Erling Ólafsson
Erling Ólafsson
Erling Ólafsson fæddist 28. september 1949. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1969 og B.S.-prófi í líffræði frá Háskóla Íslands 1972. Hann tók doktorspróf frá háskólanum í Lundi í Svíþjóð árið 1991. Hann hefur starfað frá 1978 á Náttúrufræðistofnun Íslands og hefur þar umsjón með skordýrarannsóknum og skordýrasöfnun. Erling er kvæntur Margréti Sigurgeirsdóttur kennara og eiga þau þrjú börn.
Erling Ólafsson fæddist 28. september 1949. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1969 og B.S.-prófi í líffræði frá Háskóla Íslands 1972. Hann tók doktorspróf frá háskólanum í Lundi í Svíþjóð árið 1991. Hann hefur starfað frá 1978 á Náttúrufræðistofnun Íslands og hefur þar umsjón með skordýrarannsóknum og skordýrasöfnun. Erling er kvæntur Margréti Sigurgeirsdóttur kennara og eiga þau þrjú börn.

Mölflugur voru á árum áður fyrirferðarmiklar í híbýlum manna á Íslandi. Fólk var gjarnan að reyna að fæla þær frá ullarfatnaði með mölkúlum en nú er langt um liðið síðan mölkúlur voru eftirsótt vara í íslenskum verslunum. En skyldu mölflugurnar þá vera útdauðar á Íslandi. Því svarar Erling Ólafsson skordýrafræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands.

"Nei. Til eru nokkrar tegundir fiðrilda sem í daglegu tali eru kallaðar mölflugur. Sumar lifa á matvælum okkar en aðrar frekar á ullar- og skinnavöru. Þeim erum við að beina athyglinni að núna. Þær lifa enn en tilvera þeirra er ekki jafntrygg og áður vegna þess að við höfum breytt um efnisval í fötum okkar. Nú er það ekki lengur "föðurlandið" sem liggur niðurpakkað í skápum eða skúffum heldur gerviefni og bómull."

-Eru menn þá hættir að eitra fyrir mölflugum?

"Reyndar ekki, því að þær hafast við í híbýlum okkar við sérstakar aðstæður. Þær geta lifað t.d. í ullarteppum eða veggteppum, eins eru í gömlum húsum vatnslagnir í veggjum gjarnan einangraðar með ullarfóðri og við slíkar aðstæður hafa stundum komið upp vandamál með mölflugur. Þar er þá fyrst og fremst hinn svokallaði fatamölur sem þar er á ferðinni. Hann er ein af fjórum tegundum sem geta lifað á dýrahárum. Hinar tegundirnar eru ullarmölur, húsmotti og gestamotti."

-Líta þessi fiðrildi öll eins út?

"Þau eru hvert með sínum einkennum. Fatamölurinn er auðþekktur, hann er einlitur, gulur á lit og mun minni en hinar tegundirnar. Ullarmölurinn er grábrúnn, nánast "sanseraður" á lit og stærri. Í dag heldur hann meira til í gripahúsum, fjósum og jafnvel úti í náttúrunni í hreiðrum fugla. Hann lifir á fiðri ekki síður en ull."

-Eru þetta meindýr í þeim skilningi að af þeim geti stafað hætta?

"Þessi skordýr valda spjöllum en eru ekki hættuleg heilsu manna."

-Ætli ullarmölurinn sé landnámsskordýr?

"Þessar tegundir hafa allar borist til landsins með mönnum en engar heimildir eru um hve lengi þær hafa verið hér. Allir annálar og eldri skrif fjalla frekar um grasmaðk sem olli skaða á túnum og haga."

-Hvenær fara fyrst sögur af ullarmöl á Íslandi?

"Árið 1944 getur Geir Gígja um fatamöl í bók um meindýr í húsum og gróðri og telur tegundina hafa fundist hér á suðausturlandi. Líklega hefur mölflugan sem kölluð er (ullarmölurinn) gert mest vart við sig um miðja 20. öldina. Þá tóku allir skápar að lykta af mölkúlum."

-Hvað eru mölkúlur?

"Það er efni sem heitir naftalín og það fælir ullarmölinn frá ullinni, hann fer ekki í skápinn."

-Hvaða efni eru notuð til að eitra fyrir mölflugum?

"Til eru mismunandi efni. Ég mæli ekki með neinu sérstöku þeirra. Ég mæli bara með því að menn fái sér vandvirkan meindýraeyði sem kann til verka ef þeir verða varir við mölflugur. Meðferða þessara eiturefna er háð sérstöku leyfi sem Hollustuvernd gefur út. Sumir eru að kaupa sjálfir eiturefni á úðabrúsum en þau duga ekki til alvöru herferðar í híbýlum."

-Eru mölflugur algengar erlendis?

"Já, það eru þær. Þetta eru tegundir sem berast með manninum hvert sem hann fer og eru þá innanhúss. Í kyntum húsum eiga fiðrildin að þrífast svo framarlega sem þau hafa aðgang að ull, fiðri og dýrahárum."

-Hvað er að segja um þessamotta?

"Þeir eru mun fjölhæfari í fæðuvali. Auk þess að lifa á ullarvörunni fara þeir líka í alls kyns mjölvöru. Gestamottinn er mjög algengur í mjölfóðurgeymslum í gripahúsum til sveita. Húsmottinn er meira í híbýlum, oftast í gömlum kjallarageymslum þar sem nóg er af drasli sem aldrei er hreyft við, þar er hans heimur."

-Er tilvist mölflugna á heimilum merki um sóðaskap?

"Nei, ég vil ekki kalla það sóðaskap þótt menn eigi mikið af gömlum hlutum."

-Hvað með söfn, er þetta ekki skaðvaldur þar?

"Ég get varla svarað öðruvísi en svo að ég hef ekki haft af því spurnir. Hins vegar veit ég að ullarmölur og fatamölur hafa alla burði til að valda óskunda bæði í náttúrugripasöfnum og minjasöfnum, t.d. þar sem gamall ullarútsaumur og gripir eru og uppstoppaðir fuglar og dýr."

-Er oft leitað til þín sem skordýrafræðings vegna þessara meindýra?

"Fatamölurinn kemur nokkuð reglulega inn á mitt borð en ullarmölur afar sjaldan. Algengari eru tegundir sem lifa á mat- og kornvöru."