Reynir Harðarson
Reynir Harðarson
Kristnin deyr ekki, segir Reynir Harðarson, þótt skorið verði á naflastreng kirkjunnar.
KALDAR voru kveðjur Sigurbjörns Einarssonar biskups á miðopnu Morgunblaðsins 28. júlí í garð þeirra sem voguðu sér að fetta fingur út í kristnihátíð ríkis og kirkju. Þessi hrakyrði komu mjög á óvart þar sem maður bjóst frekar við að sá mæti maður ætlaði að draga úr og milda afar ósmekklega og ómaklega samlíkingu sína. En biskup fullyrðir þess í stað að hann hafi vitað hvað hann var að segja þegar hann líkti orðum gagnrýnenda við sumt af því "allra versta sem verstu nasistar og kommúnistar höfðu fram að færa". Siðanefnd presta hafði þó slegið létt á fingur honum og bent á að óheppilegt væri að setja alla gagnrýnendur undir sama hatt.

Átti þá einhver þessi orð skilin? Mættum við fá að vita hverjir voru svo ógeðfelldir að líkja megi þeim við verstu fanta og fúlmenni tuttugustu aldar? Og hvað sögðu þeir eiginlega sem réttlætir þessi orð? Kannski Hjálmar Jónsson, alþingismaður og fyrrverandi prestur, geti frætt okkur um það úr því að hann sér ekkert athugavert við orðavalið. Annars má efast um dómgreind hans í þessu máli því siðanefnd prestafélagsins til háðungar segir Hjálmar að eflaust hefði hún veitt Marteini Lúther alvarlega áminningu væri hann uppi í dag. Ætli okkur hinum þætti ekki full ástæða til ef Lúther heimtaði nú, líkt og á sínum tíma, að bænahús annars trúfélags yrðu lögð í rúst?

Ég kannast bara ekki við að hafa séð þann "munnsöfnuð í garð kristninnar" sem biskup vitnar sífellt í. En honum verður það ef til vill á að telja kirkju og kristni eitt og hið sama, líkt og kirkjunnar menn vilja telja kirkju og þjóð eitt og hið sama. Hvort tveggja er blekking og engum er hollt að lifa í blekkingu. Sigurbirni þarf heldur ekki að sárna þótt menn kalli þjóðkirkjuna ríkiskirkju og óþarfi að segja menn "lepja spýju upp í munninn á sér" þótt þeir taki sér það orð í munn. Ríkiskirkja er kannski nær sanni en orðið "þjóðkirkja" því það er ríkið sem heldur kirkjunni uppi, ekki þjóðin. Hvergi varð það augljósara en á Þingvöllum í júlíbyrjun.

Ég finn virkilega til með Sigurbirni og lái honum ekki þótt honum hafi sárnað að sjá þann dóm sem kveðinn var upp yfir þjóðkirkjunni með svo afdráttarlausum hætti á helgasta stað þjóðarinnar. Það hlaut að vera sárt, fámennið var svo neyðarlegt. Óumflýjanlegt framhald þessa dóms er aðskilnaður ríkis og kirkju, hvort sem hann tekur lengri eða skemmri tíma. Mönnum mátti reyndar vera löngu ljóst hvert stefndi því skoðanakannanir hafa allar sýnt að meirihluti þjóðarinnar vill aðskilnað, allt að þrír af hverjum fjórum sem taka afstöðu. En biskup getur huggað sig við að kristnin deyr ekki þótt skorið verði á naflastreng kirkjunnar.

Grautargerð

En þótt Sigurbjörn sé reiður og sár fæ ég ekki betur séð en að hann gerist sekur um það sem hann grætur sárast undan; að "umsnúa staðreyndum, uppnefna og afskræma". Samkvæmt söguskilningi hans voru fyrstu landnemarnir kristnir papar þótt engar minjar finnist hér um þá. En þó svo að einhverjir þeirra hefðu villst hingað ættu þeir varla fleiri afkomendur en Þorlákur helgi og áhrif þeirra eru engin. En í ljósi vafasamra sagna af pöpum vill hann eigna kristnum "óðalsrétt hér öðrum framar". Öðrum framar!

Undarleg er þessi árátta að vilja setja sig öðrum ofar og framar. Er það ekki andstætt kjarna kristninnar? Þeir fyrstu verða síðastir og hógværir munu jörðina erfa, eða hvað? Sigurbjörn fullyrðir svo að papar hafi hrakist héðan undan heiðingjum. Af hverju frekar heiðingjum en kristnum? Heiðingjar lögðu ekki í vana sinn að útskúfa mönnum annarrar trúar, sá siður dafnaði hins vegar sérlega vel í kristni. Aumasta röksemd biskupsins er að skilgreina forna heiðni sem útlendan sið þar sem forfeður okkar báru hana með sér að utan þegar þeir námu hér land. Menn sem grípa til svona hundalógíkur ættu ekki að hafa hátt um sagnfræðilega grautargerð annarra.

Vil ég þá víkja að eftirfarandi setningu Sigurbjörns: "Nasisminn hafði merki "ásatrúar" við hún og þóttist sækja þangað óra sína um yfirburði hins "kynhreina aría"." Þótt hakakrossinn sé fornt galdratákn er hann ekkert frekar tengdur ásatrúnni en latneska stafrófið kristninni. Sigurbjörn veit eflaust að nasistar og kristin kirkja gerðu með sér samning sem fólst meðal annars í því að kirkjan liti fram hjá helförinni. En ekki skal ég fullyrða hvað kirkjan fékk fyrir það viðvik. Nasistar leituðu líka frekar í smiðju Lúthers vegna gyðingavandans en í arf heiðninnar.

Mér finnst jafnframt ósmekklegt að gefa í skyn að í heiðnum sið sé styttra í kynþáttafordóma en í kristni. Kynþáttahatur felst ekki í kjarna neinna trúarbragða svo ég viti. Það er helst að hvíti maðurinn telji sig öðrum fremri og flestir hvítir menn eiga að heita kristnir. Skálkaskjól Ku Klux Klan í Bandaríkjunum er til að mynda hvít hetta og brennandi kross, tákn yfirburða hvítra og kristinna.

Óhræddur heldur Sigubjörn því svo fram að hatrammar, heiðnar trúaröfgar hafi leikið mannkynið verr en allar aðrar andlegar sóttir sögunnar. Ég leyfi mér að efast um að kristnar trúaröfgar séu eitthvað skárri. Þarf að minna á Stóradóm, rannsóknarréttinn, galdrabrennur, krossferðir, útreið indíána í S-Ameríku, ótal trúarbragðastyrjaldir og fleira í þeim dúr, svo ekki sé minnst á almenna skoðanakúgun kristinnar kirkju og afturhald? Það eru trúaröfgarnar sjálfar sem eru hættulegar, ekki formerki þeirra.

Kóngar og þrælar

Sigurbjörn vitnar í bænavísu Kolbeins Tumasonar frá þrettándu öld á þessa leið: "Þú ert Drottinn minn, komi mjúk til mín miskunnin þín". En tilvitnunin er ekki alveg rétt því fyrsta erindinu lýkur svo: "ek em þrællinn þinn, þú ert dróttinn minn." Sigurbjörn getur þess ekki að Kolbeinn og Guðmundur Arason biskup áttu í hatrammri deilu, jafnvel þótt kona Kolbeins og biskup væru bræðrabörn. Og þótt Kolbeinn bæði sér miskunnar af drottni í vísunni var hann sjálfur óvæginn og fékkst meðal annars við að drepa andstæðinga sína þegar þeir hlupu út úr brennandi híbýlum sínum. Biskup hikaði ekki heldur við að siga skósveinum sínum á andskota sína og bannfærði Kolbein. Bannsettir menn voru útilokaðir, lífs og liðnir, frá samneyti við kristið fólk og eignir þeirra féllu hálfar undir kirkjuna. Deilum þessara sómamanna um völd og auð lauk nærri Hólum í Hjaltadal árið 1208 með því að liðum þeirra laust saman. Kolbeinn fékk steinshögg í ennið og var það banasár. "Tókst þar meir að guðsfyrirætlan en að líkindum fyrir liðsfjölda sakir," eins og segir í Sturlungu. En blóðug átök Sturlungaaldar má öll rekja til valdabaráttu höfðingja í skjóli kirkjuvalds og laga. Þeirri hörmung lauk svo með missi sjálfstæðisins í hendur Noregskonungs árið 1262.

Sigurbjörn vill reyndar meina að árið þúsund hafi mönnum verið ljóst að konungdómur Krists hlyti að verða viðurkenndur hér á landi sem annars staðar innan tíðar. Þarna segir orðaval Kolbeins og Sigurbjörns mikla sögu. Konungdómur og þrælsótti tók við af sjálfstæði og dug þjóðveldisins, áþján og fátækt varð hlutskipti fjöldans, niðurlæging. Þegar kirkjunni óx ásmegin í skjóli skattalaga vildu yfirmenn hennar drottna yfir fólki í stóru og smáu. Þeir boðuðu óspart auðmýkt og undirgefni almúgans annars vegar og yfirburði og vald hinnar heilögu kirkju hins vegar.

Úr því að Sigurbjörn vitnaði í Sigurð Nordal get ég vitnað í orð Einars Ólafs Sveinssonar (Sturlungaöldin, bls. 34) um árekstur kirkjunnar manna við íslenskar hugsjónir um stórmennsku: "Sá árekstur var eðlisnauðsyn, svo fjarskyldur var andi kirkjunnar. Sjálfur kjarninn, stórmennskuhugsjónin, sjálfsvirðingin, hlaut að vera kirkjunni viðurstyggð og háski ... Kirkjan hlaut því að reyna að mola það sundur, sem var kjarninn í lífskoðun hinna forníslensku þjóðveldismanna. Verk hennar varð harmleikur."

Þegar kirkjunnar mönnum hafði tekist að sölsa undir sig bæði auð og jarðir sló svo í brýnu milli þeirra og veraldlegra valdhafa. Með hjálp Lúthers gyðingahatara tókst furstum og kóngum að ná þessum verðmætum úr klóm páfagarðs í sínar eigin. Þetta tókst ekki alveg átakalaust hér á landi því gera þurfti Jón Arason biskup og syni hans höfðinu styttri í Skálholti árið 1550, án dóms og laga, til að tryggja valdatilfærsluna frá kirkju og páfa til kirkju og kóngs.

Enn eimir eftir af þessu valdabandalagi á Íslandi því enn eru kirkjunnar menn að blessa og lofsyngja ríkisvaldið. Í staðinn veitir það tveimur til þremur þúsundum milljóna króna á ári til kirkjunnar (og allt að tvö þúsund milljónum að auki í tilefni kristnihátíðar, þegar allt er talið). Hver fjögurra manna fjölskylda borgar því 30-40 þúsund á ári í þessa hít og 30 þúsund að auki í hátíðarskatt. Já, vei þeim manni sem telur slíka smámuni eftir sér.

Um heilsufar

Þótt ég hafi ekki drepið nema á örfá atriði í þessari grein minni ber þau öll að sama brunni. Saga kirkjunnar er ófögur bæði hér á landi og erlendis, hvort sem litið er til fortíðar eða nútíðar. Samtrygging veraldlegs valds og geistlegs er í hæsta máta óeðlileg og peningar og völd eru rótin að allri bölvun kirkjunnar, það er ég sannfærður um. Ég fordæmi kirkjuna og öll hennar voðaverk í gegnum aldirnar og ég hneykslast á auðsöfnun hennar, peningasóun og kirkjubyggingum. Sárast er þó að nauðugur greiði ég tildur hennar og tál með skattpeningum mínum. Það er mínum skilningi ofvaxið að nokkur maður geti talið þessa stofnun heilaga.

Ef biskupi þykir óheilbrigt að hafa þessa skoðun og viðra hana verður að hafa það. En hvað sem því líður vil ég leyfa mér að óska kristnum mönnum til hamingju með árin þúsund en benda jafnframt á að það ætti að vera markverðara að nú teljast 2000 ár frá fæðingu frelsara þeirra. Þótt kirkjan sé upptekin af sjálfri sér er það von mín að kristnir menn, hvar í trúflokki sem þeir standa, beini nú sjónum sínum frekar að kristninni. Það má mikið læra af Kristi Biblíunnar og ekki er sá lærdómurinn minnstur sem draga má af umfjöllun hennar um faríseana.

Í lok greinar sinnar spyr Sigurbjörn hvað verði í minnum haft um kristnihátíð. Ég vænti að hennar verði minnst sem Stóradóms almennings yfir samkrulli ríkis og kirkju. Við hristum Danakonung af okkur á Þingvöllum árið 1944 og í sumar varð messufall hjá öllum prelátum landsins á sama stað. Íslendingar ganga frjálsir inn í nýja öld og hirða nú hvorki um kóng né prest.

Höfundur er þýðandi.