Stjórn Pharmaco kynnir fyrirhugaðan samruna við Balkanpharma.
Stjórn Pharmaco kynnir fyrirhugaðan samruna við Balkanpharma.
STJÓRN Pharmaco hefur ákveðið að boða til hluthafafundar 28.

STJÓRN Pharmaco hefur ákveðið að boða til hluthafafundar 28. ágúst næstkomandi og mun þá leggja til við hluthafa að hlutafé verði aukið úr 156,4 milljónum í 387,1 milljón en hlutafjáraukningin verður notuð til þess að að kaupa upp hluti annarra hluthafa í Balkanpharma Holding. Í reynd er um samruna Pharmaco og Balkanpharma að ræða þar sem hluthafar Pharmaco eignast 40,4% í hinu sameinaða félagi en aðrir hluthafar Balkanpharma 59,6%.

Velta hins sameinaða fyrirtækis mun verða í kringum tólf milljarðar króna íslenskra á ári og gert er ráð fyrir að hagnaður félagsins verði nálægt einum milljarði á árinu. Starfsmenn verða alls um 4.330 og þar af um 130 starfsmenn á Íslandi. Fyrirtækið verður skráð á Íslandi og yfirstjórn fyrirtækisins verður hér. Stærstu hluthafar í hinu sameinaða félagi ásamt með núverandi hluthöfum Pharmaco verða Deutsche Bank með um 16% hlut og fjárfestingarfélagið Amber með um 30% hlut en aðrir hluthafar með minna.

Eigendur Balkanpharma voru Deutsche Bank sem átti 45%, Icorn-sjóðurinn með 45% hlut en sjóðurinn er í eigu Pharmaco, Amber og feðganna Björgólfs Thors Björgúlfssonar og Björgólfs Guðmundssonar, en afganginn, 10%, áttu Búlgararnir Peter Terziev og Gueorg Tzvetansky. Pharmaco fjárfesti í Balkanpharma um mitt síðasta ár en þá var verið að einkavæða þrjár ríkisverksmiðjur í lyfjaiðnaði í Bulgaríu.

Áætluð velta Balkanpharma á þessu ári er um hundrað milljónir dala eða um átta milljarðar íslenskra króna og áætlaður hagnaður um 800 milljónir króna.

Mikil áhætta í upphafi

Sindri Sindrason, framkvæmdastjóra Pharmaco, segir að þegar lagt hafi verið af stað með fjárfestingu í lyfjaiðnaði í Búlgaríu hafi verið um mikla áhættu að ræða. Balkanpharma hafi átt kauprétt á þremur lyfjaverksmiðjum sem verið var að einkavæða. Menn hafi verið að taka við ríkisreknum verksmiðjum með öllum þeim vandamálum sem því fylgir og enda þótt menn hafi haft ákveðnar hugmyndir um möguleika í rekstrinum hafi engin tryggging verið fyrir því að þær myndu ganga upp.

Nú sé staðan hins vegar allt önnur, dæmið sé orðið að raunveruleika, búið sé að sameina verksmiðjurnar undir einum hatti. Vitaskuld hafi menn rekið sig á og ekki allt gengið eftir en engu að síður hafi reksturinn í heild gengið mjög vel. Menn þekki orðið reksturinn vel og ekki sé hægt að segja að vandamál sem upp komi þurfi að koma á óvart og menn viti sömuleiðis hvaða möguleikar séu fyrir hendi.

Að sögn Sindra líta stjórnendur Paharmaco ekki lengur á þetta sem áhættufjárfestingu heldur sem vænlegan kost enda hafi Balkanpharma mikla vaxtarmöguleika því geysilegur vöxtur sé fyrirsjáanlegur á því svæði sem fyrirtækið starfar. Efnahagsástand hafi verið stöðugt frá árinu 1997. Búið sé að setja á stofn nýjar söluskriftsofur og fækka starfsfólki úr sex þúsund í 4.200 án þess það hafi komið niður á framleiðslunni og auk þess hafi menn náð fram samlegðaráhrifum. Því sé heldur ekki að leyna að framleiðslukostnaður í Búlgaríu sé lágur þannig að stjórn Pharmaco líti svo á að um mjög hagstæða fjárfestingu sé að ræða.