Tímamótasáttmáli í sögu Evrópu undirritaður í Moskvu: Friðargjörð Fjórveldanna og sameinaðs Þýskalands Formleg endalok skiptingar Evrópu Moskvu. Reuter, dpa.

Tímamótasáttmáli í sögu Evrópu undirritaður í Moskvu: Friðargjörð Fjórveldanna og sameinaðs Þýskalands Formleg endalok skiptingar Evrópu Moskvu. Reuter, dpa.

UTANRÍKISRÁÐHERRAR Fjórveldanna; Frakklands, Bretlands, Bandaríkjanna og Sovétríkjanna og þýsku ríkjanna tveggja undirrituðu í gær í Moskvu tímamótasáttmála um stöðu sameinaðs Þýskalands á alþjóðavettvangi. Samningurinn er í senn friðarsáttmáli milli sigurvegaranna í síðari heimsstyrjöldinni og Þýskalands og markar jafnframt formleg endalok skiptingar Evrópu en kaldastríðið milli austurs og vesturs spratt af henni.

Samningaviðræður um samruna þýsku ríkjanna tóku aðeins sjö mánuði, sem þykir með ólíkindum skammur tími í ljósi þess að sameining Þýskalands umbyltir með formlegum hætti valdajafnvæginu, sem ríkti í Evrópu frá ofanverðum fimmta áratugnum og þar til síðasta haust er Berlínarmúrinn féll og valdakerfi kommúnista hrundi í ríkjunum austan Járntjaldsins. Sovétstjórnin freistaði þess í hvívetna að hafa áhrif á bæði hvernig staðið yrði að sameiningu Austur- og Vestur-Þýska lands og framtíðarstöðu landsins á vettvangi öryggis- og varnarmála en féll að lokum frá helstu kröfum sínum. Þýskaland hið nýja verður eitt af aðildarríkjum Atlantshafsbandalagsins (NATO), leyfilegur hámarksherafli verður 370.000 menn og Þjóðverjar hafa lýst yfir því að þeir ætli hvorki að eignast efna- og kjarnorkuvopn né framleiða þau. Að sögn vestur-þýskra embættismanna er sérstakt viðbótarákvæði að finna í samningnum þess efnis að Þjóðverjar skuldbindi sig til að virða hagsmuni ríkjanna sem að sáttmálanum standa þegar teknar verða ákvarðanir m.a. varðandi æfingar og viðbúnað NATO-hersveita í Þýskalandi. Var með þessum hætti komið til móts við kröfur Sovétstjórnarinnar en sovéskir ráðamenn höfðu lýst yfir því að heræfingar á landsvæði því sem nú heyrir AusturÞjóðverjum til, fyrrum bandamönnum þeirra innan Varsjárbandalagsins, gætu ógnað öryggishagsmunum ríkisins. Þjóðverjar munu hins vegar greiða þann kostnað sem hlýst af heimkvaðningu um 360.000 sovéskra hermanna frá Austur-Þýskalandi, samtals tæpa 500 milljarða ísl. kr.

Míkhaíl S. Gorbatsjov, leiðtogi sovéska kommúnistaflokksins, var viðstaddur undirskriftina sem fram fór á Oktíjabrskaja-glæsihótelinu í Moskvu. Sjálf athöfnin tók aðeins fimm mínútur og undirritaði Hans-Dietrich Genscher, utanríkisráðherra Vestur-Þýskalands, samninginn fyrstur. Síðan stungu menn kínversku lindarpennunum í brjóstvasann og skáluðu í kampavíni.

Í ræðu sem Genscher flutti áðuren sáttmálinn var staðfestur gerði hann að umtalsefni ógnarstjórn Adolfs Hitlers, sem kallaði dauða og eyðileggingu yfir ríki Evrópu og forsmáði helgasta rétt gyðinga í álfunni. Genscher rifjaði upp valdatöku Hitlers í Þýskalandi og sagði: "Þann 30. janúar 1933 féll skuggi fasismans yfir Þýskaland. Á þessari stundu rifjum við upp þær óendanlegu þjáningar sem fólk varð að líða og þá ekki eingöngu ríkisborgarar þeirra ríkja sem við erum hér í forsvari fyrir. Hugur okkar leitar einkum til gyðinga." Í sáttmálanum skuldbinda stjórnvöld í Þýskalandi sig til að vinna gegn uppgangi öfgastefnu og fasisma auk þess sem kveðið er á um að vesturlandamæri Póllands skuli standa óhögguð.

Samningurinn sem ráðherrarnir undirrituðu öðlast ekki lagagildi fyrr en hann hefur verið staðfestur af þjóðþingum viðkomandi ríkja. Hans-Dietrich Genscher sagði hinsvegar að sérréttindi bandamanna í Þýskalandi heyrðu í raun sögunni til þann 3. október er ríkin renna formlega saman í eitt. Allt frá lokum síðari heimstyrjaldarinnar hafa bandamenn haft úrslitavald í málefnum Berlínar en Austur- og Vestur-Þýskaland urðu fullvalda ríki 1954 og 1955. Genscher lét þess getið að samningur, sem formlega mun binda enda á sérréttindi og skyldur Fjórveldanna í Þýskalandi, yrði undirritaður í New York þann 1. næsta mánaðar.

Reuter

Míkhaíl Gorbatsjov, forseti Sovétríkjanna, og utanríkisráðherrar Fjórveldanna og þýsku ríkjanna skáluðu að lokinni undirritun tímamótasáttmála um stöðu sameinaðs Þýskalands á alþjóðavettvangi í Moskvu í gær. Á myndinni eru (f.v.) Roland Dumas, James Baker, Gorbatsjov, Hans-Dietrich Genscher, Douglas Hurd og Lothar de Maiziere.