Sigurbjörn Sveinsson (lengst til hægri) afhenti Birni Bjarnasyni menntamálaráðherra (í miðið) og Geir H. Haarde fjármálaráðherra gjafagerning Læknafélags Íslands.
Sigurbjörn Sveinsson (lengst til hægri) afhenti Birni Bjarnasyni menntamálaráðherra (í miðið) og Geir H. Haarde fjármálaráðherra gjafagerning Læknafélags Íslands.
LÆKNAFÉLAG Íslands hefur afhent ríkissjóði fyrir hönd Nesstofusafns fasteignina Bygggarða 7 á Seltjarnarnesi auk 10,6 milljóna króna en húsnæðið var keypt fyrir erfðafé Jóns Steffensens sem í áratugi var prófessor í líffærafræði við læknadeild Háskóla...
LÆKNAFÉLAG Íslands hefur afhent ríkissjóði fyrir hönd Nesstofusafns fasteignina Bygggarða 7 á Seltjarnarnesi auk 10,6 milljóna króna en húsnæðið var keypt fyrir erfðafé Jóns Steffensens sem í áratugi var prófessor í líffærafræði við læknadeild Háskóla Íslands. Er fjárframlagið einnig erfðagjöf Jóns. Kveðið er á um að fasteignina skuli nota fyrir starfsemi og varðveislu muna lækningaminjasafns Nesstofu og fjármunina skal nota til að endurbæta fasteignina í samræmi við áætlað framtíðarskipulag safnsins.

Jón Steffensen arfleiddi Læknafélag Íslands að tilteknum eignum sínum og var gjöfin bundin því skilyrði að fénu skyldi varið óskiptu til frágangs og innréttingar á framtíðarhúsnæði fyrir muni Nesstofusafnsins í þeim útihúsum Nesstofu sem ríkið hafði keypt í þeim tilgangi. Skyldi eignunum að öðru leyti varið til hagsbóta fyrir Nesstofusafn eftir viðhorfum sem fram komu í bréfi Jóns til menntamálaráðherra árið 1972.

Bætir úr bráðri þörf

Sigurbjörn Sveinsson, formaður Læknafélags Íslands, minntist Jóns Steffensens og rakti aðdraganda málsins. Skrifaði hann síðan undir gjafagerning ásamt Birni Bjarnasyni menntamálaráðherra og Geir H. Haarde fjármálaráðherra. Í ræðu sinni við afhendinguna sem fram fór í Nesstofu sagði Sigurbjörn að eftir ítarlegt samráð fyrir Félag áhugamanna um sögu læknisfræðinnar, Þjóðminjasafn og menntamálaráðuneytið hafi það orðið niðurstaðan að kaupa húseignina við Bygggarða. Það myndi bæta úr bráðri þörf lækningaminjasafnsins fyrir viðunandi geymsluhúsnæði, starfsaðstöðu og að nokkru leyti sýningaraðstöðu. Sigurbjörn sagði menn gera sér grein fyrir að hér væri ekki verið að leysa húsnæðismál lækningaminjasafnsins til frambúðar. "Við ríkjandi aðstæður er þetta skref hins vegar óhjákvæmilegt. Það er mín skoðun að draumurinn um veglegt og sæmandi lækningaminjasafn í Nesi við Seltjörn verði að veruleika í fyllingu tímans og verði ævintýri komandi kynslóðum til andlegrar næringar," sagði Sigurbjörn undir lok ræðu sinnar.

Læknafélagið bætir við tveimur milljónum

Læknafélag Íslands keypti fasteignina Bygggarða 7 á 33 milljónir króna og eru eftirstöðvar erfðafjárins 10,6 milljónir króna. Læknafélag Íslands bætir nú við tveimur milljónum króna við þá fjárhæð en á aðalfundum félagsins hefur verið rætt um málefni Nesstofusafnsins og komið fram vilji félagsmanna í ályktunum um að félagið legði fram skerf til byggingar lækningaminjasafns.

Nauðsynlegt þykir að endurbæta fasteignina Bygggarða 7 til að hún fullnægi því hlutverki sem henni sé ætlað. Áætlaður kostnaður við að koma fasteigninni í viðunandi ástand er 15 milljónir króna og að 10 milljónir til viðbótar kosti að koma upp sýningaraðstöðu, vinnuaðstöðu safnvarðar og aðstöðu til fræðiiðkunar. Í gjafagerningnum er kveðið á um að endurbæturnar hefjist þegar í haust.

Björn Bjarnason menntamálaráðherra þakkaði Læknafélaginu fyrir framtak sitt í málinu og vottaði minningu Jóns Steffensens virðingu sína. Hann minnti á samkeppni um nýtt hús fyrir læknaminjasafn á Seltjarnarnesi sem haldin var fyrir tveimur árum en sagði ekki unnt á næstunni að ráðast í byggingu þess vegna annarra verkefna. Sagði hann hins vegar hvergi nærri horfið frá þeim hugmyndum. Taldi hann kaupin á Bygggörðum 7 skynsamlega ráðstöfun og sagði hann ríkisstjórnina hafa samþykkt 11. júlí að leggja til fjármagn til að ljúka framkvæmdum við húsnæðið.

Ráðherra afhenti síðan Margréti Hallgrímsdóttur gjafagerninginn en Þjóðminjasafnið fer með forræði safnsins fyrir hönd menntamálaráðuneytis. Er safnið deild í Þjóðminjasafninu og deildarstjóri hennar er Kristinn Magnússon.

Endurbótum ljúki sem fyrst

Margrét Hallgrímsdóttir sagði marga starfsmenn Þjóðminjasafnins þakkláta fyrir að hafa kynnst Jóni Steffensen sem aðstoðað hefði á ýmsa lund við margs konar rannsóknir. Hann hefði starfað daglega að málefnum safnsins eftir að starfi hans hjá læknadeildinni lauk. Margrét sagði þjóðminjaráð hafa samþykkt ályktun í fyrradag þar sem segir meðal annars: "Með þessu hefur verið stigið mikilvægt skref í að tryggja varðveislu muna Nesstofusafns en ástand núverandi geymsluhúsnæðis og starfsaðstöðu þess er mjög bágborið og nýja húsnæðið því afar kærkomið. Þjóðminjaráð fagnar því að Nesstofa fái hér að gjöf húsnæðið að Bygggörðum 7 sem nýtast mun sem geymsluhúsnæði og starfsaðstaða fyrir Nesstofusafn. Þjóðminjaráð mun beita sér fyrir því að unnt verði að ljúka endurbótum á húsnæðinu sem fyrst.

Halldór Baldursson læknir er formaður Félags áhugamanna um sögu læknisfræðinnar. Hann sagði Jón Steffensen hafa haft forgöngu um stofnun félagsins og verið fyrsti formaður þess. Hann sagði lækna og forráðamenn sjúkrahúsa vera vakandi fyrir því að senda safninu muni sem hefðu sögulegt gildi.