27. júlí 2000 | Landsbyggðin | 224 orð

Stafkirkjan í Eyjum afhent og vígð

STAFKIRKJAN í Vestmannaeyjum verður afhent og vígð sunnudaginn 30. júlí en kirkjan er þjóðargjöf Norðmanna til Íslendinga í tilefni þúsund ára kristnitökuafmælis á Íslandi.
STAFKIRKJAN í Vestmannaeyjum verður afhent og vígð sunnudaginn 30. júlí en kirkjan er þjóðargjöf Norðmanna til Íslendinga í tilefni þúsund ára kristnitökuafmælis á Íslandi. Athöfnin fer fram á vegum forsætisráðuneytis og tekur Davíð Oddsson forsætisráðherra við þjóðargjöfinni.

Kirkjan stendur við Hringskersgarð á Skanssvæðinu sem lagfært hefur verið fyrir vígsluna og endurbyggt. Biskup Íslands, herra Karl Sigurbjörnsson, vígir Stafkirkjuna, m.a. með aðstoð Eyjapresta og fleiri presta. Dagskráin hefst kl.13:20 með hljóðfæraleik Lúðrasveitar Vestmannaeyja og skrúðgöngu frá Skansvirkinu til kirkju. Þar verður kirkjan afhent við hátíðlega athöfn utan dyra og vígslan hefst í framhaldi af því. Þar sem kirkjan rúmar um 50 gesti verður hátalarakerfi á svæðinu til að allir geti fylgst með vígslunni.

Meðal hátíðargesta eru Haraldur Noregskonungur og Sonja drottning, forseti Íslands, norskir ráðherrar og íslenskir og fjöldi annarra gesta. Að lokinni vígslu kirkjunnar heldur hátíðardagskráin áfram utan dyra með hljóðfæraleik Lúðrasveitar Vestmannaeyja, hátíðarkórs Vestmannaeyja, ljóðalestri, einleik Védísar Guðmundsdóttur á flautu og flutningi norsks leiklistarhóps á leikritinu "Krossinn og sverðið". Dagskránni á Skansinum lýkur með bjargsigi við Dönskutó í Heimakletti. Landlyst og önnur mannvirki á svæðinu, sem verið hafa í endurbyggingu, verða til sýnis á vígsluhátíðinni en verða formlega tekin í notkun 30. september nk.

Mikil vinna hefur verið lögð í frágang svæðisins en stafkirkjunefnd óskar eftir sjálfboðaliðum til að leggja síðustu hönd á verkið við hreinsun og frágang milli kl. 10 og 13 á laugardagsmorgun.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.