Í dag eru liðin 130 ár frá fæðingu Jónasar Kristjánssonar læknis, brautryðjanda náttúrulækningastefnunnar og helsta hvatamanns að stofnun Náttúrulækningafélags Íslands, en það var að hans frumkvæði sem Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði, áður Heilsuhæli NLFÍ, tók til starfa í júlí 1955. Jónas Kristjánsson fæddist á Snæringsstöðum í Svínadal 20. september 1870 og lést í Heilsuhæli NLFÍ í Hveragerði 3. apríl 1960.

Það var árið 1881 þegar Jónas var 11 ára gamall, að móðir hans dó, aðeins 40 ára að aldri, frá átta börnum og eiginmanni. Móðurmissirinn varð til þess að Jónas hét því að verða læknir og verja lífi og kröftum til líknar og hjálpar öllum þeim sem þjást. Með dugnaði og þrautseigju lauk hann ætlunarverki sínu en hann lauk læknanámi 1901 en það sama ár giftist hann Hansínu Benediktsdóttur, dóttur séra Benedikts Kristjánssonar á Grenjaðarstað, sem studdi hann með ráðum og dáð til mennta en Jónas var bróðursonur Benedikts.

Læknishjónin settust fyrst að á Austurlandi og bjuggu lengst af að Brekku í Fljótsdal. Jónas ávann sér fljótt virðingu og hylli fyrir störf sín, en hann var talinn einhver fremsti skurðlæknir sinnar samtíðar. Jónas var skipaður héraðslæknir á Sauðárkróki 1911 og var vel látinn af samferðafólki sínu og minnast margir aldnir íbúar Sauðárkróks hans með hlýju og virðingu. Honum voru öll framfararmál hugleikin og lagði hann víða hönd á plóg til góðra verka. Þá sat hann á Alþingi um skeið en þann tíma taldi hann tímasóun og leiðinlegasta tímabil ævinnar. Jónas kom víða við, hann átti þátt í því að vatnsveita var lögð til Sauðárkróks, hann var einn af stofnendum Framfararfélags Sauðárkróks og forseti þess meðan hans naut við, hann stóð að stofnun skátafélagsins Andvara 1922 og stofnaði Tóbaksbindindisfélag Sauðárkróks 1929 og var því frumkvöðull í tóbaksvörnum hér á landi, eins og í svo mörgum öðrum málum. Mesta afrek Jónasar á þessum árum var þó framganga hans í því að koma á samgöngubanni yfir Holtavörðuheiði þegar spænska veikin gekk yfir landið.

Jónas lét af embætti héraðslæknis 1938 og fluttust þau hjónin þá til Reykjavíkur en börn þeirra fjögur voru þá flutt að heiman en tvær dætur þeirra hjóna eru enn á lífi, Ásta og Guðbjörg Birkis.

Því hefur verið haldið fram, að hið eiginlega ævistarf Jónasar hafi byrjað eftir að hann lauk störfum sem embættismaður tæplega sjötugur að aldri og fluttist suður. Síðustu 20 ár ævinnar vann hann að því að kynna náttúrulækningastefnuna, sem hann hafði heillast af á ferðum sínum erlendis, en stefnunni kom hann fyrst á framfæri á fundi Framfarafélags Sauðárkróks 1923. Jónas stóð að stofnun Náttúrulækningafélags Íslands á Sauðárkróki 5. júlí 1937. Hann vildi bæta heilsu og auka lífsgæði þjóðarinnar með heilbrigðum lífsháttum. Hann boðaði engar flóknar aðferðir en gerði grein fyrir ýmsum valkostum í mataræði, hreyfingu og almennum lífsháttum. Allar áherslur hans snerust um heilbrigði og hvernig auka mætti mótstöðu líkamans gegn sjúkdómum. Hann talaði oft fyrir daufum eyrum og mátti þola harkalega gagnrýni, m.a. frá starfsbræðrum samtímans sem gerðu lítið úr hugmyndafræði hans um samspil heilsufars og heilbrigðra lífshátta. Til gamans má geta þess að þetta var á þeim tíma þegar tóbak var auglýst í Læknablaðinu. Í dag lesum við orð Jónasar Kristjánssonar læknis í stefnu Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar um heilbrigði fyrir alla árið 2000.

Í minningargrein um Jónas sagði Björn L. Jónsson, náinn samstarfsmaður hans og síðar yfirlæknir Heilsuhælisins m.a.: "Hefði Jónas Kristjánsson farið troðnar slóðir, mundi nafn hans hafa geymst sem eins vinsælasta og besta læknis síns tíma og sem öðlings í hvívetna. En nú hverfa þessir kostir í skuggann fyrir því brautryðjandastarfi, sem hann helgaði síðari hluta langrar starfsævi."

Boðskapur Jónasar Kristjánssonar átti ekkert skylt við óraunhæfa draumóra. Heilsutrúboð hans, en það orð var stundum notað um kennningar hans í niðrandi merkingu, var trúin á það eða öllu heldur fullvissan um það að með ábyrgum og heilsusamlegum lífsháttum öðlist menn heilbrigt og farsælt líf. Þessi sannfæring hans studdist við sterk rök og einnig órækar sannanir. Og hér voru þær bornar fram af heilsteyptum mannvini, af hugsjónamanni í sönnustu merkingu þess orðs.

Í ávarpi Jónasar sem birtist í fyrsta hefti Heilsuverndar, tímarits NLFÍ, árið 1946 segir hann m.a.: "Náttúrulækningastefnan lítur svo á, að flestir sjúkdómar stafi af því, að vér brjótum lögmál þau eða skilyrði, sem fullkomnu heilbrigði er háð. Vísindi framtíðarinnar eiga án nokkurs vafa eftir að sýna fram á þessa staðhæfingu þegar vísindamönnum þjóðanna ber sú gæfa til, að leita orsaka sjúkdóma í stað þess að huga nær eingöngu að meinunum sjálfum. Til þess að skapa heilbrigt og dugandi þjóðfélag, þarf andlega og líkamlega heilbrigða þegna. Undirstaða heilbrigðinnar eru réttir lifnaðarhættir og rétt fræðsla. En heilsurækt og heilsuvernd þarf að byrja, áður en menn verða veikir. Æsku landsins á að uppfræða um lögmál heilbrigðs lífs. Í þessu starfi þurfa allir hugsandi menn að taka þátt, allir góðir synir og dætur fósturjarðar vorrar verða að telja það sína helgustu skyldu að vernda heilsu sína ættjörðinni til handa. Og takmark allra þarf að vera það, að deyja frá betri heimi þeir fæddust í."

Jónas Kristjánsson læknir var langt á undan sinni samtíð þegar hann barðist fyrir heilbrigðum lífsháttum landsmanna. Hann lagði sín lóð á vogarskálarnar í því skyni að gera fólki ljóst að heilsuna beri að virða og öllum sé skylt að líta í eigin barm og tileinka sér einkunnarorð Náttúrulækningafélags Íslands: "Berum ábyrgð á eigin heilsu."

Blessuð sé minning Jónasar Kristjánssonar læknis.

Gunnlaugur K. Jónsson.

Gunnlaugur K. Jónsson.