2. september 1990 | Forsíða | 500 orð

Geir Hallgrímsson látinn Geir Hallgrímsson, fyrrum forsætisráðherra, lézt um

Geir Hallgrímsson látinn Geir Hallgrímsson, fyrrum forsætisráðherra, lézt um hálfþrjúleytið aðfaranótt laugardags, sextíu og fjögurra ára að aldri. Hann hafði síðustu misseri kennt þess meins, sem varð honum að bana. Geir lézt í Landakotsspítala.

Geir Hallgrímsson látinn Geir Hallgrímsson, fyrrum forsætisráðherra, lézt um hálfþrjúleytið aðfaranótt laugardags, sextíu og fjögurra ára að aldri. Hann hafði síðustu misseri kennt þess meins, sem varð honum að bana. Geir lézt í Landakotsspítala.

Geir Hallgrímsson var um langt skeið borgarstjóri í Reykjavík og naut óvenjulegra vinsælda í því starfi, síðar varð hann formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra, en gegndi einnig utanríkisráðherrastörfum, en var Seðlabankastjóri þegar hann lézt. Auk þess gegndi hann margvíslegum störfum öðrum í þágu lands og þjóðar og flokks síns og var m.a. um skeið formaður stjórnar Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins, en við því starfi tók hann 1969.

Á engan er hallað, þótt fullyrt sé, að Geir Hallgrímsson hafi notið meira trausts sem forystumaður í stjórnmálum en aðrir sem honum voru samtíma eftir að hann tók við stjórn og stefnumörkun stærsta flokks þjóðarinnar, en fékk þó að sjálfsögðu ágjafir eins og aðrir á þeim vettvangi. Enginn efaðist þó um heilindi hans, heiðarleika og festu, sem voru með þeim hætti að sérstakt orð fór af. Áhrif Geirs Hallgrímssonar voru því mikil og störf hans farsæl.

Geir Hallgrímsson lætur eftir sig konu, Ernu Finnsdóttur, og börn þeirra fjögur lifa öll föður sinn. Morgunblaðið sendir þeim og fjölskyldum þeirra innilegar samúðarkveðjur og þakkar langt og einstakt samstarf á undanförnum árum.

Geir hafði á hendi leiðsögn og stefnumörkun í stjórn Árvakurs og slík tengsl við stjórnendur blaðsins, ekki sízt framkvæmdastjóra og ritstjóra, að sérstök ástæða er til að þakka það samstarf. Geirs er sárt saknað í hópi Morgunblaðsmanna, ekki síður en annarra landsmanna og harma þeir mjög fráfall hans á bezta aldri.

Þegar Geir lét af stjórnarstörfum í Árvakri, tók Hallgrímur sonur hans við stjórnarforystu þar og heldur uppi merki föður síns og annarra stjórnenda blaðsins um frjálslynt og rúmgott blað, sem á erindi við alla landsmenn. Þó að Geir Hallgrímsson væri mikill og einarður sjálfstæðismaður lagði hann mikla áherzlu á pólitíska víðsýni blaðsins og var ritstjórum þess ávallt sterkur bakhjarl í þeim efnum.

Geir Hallgrímsson fæddist í Reykjavík 16. desember 1925, sonur hjónanna Hallgríms Benediktssonar, stórkaupmanns og alþingismanns, og konu hans, Áslaugar Geirsdóttur Zo¨ega. Hann lauk stúdentsprófi frá MR 1944 og varð lögfræðingur frá HÍ 1948. Nam síðan lögfræði og hagfræði við Harvard-háskóla vestur í Bandaríkjunum til 1949, en stundaði lögfræðistörf hér heima næstu ár, auk þess sem hann var forstjóri H. Benediktssonar hf. 1955-59. Þá varð hann borgarstjóri íReykjavík og gegndi því starfi til 1972, en 1974 varð hann forsætisráðherra og gegndi því næstu fjögur árin í samsteypustjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Geir hafði þá tekið mikinn þátt í stjórnmálum, var t.a.m. formaður Stúdentaráðs fyrir Vöku á háskólaárum sínum, síðan formaður Heimdallar og loks Sambands ungra sjálfstæðismanna á árunum fyrir Viðreisn. Hann tók sæti á Alþingi, þegar Bjarni Benediktsson lézt 1970. Hann var kjörinn varaformaður Sjálfstæðisflokksins á landsfundi 1971 en tók við formennsku flokksins 1973 af Jóhanni Hafstein og gegndi því starfi til 1983, en hætti stjórnmálaafskiptum í ársbyrjun 1986. Þá tók hann við starfi Seðlabankastjóra og gegndi því, þegar hann veiktist í fyrra.

Geir Hallgrímsson

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.