Aleksei G. Arbatov
Aleksei G. Arbatov
Aleksei G. Arbatov, varaformaður varnarmálanefndar Dúmunnar, neðri deildar rússneska þingsins, segist hóflega bjartsýnn á að ástand mála í Rússlandi horfi nú loksins til betri vegar. Í samtali við Davíð Loga Sigurðsson lagði hann þó áherslu á að Pútín Rússlandsforseti yrði dæmdur af verkum sínum.
ALEKSEI G. Arbatov á sæti í neðri deild rússneska þingsins, Dúmunni, fyrir Jabloko-flokkinn. Hann hefur víðtæka reynslu af öryggis- og hermálum, rétt eins og faðir hans, Georgí Arbatov, sem var einn helsti ráðgjafi gömlu sovétstjórnarinnar í utanríkismálum.

Arbatov eldri kom hingað til lands fyrir tveimur árum til að sitja ráðstefnu um kalda stríðið en Arbatov yngri er nú hingað kominn til að sækja málþing utanríkisráðuneytisins og Atlantshafsherstjórnar NATO um framtíð öryggismála Norður-Atlantshafsins. Hann mun ræða utanríkisstefnu Vladímírs Pútíns í erindi sínu á ráðstefnunni á morgun en hann mun enn fremur flytja erindi á opnum fundi Samtaka um vestræna samvinnu næstkomandi föstudag kl. 17 í Ársal Hótel Sögu.

Slysið í Kursk vísbending um ástand mála hjá hernum

Arbatov var fyrst spurður um stöðu rússneska heraflans í ljósi slyssins um borð í kjarnorkukafbátnum Kursk nú í ágúst. "Það er rétt að þetta slys er að mörgu leyti vísbending um ástand mála hjá rússneska hernum," segir Arbatov aðspurður við blaðamann.

"Ekki kannski svo mikið slysið sjálft, því slysin gerast jú alltaf, og gerðust fyrr á árum bæði í sovéskum og bandarískum kafbátum. En öll sú óreiða sem virtist ráða ríkjum þegar slysið átti sér stað - hin misheppnaða björgunartilraun - var sannarlega mikið áfall. Það er óhætt að segja að þessi harmleikur hafi valdið samfélaginu í heild sinni, ráðamönnum í Moskvu og þá ekki síst nýjum forseta, Vladímir Pútín, miklum vanda. Vonir manna í rússneska hernum standa hins vegar núna til þess að þessi harmleikur marki þáttaskil og að það sé loksins komið að því að forseti landsins og ráðherrar í ríkisstjórn hans skilji að mun meira fé verði að verja til rússneska heraflans. Ekki til að auka árásarmátt hans heldur til að tryggja að herinn geti skammlaust haldið úti eðlilegri starfsemi og til að koma í veg fyrir svona harmleiki."

Segir Arbatov að þessa sjái nú þegar stað í frumvarpi að fjárlögum sem nýlega var lagt fyrir Dúmuna, neðri deild rússneska þingsins, að auka eigi útgjöld til varnarmála meira en áður hafði verið gert ráð fyrir. Þetta fé sé ætlað til nýrra tækja, öryggisráðstafana, varahluta og viðhalds á fyrirliggjandi tækjakosti auk þess sem hluti þess sé eyrnamerktur þjálfun hermanna og aðbúnaði þeirra. Ekki sé síðan útilokað að enn verði gerðar breytingar á fjárlagafrumvarpinu og að það verði samþykkt úr Dúmunni með enn hærri fjárveitingum til hersins.

Staða Pútíns mjög sterk

Staða Pútíns forseta hefur ekki orðið fyrir verulegum skaða af völdum Kursk-slyssins að mati Arbatovs. Skoðanakannanir sýni að vinsældir hans fóru úr 73% í 65% meðal þjóðarinnar og þessi breyting hafi mælst í hinni mánaðarlegu könnun, sem gerð er í Rússlandi, og þýði því ekki að um varanlega breytingu hafi verið að ræða. Vissulega hafi þó frjálslynd öfl í Moskvu og ýmsir fjölmiðlar talið Pútín bregðast seint og illa við slysinu, einkum og sér í lagi þegar forsetinn hafi tekið upp á því að leita blóraböggla utan veggja Kremlar vegna áfallsins.

Að sögn Arbatovs hefur Pútín afar öruggan meirihlutastuðning í Dúmunni. Þeim vinstri öflum annars vegar og hægri öflum hins vegar sem ekki styðji forsetann skilyrðislaust geti hann síðan ætíð att saman í tilteknum málum og þannig tryggt að stjórnarstefna hans nái fram að ganga. Vinstri öflin og hægri öflin séu t.d. ekki sammála um endurbætur á skattakerfinu, um fjárlögin eða um lýðræðisþróun í landinu og þegar í harðbakkann slái nái forsetinn fram stuðningi annars hópsins á kostnað hins ef með þarf.

"Ef þú skilgreinir þetta sem pólitískan stöðugleika," segir Arbatov aðspurður, "þá eru vissulega líkur á rólegri tímum í rússneskum stjórnmálum en hafa verið. Ef þú hins vegar skilgreinir pólitískan stöðugleika sem eitthvað sem þurfi að fela í sér eðlilega valddreifingu, aðskilnað löggjafarvalds, framkvæmdarvalds og dómsvalds, frelsi til athafna og orðs þá er varla hægt að fullyrða að pólitískur stöðugleiki sé í vændum í Rússlandi."

Segir Arbatov að nú þegar hafi mikil völd safnast í hendur einum manni, forsetanum, samkvæmt ýmsum lögum og reglum sem gilda í Rússlandi. Pútín hafi síðan reynt að veiða til sín enn frekari völd, einkum í löggjafararmi rússneska ríkjasambandsins. "Það er alsendis óvíst hvernig hann mun fara með þessi völd. Það hvílir auðvitað mikil ábyrgð á herðum þess sem fer með svo víðtæk völd og viðkomandi verður að bera þungar byrðar ef illa fer. Að þessu leyti til er enn alveg óljóst hvort Pútín muni takast að hrinda í framkvæmd framsýnum stefnumiðum í efnahagsmálum, innanríkismálum eða utanríkismálum. Öll meiriháttar mistök myndu sjálfkrafa skaða orðstí forsetans og vinsældir hans og þá um leið tækifæri hans til að stýra landinu með styrkri hendi."

Arbatov játar því að rétt væri að lýsa afstöðu flokka eins og Jabloko, sem hann situr á þingi fyrir, með þeim hætti að þeir vilji dæma Pútín af verkum hans. Það þýði ekki að flokksmenn sitji með hendur í skauti, þeir vinni markvisst að öllum helstu þjóðþrifamálum en þeir hyggist bíða og sjá hvað setur.

Flokkurinn hefur nú um 5% fylgi í Dúmunni, hafði um 10% fyrir síðustu þingkosningar en tapaði nokkru fylgi með andstöðu sinni við stríðsreksturinn í Tsjetsjeníu, að sögn Arbatovs. Hann segir flokkinn hins vegar vonast eftir því að ná megi saman breiðfylkingu minni flokka í Dúmunni, þ.m.t. flokki Jevgenís Prímakovs, fyrrverandi forsætisráðherra, sem hefði um 30% þingsæta.

Hagvaxtaraukning í fyrsta sinn í áratug

Fram kemur í máli Arbatovs að í fyrsta skipti í um áratug hafi átt sér stað hagvaxtaraukning í Rússlandi. Hún skýrist fyrst og fremst af háu heimsmarkaðsverði á olíu en að auki sé í bígerð að sambandsstjórnin í Moskvu taki til sín enn stærri hluta þess fjár sem stjórnvöld hafi yfir að ráða. Þeirri köku hafi áður verið skipt til helminga milli Kremlverja og rússnesku héraðanna 89 en ráð sé fyrir gert í nýjum fjárlögum að sambandsstjórnin í Moskvu taki framvegis 70%. Þar muni því fást aukið fé til hermála, löggæslu og heilbrigðismála.

Segir Arbatov að þetta muni vissulega veikja stöðu héraðanna en á móti komi að það muni falla í hlut Moskvustjórnar að greiða ýmsan kostnað, t.d. vegna skólamála og heilsugæslu sem áður féll í hlut héraðsstjórnanna. "Þetta er sennilega betra fyrirkomulag því gífurleg spilling hefur átt sér stað á vettvangi héraðsstjórnanna," segir Arbatov. "Að minnsta kosti munu læknar og kennarar fá laun sín greidd á réttum tíma sem og ellilífeyrisþegar."

Hann svarar því játandi að teikn séu því loksins á lofti um að Rússland feti einstígið fram á við. Margt sé þó enn óljóst hvað varðar stefnu Pútíns og ýmislegt valdi áhyggjum, þ.m.t. tilraunir til að hneppa fjölmiðla í spennitreyju og tilraunir til að auka enn völd forsetans á kostnað dóms- og löggjafarvaldsins. "Meginstefna forsetans nýtur stuðnings næstum allra flokka. Fyrstu skrefin hafa hins vegar verið umdeild og það getur vel verið að andstaða gegn markmiðum hans vaxi á nýjan leik ef aðgerðir skila ekki fljótt árangri," sagði Aleksei G. Arbatov.