Bygging þjónustuíbúða við Hrafnistu í Reykjavík: Landsbankinn ábyrgist greiðslur til verktaka SJÓMANNADAGSRÁÐ og Landsbanki Íslands hafa gengið frá samkomulagi um að bankinn ábyrgist greiðslur til verktaka vegna byggingar þjónustuíbúða fyrir aldraða, sem...

Bygging þjónustuíbúða við Hrafnistu í Reykjavík: Landsbankinn ábyrgist greiðslur til verktaka

SJÓMANNADAGSRÁÐ og Landsbanki Íslands hafa gengið frá samkomulagi um að bankinn ábyrgist greiðslur til verktaka vegna byggingar þjónustuíbúða fyrir aldraða, sem framkvæmdir eru hafnar við á lóð Hrafnistu í Reykjavík. Samkomulagið var undirritað á fundi sjómannadagsráðs s.l. mánudag, þar sem fulltrúar Landsbankans voru viðstaddir.

Að sögn Péturs Sigurðssonar formanns sjómannadagsráðs hófust á síðasta ári viðræður við Landsbankann varðandi aðstoð við fjármögnun framkvæmda við þjónustuíbúðir fyrir aldraða á lóð Hrafnistu í Reykjavík, og þá jafnframt aðstoð við það fólk sem kaupir íbúðirnar. "Landsbankinn mun samkvæmt samkomulaginu ábyrgjast að verktaki fái greiddar allar samningsbundnar greiðslur á réttum tíma. Það sem þó kannski er meginmálið í þessu er að bankinn ætlar sér að aðstoða væntanlega kaupendur yfir fyrstu hjallana, þannig að enginn þurfi að rasa um ráð fram við að selja ofan af sér eldri íbúð eða hús. Við í Sjómannadagssamtökunum erum mjög fegnir því að þetta samstarf við Landsbanka Íslands hefur komist á, en við vissum að ef við næðum slíkum samningum við bankann, þá myndum við ekki lenda úti á köldum klaka kannski á miðjum byggingartíma," sagði hann.

Sverrir Hermannsson, bankastjóri Landsbankans, sagði að segja mætti að bankinn væri á vissan hátt nýgræðingur á þessu sviði, en þó hefði álíka samningur verið gerður áður við önnur samtök. "Það má raunar furðu gegna að jafn einföld leið og þessi skuli ekki hafa verið tíðkuð áður, þannig að banki brúi bil að þessu leiti, og hagræði þannig bæði fyrir því að byggingaraðili geti byggt á sem skemmstum og hagkvæmustum tíma án þessað fjárskortur verði, og ekki síður að fólk neyðist ekki til að selja í ótíma eigur sínar til að mæta þessum nýja kostnaði. Við erum auðvitað sérstaklega ánægðir með að fá að hlaupa undir bagga með sjó mannassamtökunum, þessum landsfrægu framtaksmönnum, sem hafa leyst stórkostlegan vanda með byggingum fyrir aldraða, auk þess sem við munum gera úr þessu frekari viðskipti við samtökin, sem við ætlum okkur meðal annars að efla með þessu."

Framkvæmdir vegna byggingar 26 raðhúsa eru hafnar á lóð Hrafnistu, auk 19 bílskúra, sem áfastir verða 19 húsanna, og að sögn Pétur Sigurðssonar hafa margar þessara íbúða þegar verið seldar. Þvínæst verða hafnar framkvæmdir við íbúðablokk við Kleppsveginn, en í henni verða 36 íbúðir, og austan megin við Hrafnistu verður síðan komið upp endurhæfingaraðstöðu fyrir aldraða ásamt æfingasund laug, sem nýtast mun öllu öldruðu fólki í nágrenni Hrafnistu.

Morgunblaðið/Einar Falur

Frá undirritun samkomulags Landsbanka Íslands og Sjómannadagsráðs varðandi fjármögnun framkvæmda á lóð Hrafnistu í Reykjavík.