinu í tölvumálum - og settu deildamúrar þar greiðasemi hans engin mörk. Yngva var mjög saknað hér er hann hvarf á braut og tók upp sér skyldari sýslan, en hann heimsótti okkur þó reglulega á kaffistofuna og sinnti stundakennslu hér í mörg ár: kenndi verðandi hjúkrunarfræðingum greinaskrif og hluta af aðferðafræðinámskeiði í rekstrardeild. Vöndugleikur og samviskusemi einkenndi kennslu Yngva sem og önnur störf. Því þótti mér ekki ónýtt að geta fengið hann til að sjá um frágang og hönnun á greinasafninu Tilraunin Ísland í 50 ár sem við Valgarður Egilsson læknir ritstýrðum og Listahátíð gaf út árið 1994.

Yngvi var góður blaðamaður, ötull fréttamaður og frábær þáttastjórnandi.

Sagnaslóðar-þættir hans verða mörgum útvarpshlustendum eftirminnilegir enda naut þar eðlislæg rósemi hans, natni og íhygli sín best. Hann hafði ríka réttlætiskennd og brennandi áhuga á fjölmiðlun af öllu tagi, úrvinnslu og miðlun upplýsinga til almennings. Honum þótti víða pottur brotinn í að upplýsingaskyldu stjórnvalda væri sinnt sem skyldi og því glöddu lög um það efni, sett fyrir nokkrum árum, hann mjög þó að hann teldi þau raunar ganga of skammt í ýmsum greinum. Almennt hafði Yngvi ímigust á öllu uppblásnu og loftbornu en laðaðist að hinu smágerva og jarðbundna. Hann var hógvær án þess að vera auðmjúkur, kíminn án þess að vera rætinn, elskulegur án þess að vera uppáþrengjandi, fylginn sér án þess að vera ágengur.

Eðliskostir Yngva nutu sín í hetjulegri baráttu hans við grimman og ósigrandi óvin, baráttu sem stóð lengur en nokkurn hefði getað órað fyrir.

Þar réð mestu að Yngvi tók sjúkdómi sínum ekki af því æðruleysi sem kallað er dygð í minningargreinum, en oft er ekki nema ranghverfan á sálrænni uppgjöf, heldur af hetjuskap og ódrepandi baráttuanda. Hann burstaði meira að segja rykið af menntaskólaenskunni og gott betur til að geta deilt reynslu sinni með þjáningarsystkinum út um allan heim á Netinu og talið í þau kjark.

Yngvi var ekki trúmaður í venjulegum skilningi en í einu síðasta samtali mínu við hann lýsti hann þó þeirri skoðun sinni að höfuðstef allra bestu bókmennta heimsins (en í þeim var hann ótrúlega vel lesinn), sem og trúarbragða, væri friðþægingarfórnin. Hetjan fellur en ljær um leið hinum kraft svo að þeir eigi lífsvon: Murphy deyr í Gaukshreiðrinu en indíáninn brýst út, Njáll brennur en Kári (vindurinn, tíminn, framvindan) heldur sína leið. Yngvi gerði sér örugglega enga grein fyrir því í þessu samtali okkar að hann sjálfur væri órækastur vitnisburður um gildi eigin kenningar: Hann var þá að falli kominn, en fordæmi hans, þolgæði og hetjulund, gefur okkur sem eftir lifa kraft til að kóklast áfram um sinn uns orka þverr og aðrir taka við merkinu.

Yngvi Kjartansson var góður drengur, velviljaður öllu sem lífsanda dregur.

Hans mun víða saknað þó að mestur harmur sé vitaskuld kveðinn að fjölskyldu hans sem hann talaði jafnan um með sérstökum innileik. Henni sendi ég persónulega og fyrir hönd starfsfólks Háskólans á Akureyri innilegustu samúðarkveðjur.

Kristján Kristjánsson.

Kristján Kristjánsson.