5. september 2000 | Innlendar fréttir | 213 orð | 1 mynd

Andlát

INDRIÐI G. ÞORSTEINSSON

EINN helsti skáldsagnahöfundur landsins og blaðamaður, Indriði G. Þorsteinsson, fyrrverandi ritstjóri Tímans, lést aðfaranótt sunnudags, 74 ára að aldri. Indriði fæddist í Gilhaga í Lýtingsstaðahreppi í Skagafirði 18. apríl 1926.
EINN helsti skáldsagnahöfundur landsins og blaðamaður, Indriði G. Þorsteinsson, fyrrverandi ritstjóri Tímans, lést aðfaranótt sunnudags, 74 ára að aldri.

Indriði fæddist í Gilhaga í Lýtingsstaðahreppi í Skagafirði 18. apríl 1926. Foreldrar hans voru Anna Jósepsdóttir húsmóðir og Þorsteinn Magnússon verkamaður. Indriði stundaði námi við Héraðsskólann á Laugarvatni 1942-43. Hann vann verslunarstörf eftir að námi lauk og var bifreiðastjóri á Akureyri 1945-51. Árið 1951 hóf Indriði störf sem blaðamaður á Tímanum. Hann var blaðamaður á Alþýðublaðinu 1959-62, en 1962 varð hann ritstjóri Tímans. Árið 1973 lét hann af því starfi þegar hann gerðist framkvæmdastjóri þjóðhátíðarinnar á Þingvöllum 1974. Næstu ár stundaði hann ritstörf, en varð aftur ritstjóri Tímans 1987-1991.

Eftir Indriða liggja skáldsögur, smásögur, ævisögur og leikrit. Meðal þekktustu verka hans eru skáldsögurnar Sjötíu og níu af stöðinni og Land og synir, sem báðar voru kvikmyndaðar. Eftir Indriða liggja ævisögur Stefáns Íslandi, Jóhannesar Kjarvals og Hermanns Jónassonar.

Indriði var einn af frumkvöðlum í íslenskri kvikmyndagerð.

Hann lét mikið til sín taka í þjóðmálaumræðunni auk þess sem hann var lengst af virkur forystumaður í samtökum rithöfunda. Alþingi sýndi honum þá virðingu að kjósa hann í heiðurslaunaflokk listamanna.

Hin seinni ár skrifaði Indriði sjónvarpsgagnrýni í Morgunblaðið og birtist síðasta grein hans í síðasta laugardagsblaði.

Indriði var áður kvæntur Þórunni Ó. Friðriksdóttur og eignuðust þau fjóra syni. Eftirlifandi sambýliskona Indriða er Hrönn Sveinsdóttir.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.