STJÓRN Náttúrustofu Reykjaness ákvað á stjórnarfundi sem fram fór fimmtudaginn 31. ágúst sl. að ráða Jón Baldur Sigurðsson, fyrrverandi prófessor í sjávarlíffræði, sem forstöðumann Náttúrustofu Reykjaness en Jón Baldur starfar í dag sem forstöðumaður Náttúrustofu Vesturlands. Átta umsækjendur voru um stöðuna.
Með ráðningu Jóns Baldurs er um leið verið að marka Náttúrustofu Reykjaness sérstöðu á sviði sjávarlíffræði. Með ráðningunni er ætlunin að styrkja tengslin við Fræðasetrið í Sandgerði og Botndýrarannsóknarstöðina en stöðin hefur verið viðurkennd af Evrópusambandinu sem "einstæð vísindaaðstaða".
Náttúrustofa Reykjaness er sjötta náttúrustofan sem stofnuð er en fyrirhugað er að stofan taki formlega til starfa síðar á þessu ári. Þau bæjarfélög er standa að Náttúrustofu Reykjaness eru Grindavíkur- og Sandgerðisbær.
Samkvæmt 11. gr. laga um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur eru helstu hlutverk Náttúrustofu að:
Safna gögnum og varðveita heimildir um náttúrufar og stuðla að almennum náttúrurannsóknum, einkum í viðkomandi landshluta. Að stuðla að æskilegri landnýtingu, náttúruvernd og fræðslu um umhverfismál og að veita fræðslu um náttúrufræði og aðstoð við gerð náttúrusýninga.