Lúðrasveit Reykjavíkur leikur á sólbjörtum sumardegi á Austurvelli árið 1930. Doktor Franz Mixa stjórnar sveitinni. Hótel Borg er fánum prýdd. Á ljósmyndinni, sem birtist í bók Stefáns Jónssonar "Jóhannes á Borg" má þekkja Guðjón Teitsson, skrifs
Lúðrasveit Reykjavíkur leikur á sólbjörtum sumardegi á Austurvelli árið 1930. Doktor Franz Mixa stjórnar sveitinni. Hótel Borg er fánum prýdd. Á ljósmyndinni, sem birtist í bók Stefáns Jónssonar "Jóhannes á Borg" má þekkja Guðjón Teitsson, skrifs
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Segja má að allt frá þeim degi er Hótel Borg opnaði dyr sínar fyrir gestum hinn 18. janúar 1930 hafi hverfihurðin er sneri að Austurvelli - hringdyrnar, verið tákn nýrrar sveiflu, er hófst með starfsemi hótelsins. Pétur Pétursson rifjar upp eitt og annað úr sögu Borgarinnar.

"Í afdal hvín jazzinn, og æskunnar fegurð fær alþjóðlegt filmbros á vör." (Þýð. Magnús Ásgeirsson.)

Svo rótgróin og samhæfð lífi reykvískrar borgaraæsku var tilvist Borgarinnar, að ungur námsmaður í heimspekideild hjá prófessor Ágústi H. Bjarnasyni svaraði án tafar spurningu prófessorsins um það, hvað kæmi í hugann þegar nefnd hefðu verið tvö sögufræg hús, Alþingishúsið og Dómkirkjan. Jón Múli svaraði að bragði: Hótel Borg. Það mátti til sannsvegar færa. Allt frá fyrsta degi hafði Jóhannes gestgjafi lagt á það ríka áherslu að ráða til starfa kunna og hæfa hljómlistarmenn. Má nefna í flokki breskra hljóðfæraleikara Arthur Roseberry, sem enn í dag nýtur þeirrar virðingar í Bretlandi að hafa hlotið þann heiður, að sveit hans var valin sem dæmi um "Golden Age of British Dance Bands". Í þeim flokki sóma sér vel Arthur Roseberry and his Kit-Kat Dance Band. Auk þess að vera fjölhæfur píanóleikari, sem brá á glens og gaman í því skyni að skemmta gestum sem best, efndi Roseberry til furðulegustu uppátækja. Fræg voru miðvikudagskvöldin á Borginni. Þá efndi hljómsveitin til ærslafullra skemmtana er nefndust "Crazy nights". Var þá ekið um bæinn í vörubíl, sem skreyttur var í öllum regnbogans litum. Á palli bifreiðarinnar stóðu hljómlistarmenn Borgarinnar, klæddir litríkum trúðabúningum og léku af list og prýði. Í hljómleikasal, Gyllta salnum, lék Roseberry stundum þann leik að grípa fannhvítan dúk af borði í salnum, breiða yfir hljómborðið og spila hin vandasömustu verk. Vakti það fádæma hrifningu frumstæðrar þjóðar. Og varð dæmi til eftirbreytni, með þjóðlegri breytingu. Stoltur faðir verðandi tónskálds tilkynnti kunningja sínum með sigurbros á vör: Nú getur sonur minn spilað á píanó með belgvettlingum.

Það kom fyrir að Roseberry stóð við suðurinngang hótelsins og fóðraði reiðhest sinn á eplum. Hringekja hverfihurðarinnar á Hótel Borg hafði sveiflað Íslandi inn í nýja öld.

Breska skáldið W.H. Auden, sem hér dvaldist um skeið árið 1936 kvað:

"Í afdal hvín jazzinn, og æskunnar fegurð

fær alþjóðlegt filmbros á vör."

(Þýð. Magnús Ásgeirsson.)

Reykvíkingar fylgdust af áhuga með framvindu við smíði Hótel Borgar. H.f. Reykjavíkurannáll, sem ver revíuleikhópur ungra gamansamra manna, lögfræðinga, kaupsýslumanna, leikara, skálda og hljómlistarmanna, efndi til sýninga á "Lausum skrúfum", "Drammatisku þjóðfélagsæfintýri" í þrem þáttum. Þriðji þáttur fór fram í fordyrinu í "Hotel Mont Djossefson". Leikurinn gerist á Bitlinga- og Blandnámsöldinni. Það vakti mikla athygli að dóttir gestgjafahjónanna, Jóhannesar og frú Karólínu, ungrú Saga Jósefsson sýndi tvo dansa, Apache-dans og Charleston. Dansherra ungfrú Sögu var Guðni Þorsteinsson, en hann var tíður gestur í danssal Hótel Borgar og einn hinn fimasti í fjölmennum flokki góðra dansherra, sem stunduðu Borgina. Guðni var bróðir Sigríðar, ömmu Bergljótar Baldursdóttur dagskrárgerðarstarfsmanns Ríkisútvarpsins.

Í "Lausum skrúfum" er sungið um hótel það, sem nú reis af grunni við Austurvöll.

Vesturheimskingjakvartett syngur:

Hér er komið gistihús og hér er allt all-right,

hér um bil eins gott og in the West.

En hvar er Mr. Josephson og hvar er Stebbi guide?

Og hvernig er það með hann Friðrik prest? (Hallgrímsson)

Þá fær fulltrúi lögreglustjóra, Gústav A. Jónasson, síðar ráðuneytisstjóri, sinn skerf:

Með sorgmætt andlit sjálfur Gústav stóð,

og sektaði okkur - þetta gæðablóð.

Hann mátti til með það.

Með blýant og með blað

þeir skrifuðu okkur upp, svo hýr og góð.

Gústav var faðir Jónasar Gústavssonar borgarfógeta.

----

Meðal fastra gesta í veitingasölum hótelsins verða margir minnisstæðir. Sumir komu nær daglega. Settust þá við sín "föstu" borð. Meðal þeirra má nefna marga í lögfræðingastétt. Eru um það margar sögur. Umræðuefni voru dægurmál, deilur og málaferli, sagnfræði og stjórnmál, hljómlist og hvað annað, sem efst var á baugi. Það bar við að góðir félagar, löglærðir og sögufróðir sátu við borð og ræddu Brjánsbardaga. Einn í hópnum var opinber starfsmaður. Var hann að jafnaði ötull og afkastamikill, en hafði hneigst til drykkju um skeið og fengið tiltal hjá húsbændum vegna fjarveru frá störfum. Þeir félagar, sessunautar, þrættu um stund um tímasetningu bardagans mikla á Írlandi. Kom þar sögu að lögmaður sá er áminningu hafði fengið vegna fjarveru sleit umræðu með því að slá í borðið og segja: "Hvern andskotinn ætli ég viti um það hvenær Brjánsbardagi var. Ekki var ég þar." Sessunautur og félagi, einnig lögmaður, skaut þá föstu skoti og spurði: "Jæja. Var það kannske daginn, sem þú mættir í vinnuna?"

---

Einn umsvifamesti athafna- og fésýslumaður landsins, lögfræðingur og forstjóri, var tíður gestur á Borginni. Var að öllum jafnaði stilltur og prúður, en umhverfðist við vín. Var þá ódæll og erfiður viðureignar. Fór hamförum og lét illum látum. Eitt sinn gekk hann milli borða, greip túlipana úr blómsturvösum er stóðu á borðum og stýfði úr hnefa, sem væri það grænmeti eða ávextir. Einn af þjónum hótelsins hringir til læknis og greinir frá athæfi gestsins. Læknirinn svarar hinn rólegasti: "Allt í lagi með túlipanana. Hringdu þegar hann byrjar á kaktusunum."

Björn Bjarnason magister frá Steinnesi var tíður gestur á Hótel Borg um eitt skeið. Hann hafði dvalist í Oxford og stundað nám í Magdelene College þar sem Oscar Wilde var á sínum tíma. Kenndi ensku í Ríkisútvarpinu, þótti frábær kennari og undi því áliti vel. Bandaríkjamaður, Texasbúi, kemur aðvífandi þar sem Björn situr í sæti sínu við barborð. Klappar á öxl Björns og segir með grófgerðum framburði kúrekans: "Excuse me, sir. Do you speak english?" Björn svarar með Oxfordframburði sínum, að hætti sir John Gielgud: "Yes, of course, do you?"

Ásbjörn Ólafsson stórkaupmaður situr á góðum degi í hópi vina við sófaborð á Hótel Borg, þar sem gluggi snýr til vesturs. Hann sér aðsópsmikinn og hnarreistan mann skunda eftir gangstétt Pósthússtrætis Austurvallarmegin. Þykist kenna þar Ólaf Thors. Ásbjörn man þá að alllöngu áður hafði hann í vandræðum sínum leitað til Ólafs og fengið að láni 50 krónur. "Og síðan eru liðin mörg ár," hljómaði í huga Ásbjarnar. Þegar hér kom sögu var Ásbjörn talinn með auðugustu kaupsýslumönnum borgarinnar. Ólafur Thors hafði barist í brimgarði Kveldúlfs og bankaskuldum og varist spjótalögum fjandmanna, er sóttu að fyrirtæki hans og hugðust leggja í rúst. Var Ólafi brigslað um blankheit og fjárskort. Ásbjörn rís úr sæti sínu, greikkar spor á eftir Ólafi, sem hann taldi á leið til þingfundar. Rétt í þann mund, sem Ólafur nálgast tröppur Alþingishússins nær Ásbjörn að hlaupa Ólaf uppi. Þykist nú heppinn að geta lokið skuld sinni og seilist eftir veski í jakkavasa. Segir: "Gott að ég náði þér. Nú get ég borgað þér fimmtíukallinn."

Ólafur Thors svarar: "Blessaður, láttu ekki nokkurn mann sjá þetta. Menn gætu haldið að ég væri að slá þig."

Janus Halldórsson var einn hinn prúðasti í hópi veitingaþjóna, kurteis maður og fríður. Í augum Óla Maggadon (sem var einn þriggja Reykvíkinga, sem breska skáldið W.H. Auden taldi setja svip á Reykjavík) var Janus samnefnari allra þjóna, enda hétu þeir allir Janus í munni Óla.

Þegar Kristján níundi Danakonungur færði Íslendingum stjórnarskrá árið 1874, stjórnarskrá þá, sem hann réttir fram á Stjórnarráðsblettinum enn í dag, var fátækum börnum í Reykjavík leynt innandyra. Var sagt að konungi þætti miður að mæta tötralýð. Þjóðhátíðin 1874 fór að hluta fram í Öskjuhlíð. Þar í grennd reis síðar fátækrahverfi, Pólarnir. Þar kúldraðist fjöldi fólks í þröngum og köldum húsakynnum og bjó við kröpp kjör. "Pólverjar" reyndust þó margir hverjir meðal vöskustu drengja hvar sem þeir réðust til starfa.

Þegar Friðrik konungur níundi sat veislu stjórnvalda á Hótel Borg þótti gestgjöfum hótelsins Janus Halldórsson best til þess kjörinn að þjóna konungi og drottningu hans Ingiríði til borðs og bera þeim veitingar. Janus var alinn upp í Pólunum. Þaðan kom einnig varaþingmaður Bjarna Benediktssonar, Angantýr Guðjónsson. Á tímum umróts, verkfalla og átaka var oft viðkvæði Ólafs Thors: "Hafið engar áhyggjur af þessu. Við Angantýr reddum því."

Um þessar mundir berast fréttir frá Japan um að þar í landi hafi vísindamenn tekið kakkalakka í þjónustu vísindatilrauna. Er senditæki komið fyrir á baki þeirra og þeir látnir bera hljóðnema og afla með þeim hætti upplýsinga. Á Hótel Borg hefðu þeir notið sín vel. Sagan segir að dag nokkurn, árla morguns, hafi það gerst að herbergisþerna hafi kvatt dyra hjá Jóhannesi gestgjafa. Var henni mikið niðri fyrir. Meðal gesta hótelsins var sendiherra Sovétríkjanna: Það var áður en Rússar hófu húsakaup. Herbergisþernan biðst afsökunar á ónæði, en segir erindið brýnt. "Það var hræðilegt. Það voru kakkalakkar í hafragraut rússneska sendiherrans þegar ég færði honum morgunverðinn." Jóhannes yppti öxlum og sagði: "Hann má þakka fyrir að mýsnar voru ekki vaknaðar." Kakkalakkar voru víða í mjölgeymslum í brauðgerðarhúsum í nágrenni hótelsins.

Jóhannes kunni vel að meta trúnað starfsstúlknanna. Ein þeirra sagði í viðtali við Morgunblaðið að Jóhannes hefði þekkt fótatak hennar er hún kom hlaupandi fyrir hornið á Reykjavíkurapóteki. Af tuttugu starfsstúlkum voru sex í sérstöku uppáhaldi. Margt af starfsfólki Borgarinnar staðhæfir að frú Karólína Guðlaugsdóttir (sýslumanns Guðmundssonar, eiginkona Jóhannesar, amma Karólínu Lárusdóttur listmálara) hafi í raun stjórnað daglegum rekstri hótelsins.

Jóhannes Jósefsson ferðaðist um tveggja áratuga skeið með aflraunaflokk sinn til þess að sanna heimsbyggðinni, "að Íslendingar stæðu öðrum þjóðum framar í hverju því, sem að manndáð lýtur". Sem gestgjafi var hann lítt samkvæmur sjálfum sér að því er tók til hljóðfæraleikara. Við stofnum lýðveldis árið 1944, er fagna átti frelsi með veislu á Hótel Borg, setti ríkisstjórnin bráðabirgðalög vegna kjaradeilu hljóðfæraleikara og hótelsins. Jóhannes hafði látið spila á grammafón. Vildi hann ráða erlenda hljómlistarmenn, en því undu íslenskir ekki. Má því segja að lögmenn og dómarar hafi með margvíslegum hætti tengst Hótel Borg.

---

Í upphafi máls var rætt um kunnan breskan hljómlistarmann, Arthur Roseberry. Hann gat sér frægðarorð í Bretlandi er hann stjórnaði hljómsveit í frægum skemmtistað í Lundúnum, Kit-Kat-klúbbnum, sem svo var nefndur. Þar skráði hann frægð sína með þeim hætti að leika á hljómplötur sem út voru gefnar að tilhlutan breska útvarpsins, BBC. Skráningarnúmer má finna í plötulista stórfyrirtækjanna, sem kennd eru við EMI.

---

Hingað til lands kom Arthur Roseberry árið 1934. Hann er þá skráður á manntal á Amtmannsstíg 2, Ellen Sighvatsson býr ennþá á Amtmannsstíg. Hún er nafnkunn íþróttakona. Hafði um áratugaskeið forystu í samtökum íþrótta- og ferðafólks. Sigfús Sighvatsson, eiginmaður hennar rak vátryggingarfélag. Hann var af kunnri Reykjavíkurætt, sonur Sighvats bankastjóra Bjarnasonar. Arthur Roseberry og tveir aðrir breskir hljómlistarmenn, Thomas Alfred Draper fæddur 1909 í London og William John Pearce fæddur í London. Sjálfur var Rosenbery fæddur 25. september 1904 í Kensingtonhverfi í London. Þessir þrír Bretar fögnuðu því að fá leigt hjá þeim hjónum, svo nálægt vinnustaðnum. Þóroddur E. Jónsson heildsali bjó í sama húsi um þessar mundir.

Á prentaðri hljómleikaskrá sem Hótel Borg lét gestum sínum í té sunnudaginn 9. september 1934 kemur fram að tvær hljómsveitir skemmta hótelgestum þann dag. Ungversk hljómsveit sem var undir stjórn dr. D. Zakal, sem var kunnur tónlistarmaður, sem ferðaðist með sveit sinni um Evrópu. Hljómsveit hans leikur sígild lög frægra höfunda og ungversk þjóðlög.

Arthur Roseberry leikur eigin tónsmíðar. Kennir þar margra grasa svo sem sjá má þegar efnisskráin er skoðuð.

Meðan Arthur Roseberry dvaldist hér gaf hann út dægurlag sem hann hafði samið. Það var prentað í Fjelagsprentsmiðjunni, lag og ljóð hvorttveggja samið af honum.

Lady will you pardon me this liberty

I never took before,

Would you care to take a little tea with me

This afternoon at four.

Lady I would be as proud as any king

To share your company

Just to have the chance I'd give most anything,

It means so much to me.

Really you must excuse me I'm so in love with you.

Say that you won't refuse me.

Please make my dreams come true.

Lady you have taken my poor heart from me,

It's yours forever more.

Surely you will take a little tea with me

This afternoon at four.

Samkvæmt upplýsingum sem borist hafa frá Bretlandi lék hljómsveit Arthur Roseberrys á Dolphin Square Restaurant árið 1937, árið 1938 og allt fram til ársins 1939 mun hljómsveit hans hafa leikið á Paradise Club, en þeim skemmtistað mun hafa verið lokað einhverntíma á því ári. Síðan er ekki vitað um störf Arthurs.

Roseberry eignaðist hér marga kunningja og vini. Alexander Jóhannsson lóðaskrárritari man vel eftir honum. Svo mun um fleiri. Eru ekki einhverjir gamlir Borgargestir sem muna hljómleika hans á Borginni? Einhver þeirra kynni að eiga plötur með hljómsveit hans.

Jakob Magnússon hljómlistarmaður hefir haft góð orð um að útvega plötur Arthurs. Svo er einn sem ekki má gleyma. Magnús Magnússon, hinni kunni sjónvarpsmaður ætti að fara létt með það að útvega lög þau sem Arthur Roseberry & his Kit-Kats léku fyrir BBC í þáttaröðinni.

Þótt sjálfsagt sé að íslensk hljómlist sitji í fyrirrúmi á hátíð sem kennd er við Reykjavík á nýrri öld má segja að vel væri við hæfi að minnast frægrar hljómsveitar og stjórnanda hennar, sem heiðraði höfuðborgina með leik sínum, lögum og ljóðum.

Höfundur er þulur.