Lúðvík, sonur Lúðvíks 16. Frakklandskonungs og Maríu Antoinettu.
Lúðvík, sonur Lúðvíks 16. Frakklandskonungs og Maríu Antoinettu.
SONUR og erfingi franska konungsins Lúðvíks 16. og eiginkonu hans, Maríu Antoinettu, varð fangi byltingarmanna og lést 10 ára gamall úr berklum árið 1795.

SONUR og erfingi franska konungsins Lúðvíks 16. og eiginkonu hans, Maríu Antoinettu, varð fangi byltingarmanna og lést 10 ára gamall úr berklum árið 1795. Foreldrarnir voru hálshöggnir af lýðveldissinnum tveim árum fyrr, en í prinsinum litla komu saman tvær frægustu valdaættir Evrópu, Bourbonar og Habsborgarar.

Byltingarmenn sögðu að ríkisarfinn hefði látist úr berklum í Temple-klaustrinu, þar sem hann var í haldi, árið 1795. En þeir voru margir sem neituðu að trúa þeim, sögðu að drengnum hefði verið smyglað út - og sumir sögðust vera hann sjálfur í eigin persónu og gerðu tilkall til ríkiserfða. Ritaðar hafa verið um 800 bækur um fangann en nú hafa erfðafræðingar lagt fram sinn skerf með því að rannsaka DNA-erfðaefni litla fangans. Það var tekið úr vel varðveittu hjarta drengsins og borið saman við DNA-efni úr hári af höfði móðurinnar. Niðurstaðan er að drengurinn sem dó í fangelsinu hafi verið hinn raunverulegi prins.

Læknirinn sem krufði líkið stal hjartanu og geymdi í alkóhóli í tíu ár. Síðan var það lengi í vörslu spænskra Bourbona en loks skilað til Frakka 1975.