25. ágúst 2000 | Minningargreinar | 3229 orð | 1 mynd

Íris Björnsdóttir

Íris Björnsdóttir fæddist í Reykjavík 10. mars 1937. Hún lést á heimili sínu föstudaginn 18. ágúst síðastliðinn.

Foreldrar hennar voru Einar Björn Vigfússon, f. 19.2. 1902, d. 29.04.1985, og Áslaug Sigurðardóttir, f. 27.12, 1908, d. 25.1. 1991. Systkini Írisar eru: 1) Elsa Björnsdóttir, f. 23.7. 1933, d. 7.7. 1974. Maki 1: Sveinn Jónsson, f. 13.2. 1929. Þau skildu. Maki 2: Charles Kiesel, f. 22.11. 1930. Þau skildu. Maki 3: Guðmundur Pétursson, f. 16.4. 1910, d. 5.11. 1978. 2) Anna Björnsdóttir, f. 6.2. 1936. Maki Leif Johannssen, f. 8.6. 1934. 3) Uppeldissystir, Áslaug Pétursdóttir, f. 30.3. 1953. 4) Samfeðra Ægir Einarsson, f. 13.8. 1928.

Íris giftist eftirlifandi eiginmanni sínum Tómasi Sæmundssyni 27.12.1958 á 50 ára afmælisdegi Áslaugar móður hennar. Foreldrar Tómasar voru Sæmundur Þorláksson, f. 15.9. 1903, d. 14.12. 1985, og Magnea Svava Jónsdóttir, f. 22.11. 1910, d. 20.7. 1965.

Börn og barnabörn Írisar og Tómasar: 1) Svavar Sæmundur Tómasson, f. 5.6. 1959, kvæntur Rannveigu Raymondsdóttur, f. 1.2. 1958. Börn þeirra eru Anna Hlíf Hreggviðsdóttir, f. 10.8. 1981, Tómas Örn Svavarsson, f. 18.2. 1987 og Áslaug Svava Svavarsdóttir, f. 4.4. 1989. 2) Magnús Örn Tómasson, f. 16.7. 1966. Fyrrverandi sambýliskona hans er Anna Rakel Sigurðardóttir, f. 17.2. 1967. Barn þeirra er Íris Mist Magnúsdóttir, f. 2.1. 1987. 3) Einar Björn Tómasson, f. 1.5. 1970.

Síðustu árin var Íris heimavinnandi húsmóðir.

Útför Írisar fer fram frá Bústaðakirkju í Reykjavík í dag og hefst athöfnin klukkan 13.30.

Hver minning dýrmæt perla að liðnum lífsins degi, hin ljúfu og góðu kynni af alhug þakka hér. Þinn kærleikur í verki var gjöf sem gleymist eigi, og gæfa var það öllum er fengu að kynnast þér. (Ingibjörg Sig.)

Elsku mamma mín, ég kveð þig með söknuði á meðan ég rifja upp liðinn tíma. Ég sé þig fyrir mér í stól með prjóna eða saumadót í kjöltunni og handverk þín allt í kringum þig, hendurnar þínar, fingurnir svo langir og krækklóttir "sem ég erfði frá þér". Já, hendurnar sem fæddu mig og klæddu, báru út með mér Morgunblaðið þegar ég var barn og gáfu dúfunum mínum að borða þegar ég mátti ekki vera að. Dóttir mín kynntist svo þessum höndum þar sem hún var í pössun hjá þér fyrstu árin sín og síðan heimagangur. Já, elsku mamma mín, ég erfði meira en hendurnar þínar, þessar miklu tilfinningar fékk ég einnig frá þér og skapið frá pabba svo samskipti okkar voru oft erfið. En í mínu mikla rótleysi átti ég vísan stað á heimili þínu, þar sem ég þurfti oft að millilenda og brotlenda. Sjálfsagðir hlutir fortíðarinnar verða allt í einu að fjársjóði sem maður telur sig ekki hafa notfært sér nóg. Góð og hjartahlý, þannig á ég eftir að minnast þín, eins og einn mjög góður vinur minn sagði, Maggi! seint finnur þú þér eiginkonu, því þú leitar að mömmu þinni í öllum konum og hana finnur þú aldrei.

Ég kveð þig með sameiginlegri bæn okkar mamma mín.

Guð gefðu mér æðruleysi

til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt

kjark til að breyta því sem ég get breytt

og vit til að greina þar á milli.

Þinn sonur,

Magnús Örn Tómasson.

Elsku Íris mín, það er erfitt að setjast niður og eiga að fara að skrifa minningar um þig því að ég trúi ekki að þú sért farin frá okkur. Þetta gerðist svo snöggt og enginn átti von á þessu. En svona er víst lífið það veit enginn hver annan grefur og þetta er víst það eina sem er öruggt í lífinu að við deyjum öll einhvern tímann. En það er nú ekki þar með sagt að við sættum okkur við það, og okkur bregður alltaf jafn mikið þegar við fréttum að við séum búin að missa einhvern nákominn.

Elsku Íris mín, okkar kynni hófust árið 1984 þegar leiðir okkar Svavars lágu saman, og yndislegri manneskju hafði ég vart hitt. Það var svo gott að umgangast þig og vera í návist þinni að ég held að öllum hafi liðið vel eins og sýndi sig að vinir strákanna þinna, þeir komu og heimsóttu þig oft þó að strákarnir væru ekki heima og myndi ég segja að það sýndi sitt, hvaða manneskju þú hafðir að geyma. Elsku Íris, það verður erfitt að eiga ekki eftir að heyra í þér í síma, eða að heyra þig segja "Hæ, hæ, er einhver heima" þegar þú droppaðir í heimsókn. Og geta ekki hringt og spurt hvernig á að byrja á þessu spori eða hvernig var þessi uppskrift, eða eins og þú sagðir svo oft þegar að þú hringdir í seinni tíð "ég er að fara vestur" (og þá varst þú að fara á Keisbakka) því að þar þótti þér yndislegt að vera og þér leið virkilega vel þar. Og það var þangað sem þú ætlaðir daginn sem þú lést. Þú hringdir í mig á miðvikudaginn og sagðir að þú og Dúra vinkona þín ætluð að fara á föstudaginn vestur og fara á danska daga í Stykkishólmi og síðan að vera vikuna og tína ber. En svona er lífið, við vitum aldrei hvar við verðum á morgunn. Það var eitt af því skemmtilegasta sem ömmubörnin gerðu og það var að fara á Keis, og það kom oftar en ekki fyrir að þau fengu að verða eftir þar hjá ykkur, þegar við Svavar fórum heim. Oft komu líka strákarnir hennar systur minnar Kalli og Ingvar vestur með okkur og það var oft mikið fjör og mikið hlegið, oft hefur þú sagt söguna af Ingvari, þegar eitthvað kom fyrir sagði hann "þetta er bara ég".

Elsku Íris mín, að lokum vil ég þakka þér fyrir öll árin sem við fengum að njóta saman, hafðu þökk fyrir allt.

Dýpsta sæla og sorgin þunga

svífa hljóðlaust yfir storð.

Þeirra mál ei talar tunga

tárin eru beggja orð.

(Ólöf Sig.)

Megi góður guð styrkja alla ástvini þína og elsku Tommi minn, megi guð styrkja þig og styðja í þessari miklu sorg.

Þín tengdadóttir,

Rannveig.

Hún amma var svolítið óvenjuleg amma. Hún var besta vinkona mín og hún hafði alltaf tíma til að hlusta og tala við mig enda gátu símtölin okkar varað klukkutímum saman eða þangað til einhver stoppaði okkur af.

Amma passaði mig þegar ég var lítil og mamma fór út að vinna. Þegar ég fór svo á barnaheimili seinna var ég alltaf velkomin í Skerjó til ömmu og afa og helst vildi ég fá að gista og kúra í holunni hjá þeim. Þegar ég var á fjórða ári og loksins var búið að venja mig af snuði var það amma sem geymdi nokkur, sem bara við vissum um, og ég fékk stundum að hugga mig með.

Ég fékk líka að bralla ýmislegt hjá ömmu sem ekki var vinsælt annarsstaðar því amma var aldrei að stressa sig yfir hlutunum heldur bara hló og skemmti sér yfir uppátækjunum. Stundum hringdi amma og vildi að við færum í bæinn og þá átti ég að "plata" hana til að kaupa eitthvað og einu sinni man ég eftir því að við fórum í bæinn og ég plataði ömmu til að kaupa nammi handa mér og síðan öllum vinum mínum og amma skellihló og keypti nammi handa öllum krökkunum í götunni. Amma var alltaf síprjónandi eða saumandi enda listamaður í höndunum og aldrei vantaði neinn sokka eða vettlinga því það var alltaf til nóg á lagernum hjá henni. Stundum sátum við amma líka saman með handavinnuna okkar þó að ég ekki jafn mikil handavinnukona og hún, en hún leiðbeindi mér og hjálpaði og var alltaf jafn þolinmóð. Á sumardaginn fyrsta á hverju ári brunuðum við amma suður í Sandgerði og náðum í "hlutinn" okkar hjá pabba og afa í skiptum fyrir rjómatertu, við krossuðum puttana og vonuðum að fiskast hefði vel, því þetta var okkar dagur og við vorum alltaf voðalega spenntar yfir því hversu ríkar við yrðum.

En nú er hún elsku amma mín dáin, hún sem alltaf var svo glöð og góð við alla. Við eigum svo margs að minnast og þakka fyrir. Allar góðu glöðu stundirnar með henni sem aldrei gleymast.

Elsku afi, pabbi, Einar Björn, Svavar og fjölskylda. Við eigum öll eftir að sakna hennar ömmu mikið, en ég veit að Guð geymir hana og nú líður henni vel.

Þau ljós sem skærast lýsa

þau ljós sem skína glaðast.

Þau bera mestu birtu

en brenna líka hraðast

og fyrr en okkur uggir

fer um þau harður bylur

er dauðans dómur fellur

og dóm þann enginn skilur.

( Friðrik G. Þórleifsson.)

Íris Mist.

Góð vinkona okkar hjónanna og barnanna okkar hún Íris "amma" er dáin. Mér flaug ýmislegt í hug, þegar Ransý kallaði í mig út um gluggann á bílnum og sagðist flytja sorgartíðindi, en ekki að tengdamóðir hennar hefði orðið bráðkvödd. Kona á besta aldri, og einn besti tími lífsins ætti að vera framundn hjá þeim hjónum nú þegar vinnuálag minnkar og tími ferðalaga og huggulegra samverustunda á Keisbakka við Breiðafjörð, en þar hafa þau hjónin reist sér glæsilega vin fyrir sig og fjölskylduna.

Ég kynntist Írisi þegar ég var 15 ára og við Svavar elsti sonur Írisar og Tomma urðum bestu vinir. Leiksvæðið var Skerjafjörðurinn og þar sem ég bjó töluvert í burtu, varði ég oft löngum stundum í Skildinganesi 45 þar sem þau hjónin tóku mér eins og einum af þeirra eigin sonum.

Fljótlega varð heimili þeirra hjóna að aðalsamkomustað okkar krakkanna í hverfinu og það var sama hve mörg við vorum, alltaf vorum við velkomin. Minningar tengdar þessum stað eru miklar og svo margar enda sá tími er unglingar eru að mótast.

Íris hellti upp á kaffi í könnuvís þegar við strákarnir sátum niðri í "herbergi" og spiluðum kana fram á morgun, eða bakaði pönnsur þegar við vorum þar um kaffileytið, og ef ég var þar á matmálstímum þá var ekki hlaupist undan að borða með fjölskyldunni.

Ósjaldan kom það fyrir að ég kíkti inn að kvöldlagi með Viggó litla með mér þegar Kata var að vinna, og við Íris sátum og spjölluðum fram eftir kvöldi eða við Kata ætluðum að skreppa eitthvert smástund í kaffi þá var alltaf gott að skreppa yfir á 45.

Íris var alltaf kát, upplífgandi og skilningsrík, maður gat alltaf rætt um hlutina við Írisi. Seinna þegar fjölgaði meir hjá okkur Kötu og við vorum flutt í Skerjó heyrðist oft í krökkunum okkar "við ætlum að skreppa yfir til Írisar ömmu", og ekki komu þau að tómum kofunum þar, hvort heldur sem sóst var eftir hlýju viðmóti, huggun eða bara smágotti í vasann.

Þegar ég lít til baka og rifja upp þessa tíma, þessa yndislegu tíma, við vorum unglingar með öllum þeim fyrirgangi, hávaða og látum sem táningum fylgja, sér maður hve einstök og þolinmóð Íris var. Hún sat í rólegheitunum og prjónaði, saumaði eða vann að mat eða bakkelsi í eldhúsinu, og aldrei minnist ég þess að henni hafi fallið verk úr hendi.

Foreldrar mínir og Íris kynntust meir og betur en af afspurn er þau fóru að vinna saman er Íris hóf störf í Jógastöðinni, þar sem hún skapaði sér fljótt virðingu og velvilja.

Það er ekki auðvelt að reyna með fátæklegum orðum að lýsa þeim áhrifavaldi sem Íris var í lífi okkar hjónanna en minningin um hana mun vara alla tíð og ylja okkur um alla framtíð.

Elsku Tommi, Svavar, Ransý, Magnús og Einar Björn um leið og við kveðjum góðan ferðafélaga lífsins með þökk fyrir hlýjuna, gleðina og vinskapinn, vottum við ykkur okkar dýpstu samúð og vonum við að þið og öll fjölskyldan finnið styrk í minningunni á þessum erfiðu tímum sorgar og saknaðar.

Sigurður V. Viggósson, Katrín Sigurðardóttir

og börn.

Hver minning dýrmæt perla

að liðnum lífsins degi,

hin ljúfu og góðu kynni af alhug þakka hér.

Þinn kærleikur í verki var gjöf sem gleymist eigi,

og gæfa var það öllum er fengu að kynnast þér.

(Ingibjörg Sig.)

Að bindast vináttuböndum er fjársjóður sem manni hlotnast bestur og verður dýrmætari með hverju ári sem líður við lengri kynni. Okkur fannst því erfitt að heyra andlátsfregn þína, Íris.

Við kynntumst allar í september 1983 í Heimilisiðnaðarskólanum þar sem við vorum á námskeiði í dúkaprjóni. Þegar námskeiðinu lauk hafðir þú orð á því að þig langaði til að vita hvort einhverjar konur vildu halda áfram að hittast og prjóna saman því við gætum hjálpað hver annarri. Við urðum fimm með þér og þú bauðst okkur fyrst heim til þín á þitt fallega heimili í Skildinganesi 45. Þangað var gaman að koma, svo mikil og falleg handavinna eftir þig alls staðar, því þú varst svo afkastamikil við útsaum og prjónaskap. Við stofnuðum hjá þér prjónaklúbbinn okkar. Þú hafðir mikinn áhuga á handavinnu og sagðir okkur að þig hefði langað mikið til að verða handavinnukennari.

Einn veturinn fórum við í prjónaklúbbnum saman að læra að mála á postulín, það var mjög gaman.

Fyrir nokkrum árum keyptuð þið hjónin og synir ykkar jörð á Snæfellsnesi. Þar höfðuð þið fjölskyldan mikla ánægju af að dvelja á sumrin og voruð búin að endurbæta mikið íbúðarhúsið. Við vorum búnar að heimsækja þig þangað og leist vel á okkur þar.

Við vissum að þú varst farin að finna til vanheilsu, en héldum ekki að þú yrðir kölluð svona snemma burt frá fjölskyldu þinni og vinum.

Við vottum þér, Tómas, sonum og tengdadóttur og barnabörnum innilega samúð okkar.

Guð blessi minningu Írisar.

Ég sendi þér kæra kveðju,

Því komin er lífsins nótt.

Þig umvefji blessun og bænir,

Ég bið, að þú sofir rótt.

(Þórunn Sig.)

Prjónaklúbburinn.

Mig langar til þess að minnast góðrar vinkonu minnar með fáeinum orðum. Leiðir okkar Írisar lágu saman fyrir 33 árum en þá fluttum við fjölskyldurnar í sama stigagang í vesturbænum. Fljótt myndaðist góður vinskapur sem haldist hefur alla tíð síðan. Það sem tengdi okkur Írisi einna helst voru sameiginleg áhugamál og einnig urðu börnin okkar góðir leikfélagar. Þegar við Íris fluttum hvor í sitt hverfið ákváðum við að halda sambandi og mynduðum tvær saman einstakan saumaklúbb. Þessi saumaklúbbur var einstakur að því leyti að hann samanstóð af okkur tveimur og hittumst við hálfsmánaðarlega á mánudagsmorgnum upp frá því í nokkur ár. Þá voru ógleymanlegar ferðir okkar vinkvennanna suður í Sandgerði. Það er margs að minnast af samskiptum okkar Írisar. Þegar mér var tilkynnt að hún hefði kvatt þennan heim svo snögglega varð það mér og fjölskyldu minni mikið áfall. Ég kveð góða vinkonu og ég mun sakna góðrar vináttu okkar. Kæri Tommi og fjölskylda, megi algóður Guð styrkja ykkur í sorg ykkar.

Þórunn Kristjánsdóttir og fjölskylda.

Við kynntumst í Gaggó aust., við Íris. Þá vorum við 13 ára. Það var stórt skref að fara úr barnaskólanum í Gagnfræðaskólann og við fundum svolítið til okkar og fannst við vera örlítið fullorðnar. Við héldum saman, eins og vinkonur gera, og vináttuböndin styrktust með árunum. Það er margs að minnast og minningarnar hrannast upp. Við héldum að við ættum svo mörg ár enn til að njóta samvista, en þá barst mér sú sorgarfrétt, að Íris væri dáin.

Þegar skóla lauk, og við vorum farnar að vinna, hittumst við iðulega í hádeginu og aftur eftir vinnu. Við fórum þá gjarnan heim til Írisar, í Stangarholtið. Íris spilaði ágætlega á gítar og okkur þótti gaman að taka lagið. Okkur þótti líka gaman að dansa, og við vorum fastagestir á gömlu dönsunum.

Við fórum saman í sumarfrí og ferðuðumst um landið með tjald, svefnpoka og prímus. Þegar við lögðum af stað kunnum við hvorki að tjalda né kveikja á prímusnum, en það lærðist eins og svo margt annað, sem við lærðum saman á lífsleiðinni og við studdum hvor aðra.

Við stofnuðum heimili um svipað leyti og svo fæddust börnin. Við pössuðum hvor fyrir aðra. Við skiptumst á uppskriftum og húsráðum. Við tókum saman slátur og sultuðum og söftuðum saman og ef við gátum ekki gert hlutina saman þá hringdum við í hvor aðra til að fá ráðleggingar og hvatningu. Ég minnist þessa tíma með þakklæti og auðmýkt. Þetta voru gullin ár.

Íris var mikil hannyrðakona. Hún saumaði, prjónaði og heklaði bæði fatnað, púða, teppi og myndir með mynstrum og saumasporum, sem ég kann engin skil á. Hún bjó manninum sínum, honum Tomma, og sonunum þremur, fallegt heimili og hún var ein af þessum frábærlega myndarlegu húsmæðrum. Maðurinn hennar Írisar, hann Tommi, var mikið að heiman, á sjónum, svo hún þurfti oft á tíðum að vera bæði húsfreyjan og húsbóndinn og fórst það vel úr hendi eins og annað, sem hún gerði.

Nú eru börnin okkar beggja uppkomin og búin að stofna eigin heimili. Okkur þótti gaman að vera ömmur og sögðum hvor annarri gjarna sögur af barnabörnunum. Við Íris vorum jafnöldrur, fæddar hvor sinn daginn, tveir fiskar. Þegar árin liðu syntum við ekki lengur sama sjó. Við fjarlægðumst hvor aðra án þess að vinátta okkar rofnaði. Þau vináttubönd, sem bundin eru í æsku og ofin kærleika, umburðarlyndi og sameiginlegri reynslu hafa mikla teygju og slitna aldrei.

Ég á erfitt með að horfast í augu við þá staðreynd að ég get ekki oftar hringt í Írisi og sagt: Mikið er langt síðan ég hef heyrt í þér, segðu mér nú fréttir af þér og fjölskyldunni. Minningarnar, sem ég á um líf okkar saman í leik og starfi munu ylja mér hér eftir sem hingað til.

Ég votta eiginmanni Írisar, Tómasi, sonum þeirra og fjölskyldum, mína dýpstu samúð. Megi Guð styrkja þau í sorg þeirra.

Selma Jóhannsdóttir.

Íris Björnsdóttir, vina mín, hefur kvatt þennan heim. Við vorum aðeins litlar hnátur þegar við vissum hvor af annarri, báðar úr vesturbænum. Hún var æskuvinkona elstu systur minnar sem einnig er látin. Árin liðu, systir mín flutti erlendis, vinabandið milli þeirra lengdist. Hins vegar höguðu örlögin því þannig að við Íris fluttum báðar upp í Holtin. Þar var stofnað til vináttu sem aldrei rofnaði. Við vorum með börn á sama aldri sem ekki spillti fyrir. Drengirnir okkar urðu vinir svo og stór-fjölskyldan öll. Ótaldir eru þeir dagar sem við Íris sátum, spjölluðum og munduðu prjóna okkar en hún var snillingur í höndunum, sama á hverju hún snerti.

Vinkonu mína langaði að verða handavinnukennari, en hún komst aldrei að í skólanum - því miður. Henni var í blóð borið að segja öðrum til, það get ég vitnað um. Hún kenndi mér það sem ég kann í þeim fræðum.

Íris var með eindæmum hlý manneskja og sama hver í hlut átti. Hún hallmælti aldrei neinum heldur fann allt það góða sem í fólki bjó. Mjög gestkvæmt var á heimili þeirra Tomma, ekki bara á hátíðum heldur flesta daga ársins. Oft var mannmargt við eldhúsborðið, alveg sama hversu mörgum skipstjóranum datt í hug að bjóða heim í bita, húsfreyjan virtist alltaf geta töfrað upp úr pottum sínum gnótt fyrir alla. Árin liðu, drengirnir þrír flugu úr hreiðrinu en eftir sátu mamma og pabbi, fylgdust með og glöddust yfir velferð þeirra. Barnabörnin voru umvafin kærleika ömmu og afa sem ekkert létu ógert til að þeim liði sem best.

Fyrir nokkrum árum festu þau hjónin kaup á jörð vestur á Skógarströnd og þar áttu þau bæði annasama og gleðiríka daga. Alltaf fullt hús af gestum, þar á meðal vorum við Guðmundur sem áttum þar ljúfar ánægjustundir. Lífið er alltaf að breytast. Vinirnir, sem fóru saman í hálendisferðir á árum áður breyttu um lífsstíl. Hættu að notast við Herragarðinn, en það var tjaldið okkar. Fyrir örfáum vikum komum við í heimsókn og þá var verið á fullu í heyskap. Sjórinn, eyjarnar og landið var baðað í sól svo fagurt var um að litast. Búið að klæða húsið að utan og mála skyldi þakið blátt eins og glugga og útihurðir. Já, það var gaman að koma í sumarhöllina þeirra.

En skjótt skipast veður í lofti. Elsti sonur þeirra, Svavar, hringdi í okkur upp í sumarbústað og færði okkur þá sorgarfregn að mamma hans hefði orðið bráðkvödd þá um morguninn. Við sem vorum búin að flagga vorum fljót að draga fánann í hálfa stöng og kveikja á kerti fyrir vinu mína. Ég bið góðan guð að geyma þig, Íris mín, og styrkja alla fjölskylduna.

Herdís Björnsdóttir (Dísa).

Magnús Örn Tómasson.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.