1. ágúst 2000 | Innlendar fréttir | 254 orð | 2 myndir

Syntu frá Viðey til Reykjavíkur

Þeir syntu Viðeyjarsund. F.v.: Fylkir Þ. Sævarsson, Kristinn Magnússon og Björn Ásgeir Guðmundsson.
Þeir syntu Viðeyjarsund. F.v.: Fylkir Þ. Sævarsson, Kristinn Magnússon og Björn Ásgeir Guðmundsson.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
ÞRÍR sundmenn, Kristinn Magnússon, Fylkir Þ. Sævarsson og Björn Ásgeir Guðmundsson, lögðust til sunds við bryggjuna í Viðey klukkan 16.25 síðastliðinn laugardag og þreyttu svokallað Viðeyjarsund inn til flotbryggjunnar við Ægisgarð.
ÞRÍR sundmenn, Kristinn Magnússon, Fylkir Þ. Sævarsson og Björn Ásgeir Guðmundsson, lögðust til sunds við bryggjuna í Viðey klukkan 16.25 síðastliðinn laugardag og þreyttu svokallað Viðeyjarsund inn til flotbryggjunnar við Ægisgarð. Mestalla leiðina, sem er á milli 2,7-2,8 kílómetrar, syntu þeir skriðsund.

Kristinn er sjúkraþjálfari að mennt og fyrrverandi landsliðsmaður í sundi. Fylkir kom alla leið frá Danmörku til að þreyta sundið en hann er í námi í rafmagnsiðnfræði í Sönderborg. Björn er yfirmatreiðslumaður hjá Radisson SAS Hótel Íslandi. Það var norðvestan gjóla og talsverður sjór þegar sundið hófst og sögðu sundmennirnir að fyrsti áfanginn hefði reynst erfiðastur vegna sjógangs. Sautján menn höfðu þreytt Viðeyjarsund frá upphafi vega áður en þremenningarnir bættust í hópinn og hafa því nú 20 manns, svo vitað sé, unnið þetta afrek. Kristinn hefur reyndar áður synt Viðeyjarsund árið 1998 og sama ár þreytti hann jafnframt Drangeyjarsund. Björn hefur áður þreytt Bessastaðasund, þ.e. frá Ægissíðu að Bessastöðum.

Björgunarsveitarmenn fylgdu sundgörpunum eftir á tveimur björgunarbátum alla leiðina og sáu um að gefa þeim næringu á sundi.

Sundmennirnir komu í land um kl. 17.30 og höfðu þá verið á sundi í tæpar tvær klukkustundir í um 12 gráðu heitum sjónum. Að sundi loknu sagði Fylkir að fyrsti áfanginn hefði verið erfiður vegna brims en sjólagið hefði skánað strax þegar þeir komu inn fyrir Laugarnesið. "Það var ekki kuldinn sem var að kvelja okkur heldur öldurnar."

Þeir félagar sögðu að mikil viðbrigði hefði verið að synda úr opnu hafinu inn í Reykjavíkurhöfn. Það hefði verið eins og að lenda inni í hitavegg.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.