10. ágúst 2000 | Innlendar fréttir | 218 orð | 1 mynd

Jarðskjálfti á Reykjaneshrygg

JARÐSKJÁLFTI, sem mældist 5 stig á Richter, varð í fyrradag klukkan 15:57 á Reykjaneshrygg, um 250 km suðvestur af Íslandi. Fjórir eftirskjálftar hafa fylgt í kjölfarið, flestir um 3 stig á Richter.
JARÐSKJÁLFTI, sem mældist 5 stig á Richter, varð í fyrradag klukkan 15:57 á Reykjaneshrygg, um 250 km suðvestur af Íslandi. Fjórir eftirskjálftar hafa fylgt í kjölfarið, flestir um 3 stig á Richter.

Jarðskjálftar eru nokkuð algengir á þessu svæði en sá sem varð í fyrradag var þó í stærra lagi. Hann fannst m.a. á mælum á Íslandi og Bretlandi.

Ragnar Stefánsson, jarðeðlisfræðingur hjá Veðurstofunni, segir að sjómenn gætu hafa orðið skjálftans varir. Jarðskjálftabylgjur berist þó illa í sjó og því þurfi skip að vera mjög nálægt upptökum jarðskjálfta til að menn finni fyrir þeim. Þá sé eins og skipið verði fyrir höggi.

Ragnar segir mögulegt að skjálftavirkninni hafi fylgt lítið neðansjávareldgos, en mælar Veðurstofunnar sýna þó enga eldvirkni á þessu svæði. Hann segir samt sem áður ástæðu til að láta sjófarendur vita af þessum jarðhræringum ef ske kynni að gosið hafi neðansjávar. Sjómenn verða helst varir við neðansjávareldgos ef þeir draga veiðarfæri yfir gosstöðvar. Hér við land hafa háhitasvæði neðansjávar einmitt uppgvötast þegar net eða flotholt hafa bráðnað við að vera dregin yfir jarðhitasvæðin.

Jarðskjálftar á Reykjaneshryggnum koma yfirleitt í hrinum en Ragnar segir þó ekkert benda til þess að skjálftavirkni fari vaxandi á þessum slóðum. Það sé með öllu óvíst að skjálftarnir á Reykjaneshrygg tengist Suðurlandsskjálftunum í júní.

Jarðskjálftar hafa mælst að 7 stigum á Richter á hafsbotninum umhverfis Ísland.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.