Flugvélin Geysir var smíðuð árið 1944 og tók í fyrsta skipti á loft 10. desember það ár. Hún kom til Íslands 8. júlí 1948. Í henni voru sæti fyrir 46 farþega og hún var búin öllum nýtísku þægindum, sem þá tíðkuðust í vélum hinna stærri flugfélaga.
Flugvélin Geysir var smíðuð árið 1944 og tók í fyrsta skipti á loft 10. desember það ár. Hún kom til Íslands 8. júlí 1948. Í henni voru sæti fyrir 46 farþega og hún var búin öllum nýtísku þægindum, sem þá tíðkuðust í vélum hinna stærri flugfélaga.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í UPPHAFI er þó rétt að kanna bakgrunninn, til að átta sig betur á þeim atburði sem um ræðir. Um þetta leyti voru tvö flugfélög starfandi í landinu.

Í UPPHAFI er þó rétt að kanna bakgrunninn, til að átta sig betur á þeim atburði sem um ræðir.

Um þetta leyti voru tvö flugfélög starfandi í landinu. Annað er Flugfélag Íslands, endurskipulagt árið 1940 upp úr Flugfélagi Akureyrar, sem hafði verið stofnað árið 1937. Hitt er Loftleiðir, sem stofnað hafði verið 1944.

Millilandaflug hófst á Íslandi þegar heimsstyrjöldinni síðari lauk, og átti fyrsta ferðin sér stað 11. júlí 1945. Flogið var frá Reykjavík til Largs Bay í Skotlandi og var farkosturinn Catalina-flugbátur Flugfélags Íslands, TF-ISP. Sú flugvélagerð var hins vegar ekki talin heppileg til millilandaflugs, svo að félagið tók árið 1946 á leigu þrjár flugvélar af gerðinni Liberator B-24 af skosku flugfélagi. Þetta voru fyrrverandi sprengjuflugvélar, en nú útbúnar farþegasætum.

Geysir kemur til landsins

Hitt íslenska flugfélagið, Loftleiðir, hugði einnig á millilandaflug og keypti í því skyni árið 1947 flugvél af gerðinni Skymaster DC-4 (öðru nafni C-54), sem hlaut nafnið Hekla. Hófust nú áætlunarferðir til Norðurlanda, með viðkomu á Bretlandseyjum. Í júnílok árið 1948 keyptu svo Loftleiðir þá flugvél, sem átti eftir að enda ævi sína á hábungu Vatnajökuls, 14. september 1950. Það var Geysir. Hún var sömu gerðar og Hekla, en smíðuð árið 1944 og tók í fyrsta skipti á loft 10. desember það ár. Var hún því yngsta millilandaflugvél Íslendinga. Hún var keypt í Oakland í Kaliforníu, af bandaríska flugfélaginu Transocean Airlines. Bandaríkjaher hafði átt hana þar á undan, hafði eignast hana nýja, 22. desember 1944.

Geysir kom til Íslands 8. júlí 1948. Í endaðan ágúst 1948 fór hann í fyrsta íslenska áætlunarflugið til Ameríku, fullskipaður farþegum. Áfangastaður var New York, en millilent á Gander á Nýfundnalandi.

Leigður bandarísku flugfélagi

Í mars árið 1950 felldi íslenska ríkisstjórnin gengið um 42,6% og dró þá mjög úr flugstarfsemi Loftleiða vegna gjaldeyriserfiðleika; skuldabyrðin varð yfirþyrmandi og daglegur skortur á rekstrarfé. Var þá ekki um annað að ræða en leggja Heklu, því menn höfðu ekki handbært fé til að láta gera á henni lögboðna aðalskoðun. Fyrsta millilandaflugvél Loftleiða beið því í aðgerðaleysi í meira en hálft ár, af þessum sökum. Um haustið 1950 komust Loftleiðir að samkomulagi við bandaríska vöruflutningafélagið Seaboard & Western um að sjá um lögboðna aðalskoðun og gera jafnframt umtalsverðar breytingar á flugvélinni, og skyldi allur kostnaður greiðast með leigu Heklu til bandaríska flugfélagsins.

Litlu síðar er ákveðið að leggja niður um sinn allt millilandaflug Loftleiða og fer því eins fyrir Geysi og Heklu, að vélin er leigð Seaboard & Western, með áhöfn.

Aðfaranótt 14. september 1950 hélt Geysir frá Íslandi og flaug til London, þar sem nokkrir farþegar stigu frá borði. Síðan var haldið áfram til Lúxemborgar og þar var flugvélin hlaðin. Farmurinn var sitt lítið af hverju, vefnaðarvara, blúnduslæður og silkihanskar, postulín, vélarhlutir og margt fleira smálegt, ásamt 18 lifandi hundum í rimlakössum; ennfremur var þar rammlegur trékassi úr óhefluðum viði, sem hafði að geyma líkkistu úr eik. Á málmplötu á loki hennar var skráð: Ester Perry, 1904-1950. Allt þetta átti að flytja vestur um haf, með viðkomu í Reykjavík. Þetta var fyrsta ferð Geysis á vegum Seaboard & Western. Áhafnarmeðlimir voru Magnús Guðmundsson flugstjóri, Dagfinnur Stefánsson flugmaður, Einar Runólfsson vélamaður, Guðmundur Sívertsen loftsiglingafræðingur, Bolli Gunnarsson loftskeytamaður og Ingigerður Karlsdóttir flugfreyja.

Ferðin örlagaríka

Geysir lagði af stað frá Lúxemborg kl. 16.30 að íslenskum tíma, fimmtudaginn 14. september 1950. Gert var ráð fyrir að fljúga aðeins austur af venjulegri leið, sem var norðvestur yfir North Ronaldsay á Orkneyjum, síðan norður yfir Færeyjar, þaðan beina stefnu á Ísland og yfir Vestmannaeyjar og til Reykjavíkur. Þar átti svo að taka eldsneyti og skipta um áhöfn, og átti Jóhannes Markússon að fljúga vélinni til áfangastaðar hennar í Bandaríkjunum. Áætlaði Magnús flugstjóri að lenda í Reykjavík 10 mínútum eftir miðnætti, 15. september. Milli Færeyja og Íslands var þá djúp lægð, og því mjög hvasst suðvestan, bæði við jörð og hátt í lofti. Eftir að komið var í nánd við Færeyjar var eðlilegt loftskeyta- og talsamband við Geysi frá Reykjavíkurflugvelli. Kl. 21.30 taldi áhöfnin sig vera skammt frá Færeyjum og allt var með felldu. Flogið var í 8.000 feta hæð og bjóst flugstjórinn við að koma til Reykjavíkur lítið eitt á undan áætlun. Kl. 22.25 kemur skeyti til flugmálastjórnarinnar í Reykjavík um áætlaðan komutíma kl. 23.30, eða 40 mínútum á undan áætlun. Kveðst flugstjórinn ætla að hafa samband við flugturninn kl. 23.10, þá verði flugvélin komin í nánd við Vestmannaeyjar. Úti var niðamyrkur og allmikil snjókoma, og töluverð ísing fór að hlaðast á flugvélina. Um kl. 22.45 bað Magnús þá Dagfinn og Einar að koma afísingarbúnaðinum í gang. Í þann mund tók Bolli að stilla loftskeytatæki sín og ætlaði að fara að kalla í flugturninn í Reykjavík og Guðmundur var byrjaður að reikna nýja staðarákvörðun. Þetta var á milli kl. 22.45 og 22.50. Þá er eins og Geysir verði fyrir risahöggi, vinstri vængurinn rekst í eitthvað, vélin sviptist fyrst upp og stingst síðan fram á við. Hún virðist kastast langar leiðir, þungur dynur hreyflanna hljóðnar og þögnin tekur við.

Neyðarástandi lýst yfir

Kl. 22.52 sendi flugturninn í Reykjavík eftirfarandi skeyti til Geysis: "Fljúgið í 8.000 fetum á loftþrýstingi 2844 tommmur. Látið okkur vita þegar þið eruð yfir Vestmannaeyjum." Þegar Geysir svaraði ekki eftir ítrekuð boð, varð mönnum ljóst að eitthvað hafði komið fyrir. Í fyrstu var talið að senditæki flugvélarinnar hefðu bilað. Í þeirri von að móttökutækin væru í lagi, tók flugturninn að senda út blint, þ.e. að senda með jöfnu millibili veðurskeyti og upplýsingar um flugskilyrði. Jafnframt hóf útvarpsstöðin á Vatnsenda að senda stöðugan tón, ef vera kynni að flugvélin gæti miðað sig eftir honum. Þannig liðu mínúturnar ein af annarri, án þess að nokkuð spyrðist til Geysis. Nokkrum mínútum eftir miðnætti, föstudaginn 15. september, þótti sýnt, að eitthvert slys hefði hent Geysi og var nú lýst yfir neyðarástandi á flugleið vélarinnar og öllum flugumferðarstöðvum við norðanvert Atlantshaf tilkynnt um hvarf hennar.

Víðtæk leit hafin

Björgunarflugvél frá Keflavíkurflugvelli varð fyrst til að hefja leitarflug; það var kl. 00.53. Um svipað leyti var flokkur manna frá Kirkjubæjarklaustri lagður af stað til leitar niður á sanda, en landssímastöðin hafði fljótlega upp úr miðnætti verið beðin að reyna að vekja upp á símstöðvum á suður- og suðausturströnd landsins til að biðja um að senda út leitarflokka. Kl. 02.13 fer svo Catalina-flugbátur Loftleiða í loftið, með þeirri áhöfn, sem átti að taka við af áhöfn Geysis og fljúga áleiðis til New York. Nokkru á eftir Vestfirðingi eru Gullfaxi og aðrar flugvélar byrjaðar leit. Upp úr því eru fjölmargir leitarflokkar komir af stað víða, og þau skip sem stödd eru á hafinu á því svæði, sem talið var að Geysir hefði verið, eru beðin um að svipast um eftir vélinni. Menn vissu að Geysir hafði eldsneyti, sem nægja átti til flugs til kl. 05.00, en flestir óttuðust þó að vélin hefði farist. Og þegar umræddur tími rann út, þótti augljóst að flugvélin gat ekki verið á lofti, og jafnframt talið líklegast, að Geysir hefði annaðhvort hrapað í sjóinn eða rekist á fjall.

Í birtingu fóru átta íslenskar flugvélar af stað og þrjár björgunarvélar af Keflavíkurflugvelli. Veður var sæmilega bjart, en þoka yfir austanverðu hálendinu og niður í hlíðar Vatnajökuls og því erfið leitarskilyrði. Ítarlegri flugleit varð því ekki komið við þar, en þess í stað leituðu menn á suðurströndinni, við hana og langt á haf út, alls 95 þúsund ferkílómetra svæði, allt austur til Færeyja og þaðan 60 sjómílur suður af venjulegri flugleið til Íslands og 100 sjómílur norður af eðlilegri flugleið. Á sama tíma og upp úr því og síðar eru enn fleiri leitarflokkar komnir af stað á landi til að ganga fjallasvæðin. Leitin stendur allan daginn, en án árangurs.

Dynur í lofti

Kvöldið sem Geysir týndist, þ.e. 14. september, töldu menn í Papey og á mörgum bæjum í Álftafirði eystra sig hafa heyrt í flugvél, og sextán ára drengur á Geithellnum, Ólafur Einarsson að nafni, taldi sig hafa séð bregða fyrir ljósglætu allhátt í lofti, á að giska yfir miðjum botni Álftafjarðar, og kveðst hafa fylgt ljósbjarmanum með augunum um stund. Þetta mun hafa verið um kl. 22.30. Þegar svo hvarf Geysis fréttist þar um morguninn, lætur Elís Þórarinsson, bóndi á Starmýri, flugturninn í Reykjavík vita af þessu. Fannst mönnum syðra þetta ótrúlegt. Engin flugvél önnur átti að hafa verið á lofti á þessu svæði umrætt kvöld, og hefði þetta verið Geysir, merkti það að hann hefði verið kominn um 100 sjómílur af leið. Samt þótti ástæða til að kanna þetta nánar, og var Elís beðinn um að manna leitarflokk til að kanna fjalllendið upp frá botni Álftafjarðar. Voru leitarflugvélar beðnar að lenda í Álftafirði til að spyrja nánar út í það, sem fólkið hafði talið sig heyra. Niðurstaða þeirrar rannsóknar varð sú, að lítill sem enginn vafi var talinn leika á um þetta. Beindi þetta nú athygli manna mjög að ákveðnum svæðum á hálendi landsins, í beinni stefnu af líklegu flugi vélarinnar yfir Álftafirði.

Um miðjan þennan dag fara menn einnig til leitar frá Geithellnum, Múla og Djúpavogi. En ekkert finnst.

Laugardaginn 16. september er áfram leitað, allt frá birtingu og fram á kvöld, og nú á 15 flugvélum og tveimur skipum, ásamt því að flokkar manna ganga á landi. Þrjár flugvélanna voru m.a. frá Keflavík og ein úr danska flughernum. Svæðið sem farið er yfir er um 150 þúsund ferkílómetrar að stærð. Stærstu vélarnar könnuðu hafsvæðið, minni vélarnar fóru aðallega yfir landi, og þær smæstu reyndu að kanna gil og skorninga í fjallaskörðum. Skipin tvö, áðurnefnd, voru Hermóður og Dettifoss.

Sama dag er maður sendur austur í Álftafjörð til að ræða nánar við það fólk, sem taldi sig hafa orðið Geysis vart umrætt kvöld, og fá úr þessu skorið í eitt skipti fyrir öll. Er niðurstaða hans sú, að ekki hafi verið um misheyrn hjá því að ræða.

Sunnudaginn 17. september er mönnum því ljóst orðið, að Geysir hefur flogið yfir Álftafjörð, kvöldið sem hann týndist, og þótti nú víst, að flugvélin hefði nauðlent eða rekist á Vatnajökul eða fjöll norður eða austur af honum. Leitinni var því beint inn á það svæði, eftir því sem hægt var.

Á mánudeginum, 18. september, eftir meira en þriggja daga leit, mátti kalla að hafsvæðið næst fyrir sunnan og austan land, öll suðurströndin og öræfi landsins hefðu verið þrautkönnuð. Einungis var óleitað á norðanverðum Vatnajökli, en þar hafði ekki gefist bjart veður til leitar. Þegar hér er komið sögu er almennt álitið, að Geysir hafi farist með allri áhöfn og engar líkur taldar á, að einhver hafi komist af.

En leitinni er samt haldið áfram.

Neyðarkall frá Geysi

Hinn 18. september voru leitarflokkar bæði á Vatnajökli og í grennd hans, þegar sú fregn barst að Kristján Júlíusson, loftskeytamaður á varðskipinu Ægi, hefði upp úr hádegi þann dag numið veikt neyðarkall frá Geysi. Skipið var þá statt út af Skálum á Langanesi. Í fyrstu heyrði loftskeytamaðurinn veik SOS-merki á morsi á 600 metra bylgjulengd; þetta var kl. 13.15. Litlu síðar (13.35) er byrjað að senda út skeyti auk SOS-merkjanna frá sömu stöð og á sömu bylgjulengd. Tókst honum fyrst að greina stafina CIER, og síðan samfellt QTH UNKNOWN - ALL ALIFE. Hér má geta þess, að neyðarköll voru og eru send á ensku, svo að allir loftskeytamenn skilji skeytin, hverrar þjóðar sem þeir eru. Í fyrstu gat Kristján loftskeytamaður engan veginn ráðið í CIER. En QTH er hins vegar alþjóðleg skammstöfun, sem þýðir staðarákvörðun. Merking þess, sem loftskeytamaðurinn hafði numið, var því: Staðarákvörðun ókunn - allir á lífi. Kl. 13.48 nær hann loks kallmerki stöðvarinnar; það var TF-RVC. Nú var ekki lengur um að villast, þetta var frá Geysi. Kl. 14.45 greindi hann svo orðið YESTERDAY úr nýju skeyti og loftskeytastöðin á Seyðisfirði nam tvö orð úr þessu sama skeyti: OVER US. Þóttust menn nú skilja, að áhöfn Geysis væri að tilkynna, að daginn áður hefði verið flogið yfir slysstaðinn. En menn vissu ekki hvar, því loftskeytamaðurinn áttaði sig ekki á því fyrr en síðar, að CIER var hluti úr orðinu GLACIER, sem merkir jökull.

Skeyti Geysis voru samstundis tilkynnt flugturninum í Reykjavík. Vestfirðingur, sem þá var nýlentur á Reykjavíkurflugvelli eftir árangurslausa leit, fór þá strax í loftið aftur, eftir að tankar höfðu verið fylltir af eldsneyti. Var ætlunin að leita einkum á svæðinu frá Seyðisfirði að Skálum á Langanesi, og ekki hvað síst yfir hafsvæðinu þar, því helst datt mönnum í hug, að Geysismenn hefðu komist í björgunarbát og sent neyðarkallið þaðan. Þegar Vestfirðingur kom vestur undir Vatnajökul, sáu flugmennirnir að bjart var yfir norðurhluta jökulsins, en þar hafði verið þoka allt frá því að Geysir týndist og erfiðast að leita á þeim slóðum vegna þess. Ákvað flugstjórinn að fljúga yfir jökulinn og kanna hann nánar. Þegar vélin er að sveima yfir Bárðarbungu, nyrst á jöklinum, blasti flak Geysis allt í einu við augum, og sex manneskjur á ferli þar í kring. Þegar áhöfn Vestfirðings hafði fullvissað sig um að Geysir væri fundinn, sendi loftskeytamaðurinn svohljóðandi skeyti til flugturnsins: "Höfum fundið TF-RVC á Vatnajökli, allir á lífi." Og skömmu síðar sendi hann annað skeyti: "Bíðum yfir staðnum, þangað til flugvélar koma."

Landsmenn fagna

Þessi fregn barst á svipstundu um landið, og harmur íslensku þjóðarinnar snerist í einu vetfangi í ákafa gleði. Fánar voru dregnir að húni og það ríkti hálfgerð þjóðhátíðarstemmning. Ekki liðu margar mínútur frá skeyti Vestfirðings, þar til spjald var sett út í glugga Kaffistofunnar í Austurstræti, og á því stóð: "Geysir fundinn - ókeypis kaffi." Og fleiri veitingahús gerðu hið sama.

Fjöldi heillaskeyta tók nú að berast til Loftleiða, m.a. frá Sveini Björnssyni, forseta Íslands.

Meðan þetta var að gerast sveimaði Vestfirðingur yfir flaki Geysis. Sást áhöfnin mynda stafina O.K. í snjóinn og gefa þannig til kynna, að allt væri í lagi, ekkert þeirra lífshættulega slasað. Svo myndaði áhöfn Geysis stafina QTH, og bað þannig um að fá að vita hver þessi staður væri. Menn teiknuðu í snarhasti á blað kort af Vatnajökli og merktu þar inn á slysstaðinn, og fleygðu blaðinu ásamt ýmsu smálegu matarkyns niður til áhafnar Geysis, sem var eftir það nokkru fróðari um eigin hagi. Geysir hafði tekið niðri suðaustan í Bárðarbungu, á mesta jökli landsins og einu víðáttumesta jökulhveli jarðar utan heimskautalanda. Nákvæm staðsetning var 64° 36" N og 17° 21" V.

Björgunarvélin úr Keflavík, sem var á sveimi yfir Vatnajökli, þegar Vestfirðingur fann Geysi, kom nokkru síðar á vettvang og hnitaði einnig yfir flakinu. Í henni var góður búnaður og tóku flugmenn að varpa ýmsu niður til Geysismanna, s.s. matvælum og fatnaði. Síðan komu fleiri vélar, bæði úr Reykjavík og Keflavík, með alls kyns útbúnað til fólksins á jöklinum, þ.ám. talstöð. Fallhlífamenn voru tiltækir, ef vera kynni að aðstoða þyrfti áhöfn Geysis, en nú þótti ekki ástæða til að láta þá svífa niður á jökulinn.

Eftir um 2½ klukkustunda hringflug yfir Geysi, sneri Vestfirðingur til Reykjavíkur. Leitinni að TF-RVC var nú lokið og öllum hlutaðeigandi tilkynnt það.

Eftir að talsamband hafði náðst við áhöfn Geysis, var hún beðin um að halda sig við flakið, en reyna ekki að komast á eigin spýtur niður af jöklinum. Það væri of hættulegt. Jafnframt var þeim tilkynnt, að ráðgert væri að senda leiðangur frá Akureyri til bjargar.

Í rökkrinu héldu flugvélarnar nú heimleiðis til Reykjavíkur, ein af annarri og lentu þar í myrkri. En áhöfn Geysis bjó sig til einnar næturvistar enn á næsthæsta fjalli landsins, Bárðarbungu í Vatnajökli, 2.010 metra yfir sjávarmáli.

Björgunarleiðangurinn

Um leið og það spurðist að Geysir væri fundinn var hafist handa um að athuga hvernig best væri að koma áhöfninni af Vatnajökli. Bauðst Kristinn Jónsson, umboðsmaður Flugfélags Íslands á Akureyri, til að skipuleggja björgunarleiðangur til uppgöngu á jökulinn. Var það boð hans jafnskjótt þegið og voru þeir Einar Pálsson verkfræðingur og Sigurjón Rist frá Akureyri fengnir til aðstoðar flugumferðarstjórn við nánari útfærslu þessa. Að kvöldi 18. september lagði svo 15 manna leiðangur jökulfara, undir stjórn Þorsteins Þorsteinssonar, framkvæmdastjóra Ferðafélags Akureyrar, af stað frá Akureyri og var ferðinni heitið að Fosshóli í Bárðardal og síðan upp í Mývatnssveit, þaðan sem ráðgert var að leggja af stað á öræfin síðla nætur, 19. september. Voru þeir á fimm jeppum og einum vörubíl, sem hlaðinn var bensíni, olíu, viðgerðartækjum, skíðum leiðangursmanna og ýmsum öðrum varningi.

Fyrr um daginn hafði átta manna leiðangur Reykvíkinga, sem var nýkominn frá rótum Vatnajökuls á fjórum vel útbúnum jeppum, boðið fram aðstoð sína og var hún þegin. Óku þeir jeppum sínum úr Bárðardal til Akureyrar, og létu smyrja þá, og héldu síðan að Fosshóli, og sameinuðust þar leiðangri norðanmanna. Um miðnættið eru leiðangursmenn, 23 talsins, komnir í Reykjahlíð við Mývatn, þar sem þeir snæða og hvílast og ráða ráðum sínum. Á Akureyri hafði verið ráðgert að fara vesturleiðina svokallaða, þ.e.a.s. halda frá Reykjahlíð að Grænavatni og þaðan suður á bóginn allt til jökulsins, um Suðurárbotna og fjalllendið vestan Dyngjufjalla. En Reykvíkingarnir, sem voru nýkomnir úr Gæsavötnum, sögðu mikla vatnavexti og blota á þeirri leið. Eftir nokkrar vangaveltur er ákveðið að fara austurleiðina á öræfin, þ.e.a.s. um Herðubreiðarlindir, Upptyppinga, Vaðöldu og sandana norðan Vatnajökuls, allt að Kistufelli. Hún var lengri, en þurrari og greiðfærari.

Eftir örlitla hvíld er lagt af stað frá Reykjahlíð upp úr kl. 05.00. Tólf klukkustundum síðar, um kl. 17.00, er leiðangurinn kominn upp í Kistufellskrika, þ.e.a.s. milli jökulrandarinnar og Kistufells, og þar slá menn upp tjaldbúðum og hafa bækistöð sína. Voru þá 170 km að baki og ekki hægt að koma bílunum lengra. Tveir leiðangursmanna, Tryggvi Þorsteinsson skátaforingi og Jón Sigurgeirsson, lögreglumaður frá Helluvaði í Mývatnssveit, eru sendir upp á jökulinn til að taka mið á slysstaðinn og merkja leiðina þangað, og koma þeir aftur í tjaldbúðirnar um kvöldið.

Skíðaflugvél til bjargar

Sama kvöld og leiðangur norðan- og sunnanmanna er að fara af stað upp í Mývatnssveit, kemur boð frá Keflavíkurflugvelli til yfirstjórnar leitarinnar, um að bandaríski herinn sendi skíðaflugvél til að sækja áhöfn Geysis á jökulinn. Ákveðið er að þiggja boðið, en bandaríska flugvélin er þá á Grænlandi, svo að hún er ekki komin til Keflavíkur fyrr en um kl. 16.00 daginn eftir, 19. september. Þar tekur hún eldsneyti og býst svo til ferðar austur. Í áhöfn hennar eru þrír Bandaríkjamenn og í för með þeim slæst Sigurður Jónsson, forstöðumaður Loftferðaeftirlitsins. Í fylgd með skíðavélinni er einnig björgunarvél frá Keflavíkurflugvelli og nokkrar aðrar að auki, sem m.a. hafa blaðamenn og ljósmyndara innanborðs. Vestfirðingur tekur að sér hlutverk leiðsöguvélar. Alls eru sex flugvélar í þessum leiðangri.

Áhöfn Geysis hafði áður verið sagt frá þessari fyrirætlan og hún jafnframt beðin um að merkja flugbraut á jöklinum. Lending skíðaflugvélarinnar tekst með ágætum og innan skamms er áhöfn Geysis komin um borð, albúin til heimferðar. Um kl. 18.00 er flugtak reynt, en það misheppnast. Skíðin virðast límast við snjóinn og vélin hefur ekki þann kraft, sem nauðsynlegur er til að vinna bug á því, þrátt fyrir að vera útbúin þrýstiloftsrakettum til nota við slíkar kringumstæður. Er skemmst frá því að segja, að flugmennirnir verða að gefast upp við svo búið, og áhöfn Geysis þarf að gista eina nóttina enn á jöklinum, ásamt þeim, sem í skíðaflugvélinni komu.

Lagt til uppgöngu á jökulinn

Um það leyti sem skíðaflugvélin er að reyna flugtak, er leiðangursmönnum, sem þá eru staddir við rætur Kistufells, tilkynnt að búið sé að bjarga áhöfn Geysis. Þeir eru samt beðnir um að halda áfram för á jökulinn, og bjarga verðmætum farmi vélarinnar. Þetta hleypir illu blóði í mennina. Einn þeirra, Haukur Snorrason, ritaði síðar um þetta eftirfarandi: "Virtust þeir, sem málum stýrðu í Reykjavík, ekki gera sér grein fyrir því, hver aðstaða var þarna til björgunar, og að það væri aðeins meðal spássértúr að ganga tugi kílómetra á skíðum á bungu Vatnajökuls."

Er nú rætt um að snúa við og halda til byggða. En þegar síðar um kvöldið er varpað niður tilkynningu um, að björgunarflugið hafi misheppnast, og leiðangur norðan- og sunnanmanna beðinn um að halda áfram til bjargar áhöfn Geysis, er ákveðið að ráðast til uppgöngu á jökulinn í birtingu og halda inn að flakinu.

Um miðja nótt var byrjað að undirbúa sjálfa jökulgönguna og níu leiðangursmenn valdir úr til að fara alla leið inn að flaki Geysis á Bárðarbungu, en nokkrir félagar þeirra áttu að létta undir með þeim áleiðis, og halda síðan niður í búðirnar aftur. Kl. 04.00 lagði 13 manna hópur af stað í þessa ferð. Fararstjóri var Tryggvi Þorsteinsson. Var farið meðfram Kistufelli upp á hájökul, gengið þaðan á slysstaðinn. Jón Sigurgeirsson hefur ritað um þetta athyglisverða frásögn. Orðrétt segir hann:

"Klukkan þrjú að morgni þess 20. september vakti Þorsteinn mig til að sækja vatn í morgunkaffið. Það var þreifandi náttmyrkur, norðaustanátt og þoka og ýrði úr lofti ísingu. Ég skreið upp úr hreindýraskinnspokanum glóðheitur og hress, klæddi mig sem best ég gat, og dró loðhúfu niður fyrir eyru. Ég tók klökuga mjólkurskjólu, vasaljós og haka og slangraði upp að jökulröndinni. Þar sást hvergi vatnsdropi en eitthvað heyrðist sitra undir klakanum. Þorsteinn Svanlaugsson kom mér til hjálpar og hélt á vasaljósinu meðan ég hjó holu sem fljótlega fylltist af jökullituðu skólpi. Veðurútlit og barometerstaða gerði það að verkum að menn bjuggu sig í hálfgerðu ráðaleysi. Það var vonlaust að ráðast til jökulgöngu í svona dimmviðri, ekki var heldur hægt að bíða.

Fyrir birtingu lagði heldur óhress hópur af stað upp Kristufellsbrekku. Allir voru með skíði á öxlum og smápoka á baki, smámatarbita, sokkaplögg og einhver drykkjarföng, mjög af skornum skammti. Ekkert hitunartæki eða ljósfæri var með eða nokkuð til að miðla öðrum af. Okkur hafði verið sagt að Geysisfólkið hefði allt til alls og biði bara komu okkar. Eftir stikunum röktum við leiðina frá kvöldinu áður upp á hábrún fellsins. Þá skeði það sem ég gleymi aldrei. Sólin komin upp og heiðríkt að sjá inn á jökul, hamingjan var með okkur...

Þokubelti lá upp í mitt Kistufell og breiddi sig inn á jökulinn. Við bundum upp skíðin og stungum okkur inn í þokuna á ný. Njólafeyskjum og ull úr Reykjahlíð var dreift við slóðina sem lá í krókum um jökulstrýtur næst fellinu. Brátt komum við út úr þokunni á sóllýsta frannbreiðuna og gengum í sporaslóð með fremsta mann ávallt í kaðli.

Við höfðum óljósan grun um að vera ekki meira en svo velkomnir á slysstað. Björgunin átti að koma að sunnan og vera eitthvað tæknilegri en við höfðum upp á að bjóða. Klukkan var farin að ganga 11 þegar yfir okkur flaug vélin Vestfirðingur og kastaði niður þeim skilaboðum að við hefðum rétta stefnu, og klukkan 11.30 yrði skotið á loft svifblysi af slysstað. Eins og áður er sagt átti fólkið að sitja í allsnægtum. Manni datt í hug að það sæti í stoppuðum stólum, í baðstofuhita og væri að spila Ólsen Ólsen meðan það beið komu okkar.

Við sáum blysið og komum klukkustund síðar á slysstaðinn."

Ömurleg aðkoma

Þetta var um kl. 14.00 og jöklafararnir þá búnir að vera á göngu í 10 klukkustundir. Um það sem blasti við ritar Jón:

"Fólkið kom á móti okkur og heilsast var með faðmlögum. Þarna var ömurlegt um að litast, vængjalaus flugvélarskrokkur eins og snævi drifinn fjallgarður, en mótorar, vængir og allskonar varningur lá dreift um jökulinn, að hálfu leyti fennt í kaf. Margraddað hundaspangól lét illa í eyrum en aumast var þó að sjá fólkið sjálft, vafið og dúðað í allskonar efni, með blóðhlaupin augu, marið í andliti og blátt af kulda, í frostnæðingnum. Því var nú gefinn kostur á að setjast inn í björgunarvélina sem albúin var, til að reyna að komast á loft. "Ég fer ekki, ég fer ekki," kvað við hjá fólkinu... Einn af áhöfninni fékkst þó til að fara inn í vélina. Reynslan frá deginum áður, þegar vélin komst ekki á loft, skapaði fólkinu hræðslu og óvissu og fannst sér best borgið undir handleiðslu okkar komumanna...

Í öllum þeim forvitnisferðum sem flugvélar höfðu sveimað yfir fólkinu hafði láðst að koma til þess raunhæfum jöklabúnaði... Það hafði að vísu fengið smá prímus, algerlega ónothæfan, svo og baukamat, vítamínstöflur, súkkulaði og smá vatnsbrúsa, skíði og skíðaskó en of lítið af brúklegum skjólfatnaði. Vistin á jöklinum var óþolandi. Fólkið hélt til í bol vélarinnar sem lá á hvolfi, hurðir voru á bak og burt og dyrnar of stórar til að hægt væri að byrgja þær. Skafrenningur átti greiðan aðgang, en bót var það í máli að þarna inni var mikið af álnavöru og taui ýmiskonar sem fólkið jafnaði undir sig og hafði skjól af. Ingigerður hafði stagað saman úr þykku efni svefnpoka sem rúmaði þau öll. Vatnsbaukana þíddu þau við líkamshita og hjuggu sundur frosnar kjötdósir með exi."

Gengið af jökli

Eftir að þriðja flugtakstilraun skíðavélarinnar hefur misheppnast, og ljóst að áhöfn Geysis verður að fara á annan hátt af jöklinum. Skíðabúnaði hafði áður verið varpað niður til áhafnarinnar, og kom hann nú í góðar þarfir. Kl. 16.00 þennan dag leggja jökulfararnir og áhöfn Geysis, sem og Sigurður Jónsson, því af stað áleiðis að bækistöð leiðangursins við Kistufell. Bandarísku flugmennirnir hafa ekki leyfi yfirmanna sinna til að yfirgefa skíðaflugvélina og verða því eftir.

En um klukkustund síðar kemur beiðni til hópsins, um að leyfa bandarísku flugmönnunum að vera með í för niður af jöklinum. Eru tveir leiðangursmanna, Þórarinn Björnsson úr Reykjavík og Þorsteinn Svanlaugsson frá Akureyri, sendir til baka að sækja þá. Og um kl. 19.00 leggja þeir af stað niður af jöklinum öðru sinni, og áttu eftir að lenda þar í kröppum dansi, að ekki sé fastar að orði kveðið, því bandarísku flugmennirnir voru illa undir slíka ferð búnir og litlu munaði að þeir gæfust upp. Allt fór þó vel að lokum. Um þessa ferð með Bandaríkjamennina hefur Þórarinn Björnsson sjálfur ritað, og er sú frásögn hans birt í ramma með þessari grein.

En skemmst er frá því að segja, að ferðin af jöklinum var erfið og ekki bættu nístingskuldi og jökulþoka úr skák. Fyrstu leiðangursmenn náðu til bækistöðvanna um miðnættið, en það er ekki fyrr en um kl. 07.00 morguninn eftir, þ.e.a.s. 21. september, að allir eru komnir niður í tjaldbúðirnar. Lengst allra björgunarmanna á jökulgöngunni var títtnefndur Þórarinn Björnsson, í 26 klukkustundir samtals, og þótti mikið afrek að halda slíkt út, við þær aðstæður sem ríktu.

Haldið til byggða

Meðan á för leiðangursins niður af jöklinum stóð, höfðu möguleikar þess að lenda flugvél nærri búðunum verið kannaðir og komust menn að því, að slíkt væri gerlegt. Strax í birtingu 21. september fóru tvær vélar austur, í þeim tilgangi að sækja áhöfn Geysis. Um kl. 09.00 tókst þeim að lenda á söndunum við upptök Jökulsár á Fjöllum, um 8 km frá tjaldbúðum leiðangursins við Kistufell. Allt gekk að óskum. Um borð í flugvélarnar stigu áhöfn Geysis, bandarísku flugmennirnir og Sigurður Jónsson. Í Reykjavík lentu vélarnar um kl. 11.00, og var fjöldi manns þar samankominn til að fagna áhöfn Geysis. Þá vantaði ekki nema örfáar klukkustundir upp á, að liðin væri vika frá því að hún hefði að öllu eðlilegu átt að lenda í Reykjavík.

En leiðangur norðan- og sunnanmanna ók norður óbyggðirnar, með Akureyri sem áfangastað. Og þangað var komið upp úr miðnætti, 22. september.

Opinber rannsókn

En raunum áhafnar Geysis var ekki lokið, því nú fór í hönd rannsókn á slysinu. Í áliti rannsóknarnefndar flugslysa segir orðrétt:

"Nefndin hefir á fundum sínum reynt að vinna úr þeim fáu gögnum, sem fyrir hendi eru varðandi leiðsögu flugvélarinnar frá Lúxemborg og þar til hún lendir á Vatnajökli. Gögn þessa eru næsta fátækleg, en þó hefir verið hægt með aðstoð þeirra og við yfirheyrzlur að mynda sér skoðun um hvernig á því stóð að flugvélin var þetta langt af leið, og svona illa tókst til."

Í niðurlagi segir eftirfarandi: "Sú niðurstaða, sem nefndin hefir komizt að við rannsókn þessa, er, að frumorsök slyssins hafi verið siglingaskekkja. Í öðru lagi verður meðverkandi ástæða slyssins að teljast sú, hversu seint flugstjórnarmiðstöðin í Reykjavík sendi flugvélinni fyrirskipun um að breyta um hæðamælisstillingu."

Eins og fram kemur í rammaviðtali hér við Magnús Guðmundsson flugstjóra þykir honum rannsóknin hafa verið bæði einföld og ófullkomin; ekkert kannað hvort verið gæti, að tækin í flugvélinni hafi verið í ólagi, eða sendingum lóranstöðvanna eitthvað ábótavant á þessum tíma, eða hvort veðrið hafi sett strik í reikninginn, en "mjög erfitt var að lesa merkin frá stöðvunum þegar maður var í skýjum og úrkomu." Og þegar málið fór síðan í gegnum dómskerfið, var Magnúsi skipaður verjandi, sem aldrei hafði þó samband við hann.

Dómur

Tveir úr áhöfn Geysis, þeir Guðmundur Sívertsen loftsiglingafræðingur og Magnús Guðmundsson flugstjóri, sem og flugumferðarstjórinn, sem verið hafði á vakt kvöldið sem Geysir týndist, Arnór Kristján Hjálmarsson, voru sóttir til saka fyrir brot gegn 4. mgr. 42. gr. laga nr. 32/1929 og 219. gr. laga nr. 19/1940.

Hinn 16. júní 1951 féll úrskurður héraðsdóms. Guðmundur skyldi greiða 3.000 krónur í sekt og missa flugleiðsögumannsréttindi sín ævilangt. Magnús skyldi greiða 2.000 krónur í sekt og missa flugmannsréttindi sín í 6 mánuði. En Arnór skyldi vera sýkn.

Málið fór í hæstarétt, og hinn 24. nóvember 1952 féll dómur hans.

Guðmundur missti atvinnuréttindi sín ævilangt, eins og héraðsdómur hafði úrskurðað, og var að auki gert að sæta fjögurra mánaða varðhaldi. Sektargreiðslan var hins vegar felld niður. Hvað snertir Magnús Guðmundsson flugstjóra, var talið "að honum hefði borið að fylgjast betur en hann gerði með staðsetningum og leiðarreikningi flugvélarinnar og fullvissa sig um, eftir að flugvélin tók að nálgast landið, að hún væri örugglega ofar öllum fjöllum. Með því að gæta ekki skyldu sinnar um þetta hefur hann orðið samvaldur að slysinu." Var hann dæmdur í hærri fjársekt en áður, eða 4.000 krónur, en ákvæði héraðsdóms um að hann skyldi tímabundið sviptur flugmannsréttindum ekki staðfest.

Flugumferðarstjórinn var hins vegar, eins og í héraðsdómi, sýknaður af ákærum um vanrækslu í starfi. Er ekki laust við að það sé dálítið á skjön við áðurnefnda niðurstöðu rannsóknarnefndar flugslysa, enda má heyra nokkurn afsökunartón í dómi hæstaréttar, en þar segir: "Samkvæmt fyrirmælum um framkvæmd starfa hans bar honum að vísu að leggja fyrir flugvélina Geysi að hækka flug sitt, fyrr en hann gerði. En þar sem hann gat ekki vænzt þess, að flugvélin væri komin eins langt af réttri leið og raun varð á, þykir ekki vera svo náið orsakasamband milli þessarar vangæzlu hans og ófara flugvélarinnar, að honum verði að lögum gefin orsök á slysinu."

Lokaorð

Með niðurstöðu rannsóknarnefndar flugslysa í huga, sem og niðurstöðu dómskerfisins, er fróðlegt að endingu að lesa það, sem Trausti Jónsson veðurfræðingur ritaði með veðurkorti því, sem hann var beðinn um að teikna upp í tilefni þessarar umfjöllunar um Geysisslysið, og er fellt inn í annað kort, þar sem jafnframt er sýnt flug vélarinnar til og frá Lúxemborg. En orðrétt segir Trausti:

"Mér sýnist nokkuð einfalt hvað gerst hefur. Mjög djúp lægð var rétt norðan Færeyja. Reyndar með dýpstu lægðum á þessum árstíma, 953 hPa í lægðarmiðju. Sennilega hefur hún því verið dýpri en menn reiknuðu með þegar vélin lagði af stað og vindur sunnan- og suðaustan lægðarmiðjunnar verið umtalsvert meiri en reiknað var með.

Mér sýnist að vindurinn sunnan og suðaustan við lægðarmiðjuna hafi verið allt að 40 m/s af suðvestri, sem gæti verið 10-20 m/s meira en reiknað var með. Þetta hefur verið nóg til að færa vélina lítils háttar af leið þannig að hún hefur í raun farið annaðhvort til norðnorðvesturs skammt austur af Færeyjum eða yfir þeim. Síðan er dálítið svæði með tiltölulega hægri austanátt norðan lægðarmiðjunnar en aftur á móti mikill norðaustanstrengur yfir Íslandi, sem hefur gætt sérstaklega eftir að vélin fór að lækka flugið. Mér sýnist líklegt að vindur yfir Vatnajökli hafi verið af norðaustri og á bilinu 30-35 m/s.

Í Hornafirði er skýjarof, sjálfsagt mikil fjallabylgjuský yfir og sömuleiðis vestur með suðurströndinni og vestur á land. Yfir Vatnajökli sjálfum og öllu svæðinu þar fyrir austan og norðaustan var mikill kólgubakki með talsverðri rigningu. Hlýtt var sunnan jökla og kl. 18.00 var 13 stiga hiti á Fagurhólsmýri. Í Möðrudal var hitinn þá 4 stig í rigningu. Mér sýnist því næsta víst að vélin komi úr austnorðaustri (kannski úr 80°) inn til lendingarinnar á Bárðarbungu eftir að hafa verið í kólgubakka mikið til frá Færeyjum. Niðurstaða mín er sumsé sú að óvenjulegur (þ.e. miðað við árstíma), snarpur og óvæntur vindstrengur hafi borið vélina dálítið af leið með þeim afleiðingum að hún kom að landinu yfir Berufirði (eða svo) í stað Mýrdals."