Líklegt talið að Ryzhkov víki vegna ágreinings Moskvu. DPA. Daily Telegraph.

Líklegt talið að Ryzhkov víki vegna ágreinings Moskvu. DPA. Daily Telegraph.

MÍKHAÍL Gorbatsjov, leiðtogi sovéska kommúnistaflokksins, sagði í gærkvöldi að tekist hefði að semja áætlun um innleiðingu frjáls markaðskerfis í Sovétríkjunum og yrðu þing lýðveldanna að samþykkja hana auk sovéska þingsins. Talið var að nú kynni að hitna undir Níkolaj Ryzhkov forsætisráðherra sem er sagður í aðal atriðum andvígur þeirri áætlun sem fyrir liggur.

Ryzhkov sagði að samþykkti sovéska þingið áætlun um einkavæðingu sem stjórnin styddi ekki ætti hún ekki annarra kosta völ en fara frá. Gorbatsjov sagði að áætlunin sem fyrir liggur sé aðmestu byggð á tillögum hagfræðingsins Stanislavs Sjatalíns en einnig væri þar að finna tillögur forsætisráðherrans og annarra sérfræðinga. Hefjast umræður um áætlunina í þinginu næstkomandi mánudag.

Ryzhkov lagðist gegn áætlun Sjatalíns í fyrradag og sagði hana hafa í för með sér óðaverðbólgu, atvinnuleysi og mun þrengri kjör fyrir landslýð. Hét hann því að stjórn sín myndi ekki hrinda í framkvæmd áætlun sem hún hefði enga trú á.

Í viðtali við austurríska sjónvarpið í fyrrakvöld sagðist Ryzhkov óttast að Sovétríkin liðist í sundur náist ekki samkomulag um efnahagsumbætur, en áætlun hans kveður á um mun hófstilltari umskipti á vettvangi sovéskra efnahagsmála en tillögur Sjatalíns.

Sjá "Foringjar í Rauða hernum kunna að . . . " á bls. 25.